136. löggjafarþing — 85. fundur,  20. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[11:49]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Nú er komið til 2. umr. mál sem hefur verið ofarlega á baugi hjá þjóðinni. Í rauninni má segja að strax við bankahrunið sem hófst við yfirtökuna á Glitni hafi verið ljóst að Seðlabankinn naut einfaldlega ekki þess trausts sem hann verður að njóta. Hart hefur verið deilt á Seðlabankann og var gert strax í haust en síðasta ríkisstjórn gat því miður ekki komið sér saman um það hvernig ætti að fara að því að endurvekja þetta traust.

Við í Framsóknarflokknum brugðumst hins vegar skjótt við og lögðum fram frumvarp sem allir þingmenn Framsóknarflokksins skrifa undir og ég er 1. flutningsmaður að. Þar segjum við að engum megi blandast hugur um að þeir sem eru skipaðir í embætti séu ekki aðeins hæfir til að gegna því heldur séu þeir hæfastir í hópi þeirra sem völ er á. Trúverðugleiki hvers seðlabanka er honum afar mikilvægur og því má enginn vafi leika á því að Seðlabankinn sé sjálfstæður og starfi á faglegum forsendum.

Okkar frumvarp var í rauninni einfalt og til þess fallið að það væri hægt að styrkja ímynd Seðlabankans með nauðsynlegum mannabreytingum, með fullri virðingu fyrir þeim mönnum sem starfa þar núna. Þetta snýst ekki um þá.

Auk þess lögðum við áherslu á það að fundargerðir seðlabankastjóranna yrðu birtar sérstaklega við töku stýrivaxtaákvarðana þannig að það væri algjörlega uppi á borðinu hvaða markmiði ætti að ná með aðgerðinni.

Ný ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna lagði fram frumvarp um breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands. Það er margt jákvætt í því frumvarpi en samt var fljótt ljóst að það þyrfti að bregðast við og laga það. Ég ætla að leyfa mér að fara yfir athugasemdir sem hafa borist frá fjölmörgum umsagnaraðilum.

Ég tek undir með þeim sem hafa mælt hér á undan mér og þakka sérstaklega formanni nefndarinnar sem mér finnst hafa haldið mjög faglega á þessu máli. Það hefur ekki verið keyrt fram í neinu offorsi. Við höfum gefið okkur tíma til þess að fara yfir umsagnir aðila þótt alltaf megi svo deila um það hvort einhverjir hefðu átt að fá að koma þar með athugasemdir.

Hv. þm. Birgir Ármannsson benti á fjölmörg önnur dæmi sem þarf að skoða en ég held að það sé í verkahring nýrrar ríkisstjórnar sem verður kosin í vor að fara yfir heildarlögin og það hvernig við ætlum að haga peningastefnu þjóðarinnar í framtíðinni. Það er ekki tími til að fara yfir það hér og nú. Þó verð ég að taka fram að kannski gerði þetta sérstaka ákvæði um peningastefnunefnd, sem var nýmæli og hefur kannski ekki farið hátt í umræðunni, það að verkum að það varð að vinna þetta mál aðeins ítarlegar. Það var ekki fullbúið þegar það var lagt fram.

Í fyrsta lagi kom athugasemd um 1. gr. frumvarpsins þar sem fram kemur að bankaráð eigi að setja, að fengnum tillögum seðlabankastjóra, starfsreglur um varðveislu gjaldeyrisvarasjóðsins. Það var bent á að ekki væri skýr ástæða til að færa þetta frumkvæði um starfsreglur um varðveislu gjaldeyrisvarasjóðs frá bankastjóranum og/eða peningastefnunefnd til bankaráðsins.

