136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

15. mál
[17:35]
Horfa

Flm. (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góðar undirtektir. Ég vil taka fram, svo það sé enginn misskilningur, að kannski sagði hv. þingmaður aðeins of mikið þegar hann talaði um afstöðu Framsóknarflokksins til Evrópusambandsins, við komumst ekki að þeirri niðurstöðu að við eigum að ganga í Evrópusambandið heldur að við eigum að sækja um aðild. Það er ekki alveg það sama. Ég vildi að þetta kæmi fram. Að öðru leyti er ég sammála hv. þingmanni um það að ef til þess kæmi að Ísland sækti um aðild að Evrópusambandinu þá er mjög mikilvægt að stjórnarskránni hafi verið breytt með þeim hætti sem hér er lagt til.

Í þriðja lagi vil ég taka fram að samþykkt þessarar breytingar á stjórnarskrá Íslands þýðir ekki sjálfkrafa að aflamarkskerfinu, lögum um stjórn fiskveiða, sé breytt. Það er í raun önnur ákvörðun. Til þess að það fari ekkert á milli mála þá er Framsóknarflokkurinn ekki með framlagningu á þessu máli að taka afstöðu gegn því fyrirkomulagi sem hefur verið við lýði á Íslandi á síðustu árum og hefur verið kennt við kvótakerfið. Það er önnur ákvörðun sem þyrfti þá að taka og ég er ekki tilbúin að taka hana í þessari stuttu ræðu minni.