136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

kosningar til Alþingis og kosningar til sveitarstjórna.

273. mál
[16:54]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir ræðuna vegna þess að hún vakti raunverulegar og góðar spurningar varðandi þetta mál. Ég hef líka aðeins verið hugsi í því og bíð í raun og veru eftir því að við förum að fá umsagnir um þetta mál til þess að sjá viðbrögðin við ákveðnum þáttum þess.

Það sem ég hef verið hugsi yfir er þessi munur á stærð sveitarfélaga, t.d. þeim fjölda sem þarf að safna á höfuðborgarsvæðinu annars vegar og í minni sveitarfélögunum hins vegar og hvort hægt sé að gera einhvers konar greinarmun þarna á milli. Mér finnst þetta afar áhugaverð vangavelta og sömuleiðis hvað þetta er ofboðslegur fjöldi sem þyrfti þá að skrifa undir vegna alþingiskosninga.

Hv. þingmaður reisti þessar spurningar sem mér finnast mikilvægar og skipta gríðarlega miklu máli. Mig langaði kannski að heyra frá hv. þingmanni hversu hátt hlutfall hún teldi eðlilegt eins og t.d. til alþingiskosninga og líka í stóru sveitarfélagi eins og höfuðborginni. Hversu mikið eigum við hugsanlega að taka það niður? Eigum við þá að segja 30%, eigum við að segja 40% eða hvaða hugmyndir hefur hv. þingmaður í því efni?