Í öðru lagi var í mörgum athugasemdum bent á að kröfur um menntun og menntunarskilyrðin væru einfaldlega of þröngar. Ég vil lesa hér úr umsögn Jóns Sigurðssonar, fyrrverandi seðlabankastjóra og lektors í Háskólanum í Reykjavík, þar sem hann segir:

„Um hæfisforsendur seðlabankastjóra er skynsamlegt og málefnalegt að leggja þyngstu áherslu á reynslu og reynsluþekkingu og hafa þá þætti framar en kröfur um formlega menntun. Það styðst ekki við reynslu þjóðanna að hæfi miðist einvörðungu við hagfræði enda þótt miðlæg staða hagfræðinnar sé ótvíræð í þessu viðfangsefni. Til greina koma önnur fagsvið peningamála og fjármálafræða, svo sem fjármála- og viðskiptalögfræði, fjármálaverkfræði, fjármálastærðfræði, tölfræði við hagrannsóknir, rekstrarhagfræði, viðskiptafræði, og fleiri sambærileg svið má nefna. Ýmislegt í starfi seðlabankastjóra vísar til annarra fagsviða félagsvísinda, einkum margþætt samskipti og opinbert málsvar.“

Undir þetta tóku margir aðrir umsagnaraðilar, eins og Seðlabankinn sem taldi ákvæðið of óljóst og þröngt til þess að geta þjónað markmiðum um að tryggja farsæla yfirstjórn bankans. Einnig Samtök fjárfesta og Samtök atvinnulífsins sem bentu á aðra hæfileika en menntun, reynslu og þekkingu í peningamálum, sem sagt reynslu af fjármálamarkaði, stjórnunar- og leiðtogahæfileika og aðra persónulega eiginleika. Ég held að þessum sjónarmiðum hafi verið mætt á faglegum forsendum eins og ég ætla að koma að seinna í máli mínu.

Einnig var gagnrýnt hvernig ferlið væri við val á seðlabankastjóra. Við framsóknarmenn lögðum mikla áherslu á að nefnd hefði það hlutverk að meta hæfni umsækjenda. Ég vil kannski segja það í ljósi orða hv. þm. Birgis Ármannssonar hér á undan mér, þar sem hann sagði að hér væri algerlega verið að færa vald frá einum póli yfir á annan, að þarna er í rauninni verið að takmarka vald forsætisráðherra þannig að hann geti ekki skipað seðlabankastjóra með sama hætti og hann gerði áður. Þarna eru settar skorður við þessu valdi sem sjálfstæðismenn líta á að sé nú of mikið hjá forsætisráðherra. Fleiri atriði eins og hæfniskröfurnar ættu að girða fyrir að í stöðuna væri ráðið á pólitískum forsendum. Það er lykilatriði og mér finnst það vera kannski stærsta atriðið í öllu þessu þótt það komi ekki beint fram í frumvarpinu að við ráðum ekki umdeilda menn í starf seðlabankastjóra. Þetta eru menn sem verða að vera hafnir yfir allan vafa og má kannski segja að þær kröfur séu gerðar til þessara manna að þeir séu nánast óumdeildir í samfélaginu þó að það sé ekki hægt að festa slík skilyrði í lög. Ég vil samt taka það fram hér.

Það voru nokkrir sem bentu á þessa ráðningarnefnd, m.a. Samtök atvinnulífsins. Þau vildu reyndar taka fram að ráðningarnefndin vildi ráða í stöðu bankastjóra sem varð ekki niðurstaðan í nefndinni.

Það var líka umræða meðal umsagnaraðila um hvort sjö ára skipunartími væri of langur. Sumir bentu reyndar á að hann gæti verið of stuttur. Niðurstaðan varð að færa hann niður í fimm ár og líta þá fyrst og fremst á athugasemd frá BSRB, að þar væri einfaldlega farið eftir reglum starfsmannalaga og þeim reglum sem gilda um aðra embættismenn þjóðarinnar.

