136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

Þríhnjúkahellir.

68. mál
[17:48]
Horfa

Flm. (Árni Johnsen) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um áskorun til hæstv. iðnaðarráðherra um að hefja nú þegar skipulagða vinnu til þess að fylgja eftir hugmyndum um að gera Þríhnjúkahelli í Bláfjöllum, stærsta hraunhelli í heimi, aðgengilegan fyrir ferðamenn.

Þríhnjúkahellir var ókannaður þar til á Jónsmessu 1974 þegar Árni B. Stefánsson, augnlæknir og hellakönnuður, seig niður á botn gígsins. Það var hins vegar ekki gert opinskátt fyrr en eftir að Daði Garðarsson úr Hjálparsveit skáta í Vestmannaeyjum seig niður á botn hellisins þremur árum seinna í leiðangri Eyjaskáta 17. júní 1977 en frá því var greint í Morgunblaðinu. Þá upplýstist að fyrr hefði verið sigið í hellinn. Hellirinn er einstakur að gerð, tröllaukið gímald, um 175 metrar á dýpt og á við fótboltavöll að flatarmáli í botni, stærsta þekkta hraunhvelfing í heimi og eitt merkasta náttúruundur á Íslandi, falinn neðan jarðar við bæjardyr höfuðborgarinnar í landi Kópavogs, nánar tiltekið á leiðinni upp í Bláfjöll, skíðasvæðið þar.

Þríhnjúkahellir er einstakt náttúruundur á heimsmælikvarða en víða um heim er gert út á heimsóknir í sérstæða hella og þeir skipta miklu máli í ferðaþjónustu og landkynningu. Stóru íbúðablokkirnar þrjár efst á Laugarásnum í Reykjavík eru þekkt stærð fyrir marga. Ef þær væru settar, þrjár blokkir, hlið við hlið á botn hellisins og Hallgrímskirkja ofan á blokkirnar mundi vanta 15 metra upp á að krossinn á kirkjunni stæði upp úr gígnum. Þetta er gímaldið sem um er að ræða.

Þríhnjúkar ehf. heitir félag áhugamanna undir forustu Árna B. Stefánssonar og hefur félagið hafið undirbúning að því að gera Þríhnjúkahelli aðgengilegan. VSÓ-ráðgjöf hefur m.a. unnið að verkefninu og er að vænta upplýsinga um næstu skref innan þriggja mánaða, en þær hugmyndir sem nú er unnið að byggjast á því að gera 200 metra löng göng inn í Þríhnjúkahellinn sem mundu opnast inn í hellishvelfinguna á 64 metra dýpi að stórum svölum, sem þar yrðu byggðar, og síðan yrði jafnvel hringstigi niður á botn hellisins. Ef ráðist verður í verkið á annað borð verður auðvitað ekki hjá því komist að opna leið fyrir ferðamenn niður á botn hellisins. Það er hreinlega ekki hægt að gera fólki það að geta ekki stigið fæti á botn stærsta hellis í heimi, það er ekki mannlegt.

Þríhnjúkar ehf. hafa gert samning við Kópavogsbæ um framgang verkefnisins á undirbúningsstigi, en Þríhnjúkar í Bláfjöllum eru í landi Kópavogs. Verkefnið er firnamikið og reikna má með að allur pakkinn kosti hátt í milljarð króna, svalir, hringstigar, lýsing og annað sem þarf til þess að fulls metnaðar sé gætt og nærgætni við náttúruundrið sjálft. Aðgengi að Þríhnjúkahelli er einn af mörgum möguleikum í markaðssetningu Íslands á alþjóðavettvangi, enn ein fjólan í íslenska náttúruvöndinn.

Það er engin spurning að a.m.k. tugþúsundir ferðamanna mundu heimsækja þetta náttúruundur á hverju ári þannig að með því að hrundið sé í framkvæmd því verkefni að gera það aðgengilegt fyrir ferðamenn er tryggt að það muni líka skapa tekjur.

Þríhnjúkar eru í hálendisbrúninni ofan við Heiðmörk, 5 km vestur af skíðasvæðinu í Bláfjöllum og 20 km suðaustan Reykjavíkur. Hnjúkarnir eru nánast beint fram undan sé ekið eftir Langholtsvegi eða meðfram Rauðavatni. Undir norðaustasta gígnum er þessi firnadjúpi gígur, ótrúlega stór flöskulaga gíghvelfing. Botn gígketilsins er 120 metra undir yfirborði jarðar og gímaldið sjálft er um 150 þúsund rúmmetrar. Botninn sjálfur er 75–48 metra söðullaga hraunbingur, eins og fyrr getur á stærð við fótboltavöll.

Á Íslandi er enginn aðgengilegur sýningarhellir með göngustígum og raflýsingu. Tveir fegurstu hellar landsins, Jörundur og Árnahellir, hafa verið friðlýstir sérstaklega og eru lokaðir fyrir nánast allri umferð.

Þríhnjúkahellir er ein merkilegasta náttúrumyndun Íslands og gígurinn er eins og sagt er með afbrigðum óaðgengilegur og hrollvekjandi, en hann er stærsti hellir í heimi og túlkar með sjálfum sér þau reginöfl sem búa í iðrum jarðar. Í ógn sinni er Þríhnjúkahellir aðlaðandi, en til þess að hann verði hluti af daglegum möguleikum innlendra sem erlendra ferðamanna þurfa margir að leggja hönd á plóginn, Alþingi, ráðuneyti, sveitarfélög og margir fleiri. Hér er um svo einstæðan og metnaðarfullan möguleika að ræða að ekkert má til spara að opna þennan helli eins smekklega og kostur er.

