136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

stjórnarskipunarlög.

15. mál
[17:36]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Já, það er auðvitað rétt hjá hv. þingmanni að það er ekki stefna Framsóknarflokksins að ganga í Evrópusambandið. Það er ekki heldur stefna Samfylkingarinnar heldur að sækja um aðild að Evrópusambandinu og ganga inn ef nógu góðir samningar nást til þess að hagsmunir Íslands séu í heiðri hafðir við þá inngöngu. Eitt af því sem skiptir mestu máli þar eru einmitt samningarnir um sjávarútveginn og ég tek undir það að forsenda þess að við getum náð slíkum samningum, samningum sem eru viðunandi, er að við höfum sett þetta ákvæði í stjórnarskrá okkar.

Ég ætla ekki að deila um kvótakerfið sem svo er kallað og er auðvitað í tvennu lagi. Annars vegar aflamarksprinsippið og hins vegar hvernig það fór af stað og deilurnar um eignarréttinn á kvótanum og sú þróun sem hér varð fyrst 1983, svo 1990 og loks 1998 með veðsetningarreglunum.

Ég lýsi því bara yfir og þá sem minni skoðun að þegar menn segja A með þessum hætti þá hljóta menn einhvern tímann síðar, þegar tíminn er fullnaður og málið þroskað, að segja líka B og klára svo stafrófið að lokum í sátt og samlyndi með öðrum stjórnmálaflokkum og alþýðu manna hvernig svo sem vopnaviðskipti hafa verið í fortíðinni.