136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

kosningar til Alþingis og kosningar til sveitarstjórna.

273. mál
[17:07]
Horfa

Flm. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka þessar góðu umræður og finnst til fyrirmyndar hvernig alþingismenn úr ólíkum stjórnmálaflokkum draga hver sinn lærdóm af sögunni og líka því sem gerst hefur í samtíma okkar og reyna að ræða málefnalega til hvaða bóta við getum gripið á lagaumhverfi okkar til að mæta þeim ágöllum sem við teljum vera eða því sem betur megi fara.

Það er orðið allnokkuð síðan ég kom fyrst að því að skoða þessi mál, þá sem forseti borgarstjórnar Reykjavíkur og formaður stjórnkerfisnefndar, og ég held að það sé alveg óhætt að segja að reynslan af allsherjaratkvæðagreiðslum að því marki sem þær hafa verið reyndar sýni okkur að þar sé mjög vandmeðfarið. Það hefur einatt gerst að um slíkar atkvæðagreiðslur hafa risið deilur um aðferðafræðina, fjöldann, hvort þær eigi að vera bindandi, valkostina o.s.frv. Það er mikilvægt að fram fari efnisleg umræða um útfærslu á þeim grundvallarsjónarmiðum sem þetta frumvarp fjallar um.

Ég hygg að allir þeir 63 einstaklingar sem eru þjóðkjörnir fulltrúar á Alþingi Íslendinga séu sammála um að þing eða sveitarstjórn eigi ekki að sitja í andstöðu við skýran vilja meiri hluta kjósenda. En það er spurning um með hvaða hætti það yrði útfært. Eins og kom fram hjá hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur er þetta auðvitað hluti af hinni stóru lýðræðisumræðu, af borgarabyltingunni sem hv. þm. Mörður Árnason nefndi, og ég er sammála hv. þm. Jóni Bjarnasyni um að það er líka mikilvægt að setja inn ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur um einstök mál.

Þar er hins vegar helst það álitamál uppi í tengslum við þetta mál hvaða fjölda þurfi til að knýja fram atkvæðagreiðslu. Þar ættum við að horfa á miklu lægra hlutfall kjósenda, kannski 20%, til að knýja fram kosningar um stærri mál en hér er hins vegar gert ráð fyrir 50%. Það er kannski það atriði sem allir ræðumenn nefndu og er auðvitað það sem þarf að fara yfir. Ég er sammála hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur — sérlega gaman að innleggi hennar í umræðuna sem verið hefur bæjarstjóri í sveitarfélagi og þannig með allnokkra reynslu af því sem lýtur að sveitarstjórnunum — að það er ómögulegt að hafa reglu um að í Reykjavík eigi að gilda eitthvert annað hlutfall en í öðrum sveitarfélögum í landinu þótt það sé mjög stórt sveitarfélag. Mér fannst ekki boðlegt við samningu frumvarpsins að hafa eitthvert slíkt ákvæði vegna þess að hér ættu auðvitað bara að gilda sömu reglur og annars staðar.

Hvað varðar athugasemd hennar um 45 og 60 daga hygg ég að það sé bara dregið af almenna boðunarfrestinum í hvorum kosningum um sig. Ég er sammála henni um að það færi betur á því að samræma þetta atriði og hafa jafnlangan frest til kosninga í báðum málum.

