136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

kosningar til Alþingis og kosningar til sveitarstjórna.

273. mál
[16:59]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Vegna þessa máls, frumvarps til laga um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis og lögum um kosningar til sveitarstjórna, sem er hér flutt af nokkrum þingmönnum Samfylkingarinnar, vil ég árétta að markmið þessa frumvarps er að finna lagalegan grundvöll til beinnar aðkomu almennings, hins almenna kjósanda, að því að geta krafist kosninga til Alþingis eða sveitarstjórnar þó að það sé innan kjörtímabilsins. Eins og nú er á almenningur engan möguleika á slíkri aðkomu.

Ef við lítum á hvernig mál hafa þróast á undanförnum árum og missirum, ekki hvað síst síðustu missirin, hversu mjög lýðræðið hefur látið undan fyrir framkvæmdarvaldinu og í rauninni alræði þeirra sem hafa komist að eða verið í skjóli laganna hefur lýðræðið orðið að láta undan síga á svo mörgum sviðum. Margir hafa talað um lýðræðisbyltinguna þegar fjöldi fólks hefur komið út á Austurvöll, út á torg og í samkomuhús vítt og breitt um landið á undanförnum vikum og mánuðum til að láta í ljós og koma á framfæri kröfu sinni um breytingar á stjórnarháttum og því hverjir sitja við stjórnvölinn. Fjöldinn vildi eiga aðkomu að því að geta breytt þar.

Þessi tillaga sem gengur út á það að ef helmingur þess fjölda kjósenda sem kaus í síðustu almennu alþingiskosningum óskar eftir því að kosið verði að nýju áður en yfirstandandi kjörtímabili lýkur skuli kosningar fara fram. Hvort það er helmingur, 40% eða 35% er í sjálfu sér prósentutala sem má vega og meta en verum samt minnug þess að okkur ber að treysta almenningi. Aðkoma almennings að áhrifum á þessi mál á að vera heldur sterkari en veikari að mínu mati. Í mínum huga er þetta eitt af mörgum brýnum málum í stjórnlagaumhverfi okkar sem þarf að breyta, um beina aðkomu almennings að því að hafa áhrif á það að kjósa á ný fulltrúa sína á löggjafarsamkomuna. Þau markmið sem koma þarna fram styð ég alveg eindregið.

Hitt lýtur svo sem einnig að sveitarstjórnarkosningum þar sem gert er ráð fyrir og lagt til að tilsvarandi fjöldi kjósenda sem kaus í síðustu almennu sveitarstjórnarkosningum geti óskað eftir því skriflega að kosið verði að nýju áður en yfirstandandi kjörtímabili lýkur og skulu þá kosningar fara fram. Mér finnst þetta líka eðlileg og sjálfsögð lýðræðiskrafa. Hvort það eru 35, 40 eða 45% finnst mér ekki skipta miklu en það mega ekki vera meira en 50%, alls ekki. Um leið og almenningur er meðvitaður um lýðræðislega möguleika sína til að hafa áhrif munu kjörnir fulltrúar að sjálfsögðu líka fara með það vald og þá möguleika af gaumgæfni. Er þá mesta hættan sem að þjóðinni steðjar að gengið verði til kosninga? Nei, það er það ekki. Það er hin lýðræðislega aðkoma almennings, fólksins í landinu, til að geta ráðið hverjir sitja við stjórnvölinn, hverjir eru fulltrúar fólksins, hvort heldur er í sveitarstjórnum eða á Alþingi.

Mér finnst ekki rétt, eins og þarna er kveðið á um, að sveitarstjórn þurfi síðan að samþykkja tillögu sem kemur fram frá almennum kjósendum um að kosning fari fram. Það má vel vera að síðan megi finna tvo möguleika í þessu, annars vegar ef þeir eru færri sem skrifa undir slíkt skjal og sveitarstjórn tæki afstöðu til þess, en þegar við erum komin með upp undir 40–50% af kjósendum sem óska eftir endurtekningu á kosningum finnst mér að milliliðlaus aðgerð eigi að fara í gang.

Þetta er bara mín persónulega skoðun á þessu máli, frú forseti. Ég tel að okkur beri skylda til að grípa til aðgerða, grípa til lagasetninga sem tryggja og hvetja til beinnar lýðræðislegrar aðkomu almennings, kjósenda í landinu, til að kjósa sér fulltrúa, hvort sem er til sveitarstjórnar eða Alþingis, og skipta þeim út og kjósa nýja ef tiltekinn hópur krefst þess. Það eru bara sjálfsögð og eðlileg lýðræðisréttindi í lýðræðislandi. Hvar þau mörk liggja tölulega í prósentum má sjálfsagt velta fyrir sér en þetta er eins um réttinn til að setja mál í þjóðaratkvæðagreiðslu, það er líka brýnt að setja lög um að tiltekinn fjöldi kjósenda, almennings í landinu, geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um mál og að sú krafa sé bein, þ.e. að maður þurfi ekki að bera hana undir þing eða forseta heldur sé beinn réttur fólksins að svo verði gert. Ég tel líka sjálfsagt að almenningur, þjóðin í landinu, hafi beinan rétt til þjóðaratkvæðagreiðslna um stór mál sem hann hefur skýra skoðun á.