136. löggjafarþing — 84. fundur,  19. feb. 2009.

framleiðsla köfnunarefnisáburðar.

110. mál
[18:34]
Horfa

Flm. (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um framleiðslu köfnunarefnisáburðar hér á landi. Flutningsmenn þessarar tillögu eru auki mín þeir hv. þingmenn Vinstri grænna Álfheiður Ingadóttir, Atli Gíslason, Björn Valur Gíslason varaþingmaður, Ögmundur Jónasson, hv. þingmaður og nú ráðherra, og Árni Þór Sigurðsson.

Tillögugreinin hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hefja nú þegar könnun á hagkvæmni og möguleikum á að hefja að nýju framleiðslu á köfnunarefnisáburði hérlendis, með það að markmiði að tryggja öryggi og hagkvæmni í íslenskum landbúnaði og nýta innlenda orkugjafa og starfskrafta til innlendrar framleiðslu á áburði.

Reynist áburðarframleiðslan hagkvæm verði jafnframt kannaðar leiðir til fjármögnunar verkefnisins og að ríkið geti komið beint að henni ef þess er þörf til að tryggja málinu öruggan framgang.

Ríkisstjórnin ljúki athugun sinni og skili greinargerð ásamt tillögum til Alþingis eigi síðar en 1. mars 2009.“

Þetta stendur í tillögugreininni. Það er að vísu farið að styttast í 1. mars en tillagan var lögð fram á fyrstu dögum þings í október. Þó að það verði eilítið síðar en 1. mars er samt alveg ljóst að brýnt er að þeirri könnun sem hér er lagt til að verði farið í verði hraðað.

Með þessari tillögu fylgir greinargerð, frú forseti:

Innlend framleiðsla á áburði hófst árið 1954 þegar Áburðarverksmiðjan í Gufunesi, síðar Áburðarverksmiðja ríkisins, hóf starfsemi sína, en hún var stofnuð árið 1952 og fjármögnuð með Marshallaðstoðinni. Áburðarverksmiðjan framleiddi köfnunarefnisáburð sem gekk undir nafninu Kjarni.

Áburðarverksmiðju ríkisins var breytt í hlutafélag samkvæmt lögum nr. 89/1994, um stofnun hlutafélags um Áburðarverksmiðju ríkisins. Eftir hlutafélagavæðinguna var Áburðarverksmiðjan þó enn að fullu í eigu ríkisins sem hafði einkarétt til framleiðslu og sölu á áburði fram til 1. janúar 1995 þegar innflutningur áburðar varð frjáls í framhaldi af aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Allt hlutafé í Áburðarverksmiðjunni var síðan selt til einkaaðila árið 1999 og frá árinu 2001 var áburður ekki lengur framleiddur hér á landi heldur eingöngu fluttur inn.

Það er í sjálfu sér sorgarsaga, frú forseti, hvernig mikilvæg fyrirtæki fyrir framleiðslu landsmanna voru einkavædd, svo seld og síðan í kjölfarið lögð niður og varan eftirleiðis flutt inn. Sala á Áburðarverksmiðju ríkisins á sínum tíma var nánast gjöf og markar að sönnu sorglegan enda á öflugri og góðri framleiðslu sem var í Áburðarverksmiðju ríkisins í Gufunesi. Þó svo að tímarnir krefðust þess að hún yrði flutt frá þeim stað sem hún var var þörfin engu að síður fyrir hendi og hefði verið nær að flytja hana á hentugri stað en að selja hana og loka síðan.

Áburðarverksmiðjan í Gufunesi framleiddi um 24 þús. tonn árlega fyrst um sinn en framleiðslan fór vaxandi og var árið 1999 orðin 65 þús. tonn. Áburður var þá seldur nær eingöngu í heildsölu til kaupfélaga og verslunarfyrirtækja. Áburðarverksmiðjan notaði að meðaltali um 140 GWh af orku á ársgrundvelli meðan hún starfaði.

