136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis.

317. mál
[16:20]
Horfa

Frsm. iðnn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, með síðari breytingum, frá iðnaðarnefnd.

Á haustþingi þegar við vorum að fjalla um breytingar á þessum lögum þá vorum við með bandorm, það voru samþykkt lög um breytingar á ýmsum lögum vegna kolvetnisstarfsemi, og við meðferð frumvarpsins á þingi lagði meiri hluti iðnaðarnefndar fram á annan tug breytingartillagna við frumvarpið. Þá lögðum við m.a. til þá breytingu að leitað yrði umsagna viðeigandi sveitarfélaga ef sótt væri um leyfi til rannsókna og vinnslu á svæði sem er innan 1 sjómílu frá netlögum. Þá var samþykkt breytingartillaga um að bæta nýjum málslið um umsagnarrétt sveitarfélaga við 4. mgr. 10. gr. laganna, nr. 13/2001, um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis.

Virðulegi forseti. Þarna var um flóknar lagabreytingar að ræða og við nánari athugun kom í ljós að ákvæðið um umsagnarrétt sveitarfélaga á ekki heima í þeirri grein heldur í 4. mgr. 7. gr. Þess vegna leggur nefndin til, virðulegi forseti, þetta frumvarp hér, til lagfæringar á þessu máli þannig að rétt megi vera og sem best í löggjöfinni.