Þess misskilnings hefur aðeins gætt í umræðu um málið að það ákvæði sem lýtur að því að aukinn meiri hluti sveitarstjórnar, þrír fjórðu hlutar, geti knúið fram kosningar tengist því ákvæði að kjósendur í sveitarfélagi geti knúið fram kosningar. Það hefur verið mislesið sums staðar þannig að þegar kjósendur í sveitarfélagi hafi krafist kosninga þurfi aukinn meiri hluta sveitarstjórnar til að staðfesta það. Svo er ekki. Hér er um það að ræða að annaðhvort meiri hluti kjósenda eða aukinn meiri hluti fulltrúa í sveitarstjórn getur knúið fram kosningar. Í sjálfu sér er sá þáttur málsins af öðrum rótum runninn og ef hann er umdeildur, eins og ætla mátti kannski af máli hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, held ég að út af fyrir sig gæti sá þáttur málsins fallið út í meðhöndlun nefndar. Þó hafa verið sjónarmið um það að það sé of langt gengið að krefjast aukins meiri hluta til að sveitarstjórn geti sagt af sér og kallað fram kosningar en hins vegar neyðist ég til að taka undir sjónarmið hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur um að það sé eðlilegt í meginatriðum að kjósendur hafi þá kröfu á sveitarstjórnarmenn sína að þeir ljúki því kjörtímabili sem þeir buðu sig fram til. Ég held þó að þarna verði einhver varnagli að vera, hver svo sem hann er, og þá a.m.k. ættu menn að geta verið því sammála að ef öll sveitarstjórnin er einhuga um að henni sé ekki sætt lengur og nauðsynlegt sé að efna til kosninga í sveitarfélaginu ætti a.m.k. sveitarstjórnin öll að vera nægilegt tilefni til að efnt væri til kosninga.

Hv. þingmaður nefndi líka hvort setja ætti inn ákvæði um það hversu oft væri hægt að knýja fram slíkar kosningar. Ég hugleiddi það við samningu málsins og held að í því efni hljóti að koma sterklega til greina í sveitarstjórnunum að hafa á því einhverjar takmarkanir, einu sinni eða tvisvar á kjörtímabili, af því að hér er um neyðarhemil að ræða, en ég eftirlæt það út af fyrir sig sveitarstjórnunum.

Hvað varðar þá fjöldakröfu sem gerð er til að knýja fram kosningar er það rétt, um það mál er enginn endanlegur sannleikur til. Klárlega hlýtur að vera nauðsynlegt að efna til kosninga ef meiri hluti þeirra sem þátt tóku í síðustu kosningum krefst þess. Ég hygg að í alþingiskosningum væru það um 85 þúsund undirskriftir. Það þýddi í Reykjavík, stærsta sveitarfélaginu, kannski 33 þúsund undirskriftir. Það er auðvitað mikið af undirskriftum, en engu að síður mark sem sannarlega er hægt að ná og hefur verið náð hlutfallslega áður ef mikil, víðtæk og almenn óánægja er með sveitarstjórnina eða landstjórnina.

Það má líka hugsa sér, eins og sumir þingmanna hafa hér nefnt, að lækka þessa tölu. Því hefur verið haldið til haga að um 30% kosningabærra manna í landinu eru í einum og sama stjórnmálaflokknum þannig að það væri kannski óvarlegt að fara niður fyrir þá hlutfallstölu. 40% þýddi þá 65–70 þúsund undirskriftir og 30% niður undir 50 þúsund. Ég held að það sé verðugt umfjöllunarefni fyrir þá nefnd sem fær málið til umfjöllunar, allsherjarnefnd, og þá umsagnaraðila sem að málinu koma að gaumgæfa þetta atriði. Það er auðvitað mjög mikilvægt að annars vegar sé hægt að ná því marki en sömuleiðis að ekki sé gripið í þennan hemil í tíma og ótíma, heldur sé hann fyrst og fremst eins og fram kom, hygg ég hjá öllum þingmönnum, aðhaldstæki kjósenda með okkur, kjörnum fulltrúum, vitundin og vissan um það að hægt sé að binda endi á kjörtímabil og kalla fram kosningar hvenær sem er og þau áhrif sem það muni hafa á bætt vinnubrögð hjá okkur, á hina lýðræðislegu umræðu og kannski ekki síst á það mikilvæga atriði sem stundum vill gleymast, bæði hér í sölum Alþingis og sveitarstjórnanna, að miðla síðan upplýsingum til almennings um það sem verið er að gera og hvers vegna verið er að því.