Köfnunarefnisáburður eða ammóníumnítratáburður er framleiddur með rafgreiningu vatns í vetni og með hreinsun köfnunarefnis úr andrúmsloftinu í sérstöku ferli. Þessum tveimur frumefnum er síðan blandað saman við háan þrýsting til þess að mynda ammóníak og framleidd saltpéturssýra úr ammóníakinu. Áburðurinn sjálfur (ammóníumnítrat) er síðan framleiddur úr blöndu af saltpéturssýru og ammóníaki.

Frá því að efnaframleiðslu á köfnunarefnisáburði var hætt árið 2001 hefur áburður fyrir íslenskan markað verið innfluttur og heimsmarkaðsverð farið hratt vaxandi síðustu missiri. Mikil spenna hefur verið á áburðarmarkaði og stafar hún m.a. af aukinni eftirspurn eftir matvælum og aukinni áherslu á lífrænt eldsneyti sem m.a. er framleitt úr repju og maís. Þannig hafa milljónir hektara akurlendis í Evrópu verið teknar til ræktunar auk þess sem Kína og Indland hafa stóraukið matvælaframleiðslu og áburðarnotkun sína. Því hefur eftirspurn eftir áburði aukist verulega en framboð ekki fylgt eftir og verð áburðar stórhækkað. Auk þess hafa gengissveiflur íslensku krónunnar haft áhrif á verðlag til bænda. Sem dæmi má nefna að áburðarverð hérlendis hefur hækkað um allt að 70–80% milli áranna 2006 og 2008 og vægi áburðar í útreikningum á verðlagsgrundvelli kúabús hefur t.d. aukist verulega, samanber nánari skilgreiningar sem fylgja hér. Því er ljóst að verðhækkanir á áburði koma íslenskum bændum og íslenskri matvælaframleiðslu verulega illa og þykir rétt að skoða hagkvæmni þess að hefja aftur innlenda framleiðslu á áburði.

Hér er gert að tillögu að ríkisstjórnin kanni möguleika og hagkvæmni þess að hefja framleiðslu köfnunarefnisáburðar hér á landi. Með innlendri framleiðslu á köfnunarefnisáburði er hægt að tryggja betur sjálfsforræði Íslands í landbúnaði og tryggja bændum hagstæðari kjör, nú þegar innfluttur áburður hefur hækkað verulega í verði. Þá er innlend framleiðsla eftirsóknarverð þar sem hún getur leitt til aukinnar samkeppnishæfni og lægri framleiðslukostnaðar innlendrar matvælaframleiðslu og þannig m.a. stuðlað að lægra matvælaverði til neytenda. Auk þess er ljóst að flutningur á áburði milli landa og heimshluta eyðir verulegri orku og veldur mikilli losun koltvísýrings út í andrúmsloftið. Því er ekki síður mikilvægt af umhverfisástæðum að flutningsleiðir séu sem stystar en innlend áburðarframleiðsla mundi einmitt tryggja það.

Reynist íslensk áburðarframleiðsla hagkvæm, m.a. með tilliti til kostnaðar, orkuöflunar, umhverfisþátta og eflingar matvælaöryggis, er eðlilegt að ríkið komi beint að fjármögnun verkefnisins í samstarfi við sveitarfélög, fyrirtæki og félög bænda og einstaklinga ef það er nauðsynlegt til að tryggja framgang málsins.

Frú forseti. Með þessari þingsályktunartillögu eru fylgiskjöl sem sýna bæði áburðarnotkun á Íslandi og hversu mikil áhrif hækkun verðs á áburði hefur á framleiðslukostnað og sjálfbæra stöðu íslensks landbúnaðar.

Til viðbótar þessu, frú forseti, varð mikil hækkun á áburði á milli áranna 2006 og 2008, 70–80% hækkun. Fyrir árið í ár virðist þessi hækkun enn hafa haldið áfram og samkvæmt þeim tölum sem nú liggja fyrir um hugsanlegt verð á áburði erum við að tala um allt að 30% hækkun á milli áranna 2008 og 2009. Fyrir landbúnað á Íslandi getur þetta þýtt, ef notkun er svipuð og verið hefur, um 800 millj. kr., bara hækkunin sem kemur til framkvæmda á þessu ári ef svo fer.

