136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

15. mál
[17:30]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Örstutt. Ég fagna þessu frumvarpi framsóknarmanna og þakka flutningsmanni þess hér, hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur, fyrir góða greinargerð fyrir málinu. Um þetta mætti hafa langt mál og einhver mundi nú tala lengi um sögu þess og fornar væringar sem ég ætla ekki að gera.

Það er ljóst að a.m.k. meiri hluti stjórnmálaflokkanna og glöggur meiri hluti á Alþingi vill setja ákvæði í stjórnarskrána um að helstu auðlindir Íslands séu í þjóðareign og er þeirrar skoðunar að þar sé ekki um neitt skrautákvæði að ræða heldur raunverulegt efnisákvæði eftir miklar deilur sem hafa verið eitt af leiðarstefjunum í íslenskum stjórnmálum í tvo, þrjá áratugi, þó að ekki sé nú farið lengra aftur í tímann.

Þetta er í sjálfu sér mikilvægt og engin leið að leggja of mikla áherslu á það en það er líka mikilvægt í því ljósi að flokkur minn og flokkur hv. flutningsmanns hér áðan hafa lýst yfir þeirri afstöðu að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið og aðrir flokkar eru á hægri leið, sumir mjög hægri en aðrir aðeins hraðari leið, að sömu afstöðu. Eitt af því sem verður að gerast áður en það getur orðið að veruleika er að þjóðareign á auðlind sjávar sé algjörlega skýr vegna þess að ef hún er það ekki er varla hægt að ganga til samstarfs við þjóðir og ríki Evrópusambandsins vegna þess að aðilar innan sambandsins mundu þá geta átt aðgang að auðlind sjávar og keypt sig inn í þann kvóta sem sumir útgerðarmenn hér telja nánast sína eign og einn af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Illugi Gunnarsson, kallaði hér séreignarrétt þeirra í umræðu fyrir nokkrum dögum. Það er ákaflega mikilvægt að þetta verði gert því að þetta stendur í vegi fyrir því að við getum virt fyrir okkur aðild að Evrópusambandinu.

Í öðru lagi lít ég svo á að fyrst Framsóknarflokkurinn hefur nú sagt A, það hefur hann reyndar gert, þetta er ekki í fyrsta sinn sem hann gerir það með einhverjum hætti, þá hljóti hann líka að segja B og standi með okkur að því, samfylkingarmönnum og öðrum, að virkja þjóðareign auðlinda sjávar með því að afnema, í áföngum væntanlega, gamla gjafakvótakerfið — það er að vísu þannig að fáir þeirra sem fengu þær gjafir njóta þeirra enn — afnema það fyrirkomulag sem nú er við lýði með því t.d. að innkalla heimildirnar á segjum 20 árum. Að fara þá leið sem kölluð var fyrningarleið í áliti auðlindanefndarinnar sem talað var um áðan og má þá ræða hvernig það yrði nákvæmlega útfært, því að það er ekkert heilagt í þeim efnum.

Þetta vildi ég segja hér af minni hálfu og míns flokks, þó að ég hafi svo sem ekki beðið formlega um leyfi til þess en þetta mál er of augljóst baráttumál míns flokks til að þess leyfis þurfi að biðja. Þakka ég enn fyrir þetta frumvarp og flutningsmanni fyrir gott mál hér í sinni ræðu.