136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

kosningar til Alþingis og kosningar til sveitarstjórna.

273. mál
[16:47]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis og lögum um kosningar til sveitarstjórna, þarft mál og vel þess virði að það sé rætt og skoðað. Það eru hins vegar nokkur atriði sem mér þykja umhugsunarvirði og vert að benda á og fá þá umræðu um, hvort heldur er í þingsal eða meðförum nefndarinnar.

Ég get tekið undir að það þurfi að skoða meiri hluta kjósenda í síðustu alþingiskosningum eða síðustu sveitarstjórnarkosningum. Meiri hluti kjósenda í síðustu alþingiskosningum er æðistór hluti til þess að kalla eftir kosningum ef því er að skipta, en engu að síður á þetta að vera slíkt tæki í höndum kjósenda að aldrei geti undir nokkrum kringumstæðum verið hægt að misnota það. Þess vegna þarf verulega að íhuga akkúrat það sem menn eru að ræða um: Hver á fjöldinn að vera sem kallar eftir kosningum?

Ég velti fyrir mér af hverju það er nægjanlegt að hafa 45 daga í alþingiskosningum. Við ræðum það að kosningar skuli fara fram áður en 45 dagar eru liðnir frá því að beiðni hefur komið fram þegar um er að ræða Alþingi sem er erfiðara í raun og veru að kalla eftir, kosningum til Alþingis, miðað við þann fjölda sem við óskum eftir, en það þarf 60 daga ef breyta á og kalla eftir kosningum í sveitarfélögum. Ég held að þarna þurfi í það minnsta að vera eitthvert samræmi á milli.

Þetta þarf að ræða vegna þess að eins og hv. flutningsmaður Helgi Hjörvar sagði í ræðu sinni er þetta frumvarp m.a. komið til vegna ástandsins sem skapaðist í borgarmálunum hér á kjörtímabili þeirra. Við þurfum kannski líka að velta fyrir okkur að Reykjavík er afar stórt og mikið sveitarfélag. Við erum svo með smærri sveitarfélög víðs vegar um landið. Það er lítið mál að kalla eftir helmingi kjósenda í bæjarstjórn eða sveitarstjórn á Tálknafirði. Þá verður líka að geta þess hér í II. kafla, 2. gr. hvort oft sé hægt að efna til kosninga. Er hægt að gera það árlega ef helmingur bæjarbúa óskar eftir því, er þá samkvæmt lögunum hægt að krefjast þess að kosningar til sveitarstjórna séu árlega ef óánægja er? Það er umhugsunarefni fyrir þá sem flytja þetta frumvarp hvernig þeir ætli að bregðast við slíku.

Ég verð að segja alveg eins og er að ég get vart fallist á það að sveitarstjórnarmennirnir sjálfir eigi að geta ráðið því hvort efnt er til kosninga eða ekki. Þeir axla þá ábyrgð í upphafi, þeir gefa kost á sér þegar þeir eru kjörnir. Þá ábyrgð verða þeir að axla þar til kjósendur þeirra ákveða að þeir eigi að víkja. En að sveitarstjórnarmenn sjálfir eigi að geta ákveðið að þeir geti boðað til kosninga þegar þeim þykir henta ef út í það er farið held ég að sé varhugavert. Það eru kjósendur sem eiga að ráða slíku.

Ef sveitarstjórnarmenn geta ekki komið sér saman um nýjan meiri hluta springi sá meiri hluti sem fyrir er verða þeir að fara aðra leið og leita til kjósenda sinna og fara fram á að kjósendur óski eftir því að sveitarstjórnin verði leyst frá störfum en ekki sveitarstjórnarmennirnir sjálfir. Það hugnast mér ekki.

Hins vegar hugnast mér ágætlega, vegna þess að stjórnmálamenn eru bara venjulegt fólk sem getur orðið á í messunni eins og öðrum, aðhaldið sem þetta frumvarp til laga um breytingu á lögum til alþingis- og sveitarstjórnarkosninga getur veitt stjórnmálamönnum þannig að þeir vandi sig ívið betur við ákvarðanatöku og meðferð mála. Þeir vita þá að ekki bara á fjögurra ára fresti geta kjósendur sagt þeim upp heldur geta kjósendur sagt þeim upp oftar ef þetta frumvarp verður að lögum.

Mér þykir vert að skoða, eins og ég benti á, af hverju 45 dagar dugi til Alþingis en 60 daga þurfi til sveitarstjórna. Mér þykir vert að skoða hversu oft á kjörtímabili sveitarstjórnarinnar sé hægt að krefjast kosninga og hversu langt eigi að vera liðið á kjörtímabilið til að hægt sé að óska eftir kosningum. Það verður að skoða muninn á stórum sveitarfélögum og litlum hvað þetta varðar þannig að þetta er umhugsunarvert. Við vitum mætavel að mannlegt eðli er misjafnt og til eru kverúlantar af öllum tegundum og gerðum sem gætu nýtt sér slíkt ef þá einfaldlega langaði til, ef þeim hugnaðist.

Mér finnst frumvarpið áhugavert, mér finnst vert að það verði skoðað frekar og ég vænti þess að nefndin taki það sem hefur komið fram í þessari umræðu til skoðunar, velti þessum möguleikum fyrir sér og þá hvernig megi betrumbæta það ef það verður ofan á.