Fjölmargar athugasemdir fjölluðu um hvort það þyrfti ekki og væri ekki nauðsynlegt að það væri algerlega skýrt í lögunum hver væri staðgengill bankastjóra. Af hálfu forsætisráðuneytisins var bent á að það væru reglur í starfsmannalögum sem í rauninni segðu til um hvernig ætti að fara að því að skipa staðgengil. Þær eru í stuttu máli þannig að ef seðlabankastjóri hefur forfallast hefði hann sjálfur þurft að finna einhvern mann innan Seðlabankans til að leysa sig af til styttri tíma. Ef hann þyrfti hins vegar að fara frá til lengri tíma út af veikindum eða einhvers konar slysi eða af öðrum ástæðum hefði forsætisráðherra algerlega óbundnar hendur við að koma þarna inn.

Umsagnaraðilar gagnrýndu að það væri ekki á hreinu hver þessi staðgengill væri og það væri hætta á því að allar þær reglur sem settum mundu ekki gilda um þann mann og hann væri ekki tengdur inn í starf Seðlabankans. Það er mjög mikilvægt að það sé eftirfylgni í störfum og menn séu mjög vel inni í því sem þar fer fram. Menn sögðu að það teldist ákaflega óheppilegt að gera ekki ráð fyrir fullstarfandi aðstoðarseðlabankastjóra. Sumir gengu svo langt að segja að þetta hlytu að vera mistök í undirbúningi frumvarpsins. Seðlabankinn benti á þetta, BSRB taldi eðlilegra að kveðið væri á með lögum um að skipa skyldi staðgengil, varamann bankastjórans, Samtök atvinnulífsins lögðu til að bæta við þessu ákvæði um staðgengil eða aðstoðarbankastjóra sem uppfyllti svo sömu hæfisskilyrði og bankastjóri sjálfur. Það má segja að þessum kröfum hafi öllum verið mætt.

Ég ætla að fara yfir tillögur meiri hlutans í stuttu máli. Formaður nefndarinnar, hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, fór yfir nefndarálitið. Það er reyndar miður að nefndarálit minni hlutans og þær lagabreytingar sem hann leggur til skuli ekki hafa komið fram fyrr en núna rétt fyrir þessa umræðu en okkur mun væntanlega gefast tími milli 2. og 3. umr. til að fara yfir þær tillögur.

Eins og ég kom að áðan lögðum við framsóknarmenn mikla áherslu á að fundargerðir peningastefnunefndar yrðu birtar opinberlega, eins og við lögðum áherslu á að fundargerðir seðlabankastjóra við fyrra skipulag yrðu birtar. Það væri til þess fallið að auka trúverðugleika ákvarðana nefndarinnar auk þess sem það ætti að fela í sér aukið gagnsæi. Það er nauðsynlegt fyrir fjármálalífið að það fái upplýsingar um á hvaða grunni ákvarðanirnar eru teknar, en fjármálafyrirtæki og fleiri hafa gagnrýnt að forsendur og markmið stýrivaxtaákvarðana séu ekki uppi á borðinu og segja að það sé í rauninni ekki nægilegt að seðlabankastjórar haldi blaðamannafundi og útskýri svo ákvarðanir sínar í riti sínu. Þetta er sem sagt fyrst og fremst gert til að auka tiltrú á Seðlabankanum og auka gagnsæi stýrivaxtaákvarðana hans en eins og þjóð veit getur skipt öllu máli fyrir atvinnulífið að vita hver stefnan verður næstu mánuði. Þetta mundi líka leiða til þess að bankinn fengi nauðsynlegt aðhald og málefnaleg umræða mundi aukast. Þá vildum við líka taka fram í álitinu að það væri mikilvægt að það yrði upplýst hvernig atkvæði féllu við töku ákvarðana í nefndinni.