Þríhnjúkahellirinn opnast efst í einum af Þríhnjúkunum og þar er aðgengi stórhættulegt en hefur verið girt af til að stemma stigu við hættu fyrir ferðamenn og náttúruskoðendur. Þar er leiðin niður eins og nú stendur. Hugmyndin að göngum byggist á því að um 200 metra göng verði frá austri, þriggja metra há með 10 gráðu halla og mundu þá opnast niðri í gígnum, eins og fyrr getur á 64 metra dýpi. Þetta er möguleiki sem nú er unnið að því að útfæra og skoða.

Það eru ákaflega fallegar litasamsetningar víða í hellinum og hann er djásn undir yfirborði jarðar. Það má og nefna að enginn aðgengilegur sýningarhellir er til, eins og ég gat um rétt áðan, og svona sýningarhelli skortir sérstaklega. Íslenskir hraunhellar eru margir hverjir stórmerkilegir en iðulega óaðgengilegir fyrir almenning. Til viðbótar við Þríhnjúkagíg má t.d. hugsa sér að raflýsa og bæta aðgengi Víðgelmis eða Surtshellis.

Það er engin spurning að Þríhnjúkagígur er ein merkilegasta náttúrumyndun landsins. Það eru reyndar ekki til margar góðar myndir úr gíghvelfingunni sjálfri því að hún er náttúrlega óstjórnlega dimm og þarf mikla lýsingu til að ná góðum myndum. Engar góðar myndir eru til úr gíghálsinum vegna tæknilegra örðugleika við myndatöku. Erfitt er því að gera fólki grein fyrir því undri sem hann er. Gíghvelfingin er svo stór að í leiðangrinum 1991 dugði ekki 2,5 kílóvatta lýsing til að hægt væri að taka myndir fyrir næmustu myndbandstökuvél þess tíma. Það dugði líkt og kertaljós í Surtshelli fyrir þá sem þangað hafa komið. Myndir sem náðust á ljósmyndavél Árna B. Stefánssonar 1991 eru einu góðu myndirnar sem eru til af gíghvelfingunni.

Það er ljóst að það kostar talsvert mikið að gera þetta náttúruundur á heimsmælikvarða aðgengilegt og margir þyrftu að koma að því. Þetta er metnaðarfullt verkefni til að opna dyrnar að mjög sérstæðri náttúruperlu. Hún blasir ekki við sól og sumri eins og fossar landsins, hún er í jarðskorpunni sjálfri en slíkur ketill, slíkur tankur að með ólíkindum er, 150 þúsund rúmmetrar. Þessi framkvæmd, þó að hún kosti um einn milljarð króna, mun standa undir sér þegar upp er staðið. Það er mjög eðlilegt að opinberir aðilar sem einkaaðilar freisti þess að ná saman og hugsanlega með söfnunarátaki, jafnvel á alþjóðavettvangi, en það fer ekkert á milli mála að framkvæmd sem hér um ræðir er auglýsing, hún er kynning á Íslandi, hún er kynning á því afli sem býr í iðrum landsins, lands elds og íss, og mun skipta miklu máli í þeirri flóru sem Íslendingar eiga möguleika á að kynna og vekja athygli á í náttúru Íslands þar sem eru til svo ótrúlega miklar andstæður í stóru og smáu.

Það segir svolítið mikið þegar Árni B. Stefánsson augnlæknir lýsir ferð sinni niður í gíginn í fyrsta sinn.

Hann segir, með leyfi forseta:

„Það var alveg ólýsanleg tilfinning að síga þarna niður. Einkennileg tómleikakennd fyllti mig neðarlega í gíghálsinum, tilfinning blönduð sérkennilegri gleði og eftirvæntingu þegar risavaxin gíghvelfingin opnaðist fyrir augum mér. Ef til vill ekki ósvipað þeirri himnesku sælu sem þeir sem vaktir eru úr dái lýsa. Sálin svífur þá yfir eigin líkama, horfir á skrokkinn ofan frá og er í þann mund að hverfa á vit eilífðarinnar og ljóssins. Ég varð bergnuminn í orðsins fyllstu merkinu. Dinglaði eins og dordingull úr hlöðulofti, á leið niður í þetta ótrúlega stóra gímald.

Án segulnaglans hefði ég spunnist í ómegin. Með honum gat ég ekki aðeins stöðvað snúninginn, heldur líka stillt mig inn á hentugt sjónarhorn til þess að gaumgæfa veggina, finna hugsanlegar hellarásir eða annað sem skipti máli. Mikið óskaplega var ég lítill og mikið feiknarlega var gímaldið stórt.“

Þetta er dramatísk lýsing hjá þeim sem fyrstur seig í hellinn og hefur síðan fylgt eftir þeirri hugmynd að opna hann augum almennings, aðgengi almennings innan lands sem utan.

Virðulegur forseti. Ég sé að nú er komin í salinn hv. þm. Álfheiður Ingadóttir. Formaður þingflokks Vinstri grænna bað mig að tala það lengi að hún væri komin í salinn, hún hefði þurft að ná í okkur gögn, og svo segja menn svo að við vinnum ekki saman hér. (ÁI: Takk fyrir það.)

Ég legg til að að lokinni þessari umræðu, virðulegi forseti, verði þessari þingsályktunartillögu vísað til iðnaðarnefndar.