Í þeirri stöðu sem íslenskur landbúnaður er nú, íslenskir bændur, í þeirri erfiðu fjárhagsstöðu sem þeir eru í eins og önnur fyrirtæki og önnur starfsemi hér á landi er þessi áburðarverðshækkun þeim mjög þung í skauti. Þeir hafa kallað eftir aðgerðum af hálfu ríkisins og spurt: Hvað eigum við að gera? Við höfum ekki fjármagn, við fáum ekki lánsfé á viðunandi kjörum til að kaupa áburð í ár og stöndum frammi fyrir geigvænlegum erfiðleikum hvað það varðar.

Það verður að koma til móts við þessa stöðu íslensks landbúnaðar í ár og næsta ár til að tryggja hér landbúnaðarframleiðslu, matvælaframleiðslu, atvinnustarfsemi sem tengist landbúnaðinum því að fátt er okkur mikilvægara á þessum tímum en að tryggja stöðu íslensks landbúnaðar. Þegar til framtíðar er litið er brýnt að við verðum hér sem mest sjálfbær um þær vörur sem við þurfum í matvælaframleiðslu okkar eins og framleiðslu áburðar og tryggja stöðu íslensks landbúnaðar hvað það varðar. Landbúnaðarframleiðsla á nú mikla möguleika hér á landi og hefur sjaldan eða aldrei verið mikilvægari þannig að við þurfum að tryggja, ekki aðeins góðan framgang hefðbundins landbúnaðar heldur einnig að styrkja og efla lífræna og vistvæna framleiðsluferla í landbúnaði. Á þetta allt eigum við nú að leggja höfuðáherslu.

Við eigum líka orku sem væri vel nýtt í því að reisa áburðarverksmiðju. Ég vil minnast hér á t.d. Blönduvirkjun þar sem raforkan fer burt úr héraði í fjarlæga landshluta til álframleiðslu. Væri ekki nær að rafmagnið sem framleitt er í Blönduvirkjun, eða hluti þess, færi í áburðarverksmiðju í nágrenni Blönduóss, á því svæði? Þetta er nefnt hér án þess að staðarvalið í sjálfu sér fyrir áburðarverksmiðju sé neitt meginmál í þessu, aðalatriðið er að þessi könnun fari fram með það að markmiði að það verði stefnt að því, reynist þess nokkur kostur, að hér verði reist áburðarverksmiðja og þá verði jafnframt fundið út hvort það yrði hagkvæmt að hafa eina eða fleiri um landið. Tækni hefur fleygt fram á þessum sviðum og möguleikum og þess vegna getur einmitt verið rétt að reisa minni áburðarverksmiðjur á fleiri stöðum á landinu til að auka hagkvæmnina í þeirri framleiðslu.

Frú forseti. Ég tel að þessi tillaga um að við hefjum aftur áburðarframleiðslu hér á landi sé gríðarlega mikilvæg. Þess vegna legg ég áherslu á að þetta þingmál fái sem skjótastan og bestan framgang og góðar undirtektir af hálfu þingsins. Ég legg til að þessu máli verði vísað til hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og vænti þess að nefndin og þingið muni afgreiða málið hratt og vel þannig að hægt sé að koma að þeim athugunum sem þarf til að hægt sé að hefja framleiðslu á áburði hér á landi. Mér er kunnugt um að á fleiri en einum stað séu nú þegar slíkar kannanir í gangi, menn eru að kanna möguleika á áburðarframleiðslu og því er mikilvægt að hið opinbera komi strax að, styðji aðföng og styðji við þær kannanir og athuganir sem í gangi eru ef það mætti verða til þess að flýta því að við getum hafið köfnunarefnisframleiðslu hér á landi á ný. Það yrði mikill stuðningur við íslenskan landbúnað, innlenda matvælaframleiðslu og líka íslenskt þjóðarbú. Möguleikarnir í íslenskum landbúnaði eru aldrei meiri en nú og þess vegna er brýnt að við styðjum hann á allan hátt. Þessi þingsályktunartillaga miðar einmitt að því, frú forseti.