Eins og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir kom inn á áðan var álitið að kröfur um menntun væru of þröngt skilgreindar þannig að lagt er til og við framsóknarmenn styðjum það að menntunarkröfur verði rýmkaðar með þeim hætti að í stað meistaraprófs í hagfræði verði áskilið að viðkomandi hafi lokið háskólaprófi í hagfræði eða tengdum greinum og búi yfir víðtækri reynslu og þekkingu á fjármálastarfsemi í efnahags- og peningamálum. Ég held að þetta sé eins skýrt og það getur verið. Það komu reyndar fjölmargar tillögur um orðalag en það verður líka að túlka orðalag lagagreinarinnar í ljósi þess nefndarálits sem ég er að fjalla um. Með þessum tengdu greinum er kannski verið að tala um viðskiptafræði, rekstrarhagfræði, fjármálaverkfræði eða -stærðfræði, tölfræði við hagrannsóknir, fjármála- og viðskiptalögfræði og hugsanlega þá eitthvað fleira sem þessi upptalning nær ekki til.

Það eru í rauninni ekki mörg ákvæði sem ég ætla að fjalla ítarlega um, eins og það að hér sé nú búið að skipa sérstaka nefnd sem á að fjalla um hæfi þeirra einstaklinga sem sækja um embættin tvö. Meiri hluti nefndarinnar hefur lagt til nokkrar breytingar á 4. gr. að því er varðar peningastefnunefndina. Við áréttum að peningastefnunefnd skuli við ákvarðanatöku um beitingu stjórntækja bankans í peningamálum taka mið af ástandi og horfum í fjármálastöðugleika með sama hætti og mið er tekið af ástandi og horfum í efnahags- og peningamálum. Það er mjög mikilvægt að aðstoðarseðlabankastjórinn eigi sæti í peningastefnunefndinni ásamt einum yfirmanni bankans á sviði mótunar- eða framkvæmdastefnu í peningamálum vegna þess að aðstoðarbankastjóri á að vera með puttann á púlsi málefna Seðlabankans. Það er líka þess vegna sem við setjum inn ákvæði um að til að byrja með verði veltiákvæði um aðstoðarbankastjórann og seðlabankastjórann þannig að þeir séu ekki ráðnir báðir á sama tíma í framtíðinni.

Hér er lagt til að í stað þess að seðlabankastjóri skipi tvo nefndarmenn að fenginni staðfestingu ráðherra skipi forsætisráðherra beint hina tvo utanaðkomandi nefndarmenn. Nú miðar breytingin að því að takmarka áhrifavald seðlabankastjóra að þessu leyti. Þessir tveir menn eiga að vera sérfræðingar á sviði efnahags- og peningamála og við töldum mjög vel koma til greina að fá erlendan einstakling til að taka sæti í nefndinni til að auka tiltrú á þá einstaklinga sem verða svo skipaðir á endanum.

Svo ég endi mál mitt á að fjalla aðeins um þessa hæfisnefnd er gert ráð fyrir því að bankaráð Seðlabanka Íslands skipi einn fulltrúa í nefndina, einn fulltrúi verði skipaður af samstarfsnefnd háskólastigsins, en í henni eiga sæti rektorar háskóla sem fengið hafa viðurkenningu menntamálaráðuneytis, og einn sem forsætisráðherra skipar án tilnefningar. Þarna tel ég að við mætum kröfum úr samfélaginu um að sem flest sjónarmið séu uppi þegar seðlabankastjórar eru skipaðir.

Að lokum vil ég taka fram að ég tel að mjög faglegar og góðar breytingar hafi verið gerðar á þessu frumvarpi. Ég tel að afar faglega hafi verið unnið og á yfirvegaðan hátt í nefndinni og menn hafi ekki látið umræðuna úti í þjóðfélaginu hafa áhrif á hvort flýta þyrfti þessu máli eða lengja í því. Þetta snýst ekki um persónur manna á nokkurn hátt. Þetta snýst fyrst og fremst um það að við sem þjóð fáum seðlabanka sem muni á ný njóta trausts og ákvarðanir hans verði hafðar yfir allan vafa og að við búum til seðlabanka sem þjóðin öll geti verið stolt af. Á þessum síðustu og erfiðustu tímum í sögu þjóðarinnar, ætla ég að leyfa mér að fullyrða, þarf þjóðin á góðum seðlabanka að halda.