136. löggjafarþing — 85. fundur,  20. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[12:09]
Horfa

Gunnar Svavarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara jafnítarlega yfir þær efnislegu breytingar sem verið er að fjalla um á umræddu frumvarpi sem er stjórnarfrumvarp og hæstv. forsætisráðherra flutti í liðinni viku heldur vísa til þess sem formaður viðskiptanefndar, hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, fór yfir. Formaður viðskiptanefndar fór ítarlega yfir frumvarpið aftur og síðan nefndarálit meiri hluta nefndarinnar og breytingartillögur, auk þess sem hv. þm. Birgir Ármannsson gerði grein fyrir sjónarmiðum minni hluta á ítarlegan hátt. Jafnframt fjallaði hv. þm. Höskuldur Þórhallsson um nefndarálit meiri hlutans og þær tillögubreytingar sem fluttar eru við 2. umr.

Ég ætla hins vegar að staldra við 4. gr. frumvarpsins en í þeirri grein er sérstaklega fjallað um peningastefnunefndina sem er nýmæli og afleiðing af þeirri breytingu sem frumvarpið leggur upp með, þ.e. hin eiginlega bankastjórn þriggja bankastjóra er aflögð og í stað umræddrar nefndar, sem nú hefur fjallað um peningastefnumál, byggð á samþykkt bankastjórnarinnar nr. 1111 frá 8. september 2006. Peningastefnunefnd skal vera skipuð þannig, eins og segir í breytingartillögum meiri hlutans, með leyfi forseta:

„Í peningastefnunefnd situr seðlabankastjóri, aðstoðarseðlabankastjóri, einn af yfirmönnum bankans á sviði mótunar eða stefnu í peningamálum og tveir sérfræðingar á sviði efnahags- og peningamála sem forsætisráðherra skipar til fimm ára í senn. Seðlabankastjóri er jafnframt formaður peningastefnunefndar.“

Síðan er fjallað ítarlega um hlutverk peningastefnunefndar og segir hér síðan:

„Peningastefnunefnd setur starfsreglur sem bankaráð staðfestir um undirbúning, rökstuðning og kynningu ákvarðana sinna í peningamálum. Opinberlega skal birta fundargerð peningastefnunefndar ...“

Með hliðsjón af því sem ég las upp um að peningastefnunefndin mundi setja sér starfsreglur sem bankaráðið staðfestir — en bankaráðið er, eins og menn vita, skipað af Alþingi og í því sitja sjö aðilar — liggur það fyrir að peningastefnunefndin hin nýja, sem tekur til starfa lögum samkvæmt þegar þau fá brautargengi frá Alþingi, tekur væntanlega upp umrædda bankastjórnarsamþykkt nr. 1111 frá 8. september 2006. Þær starfsreglur eru settar með hliðsjón af ákvæðum 3. mgr. 24. gr. laga, nr. 2001, um Seðlabanka Íslands, og eru samhljóða. Textinn í lagabreytingunni er samhljóða núverandi lögum.

Það sem ég vil draga fram, virðulegur forseti, er einfaldlega að hin nýja peningastefnunefnd mun væntanlega hafa til viðmiðunar umrædda bankastjórnarsamþykkt enda þótt þær starfsreglur verði eitthvað endurrýndar í ljósi umræddra breytinga. Starfsreglurnar eru að nokkru leyti skýrar. Hin nýja peningastefnunefnd mun taka ákvarðanir í peningamálum og þær verða í samræmi við markmið bankans, að bestu faglegu vinnubrögð séu viðhöfð við ákvarðanir í peningamálum. Þær séu vel grundaðar og skuli tryggja eftir föngum að upplýsingar sem máli skipta og þekking starfsmanna bankans nýtist við ákvarðanir í peningamálum, að ákvörðunarferlið auk gegnsæi peningastefnunnar auðveldi kynningu á henni og að fyrir liggi eftir á hvernig einstakar ákvarðanir voru teknar og hvaða ráð og rök lágu að baki.

Það leiðarljós sem er í umræddri bankastjórnarsamþykkt á að vera gegnumgangandi í allri ákvarðanatöku peningastefnunefndarinnar. Síðan segir í starfsreglunum, samkvæmt 3. gr. laganna, að meginmarkmiðið sé að stuðla að stöðugu verðlagi og yfirlýsingu ríkisstjórnar þess tíma. Frá 27. mars 2001 var bankanum sett tölulegt markmið um verðbólgu sem að jafnaði er um 2,5% hækkun vísitölu neysluverðs á tólf mánuðum. Síðan er umrætt leiðarljós eða ákvarðanir í þessum starfsreglum hlutaðar niður. Fjallað er um vinnuferli við ákvarðanir í peningamálum, um að bankinn geri verðbólguspá og verðbólguspáin byggist á þjóðhagsspá og öðrum spálíkönum sem hagfræðisvið bankans ræður yfir og þróar.

Ég hef áður vikið að umræddum spálíkönum í fjölmörgum ræðum, virðulegi forseti, og hinni eiginlegu spáfræði. Við höfum verið um nokkurn tíma með mismunandi spálíkön á markaði. Er þekkt að greiningardeildir hinna mismunandi viðskiptabanka, eins og þeir voru saman settir á umliðnum árum, spáðu jafnvel á ólíkan hátt fyrir Seðlabankann og efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Hins vegar höfðu menn sýnt fram á að að meðaltali hafi verið spá fjármálaráðuneytisins verið raunsönn en ég held að ef menn mundu rýna í þá spáfræði sem við höfum stuðst við — og kannski má segja að spáfræðin styðjist við mælingar á markaði og upplýsingar sem til eru — ættu þeir kannski erfitt með að sjá það sem gerðist, með hliðsjón af lögum nr. 125/2008.

Það sem ég reyni draga fram í þessari umræðu, virðulegur forseti, er hlutverk peningastefnunefndar með hliðsjón af þessum starfsreglum sem til staðar eru og verða væntanlega endurrýndar, enda þarf hin nýja peningastefnunefnd að setja sér fundi og starfsreglur. Hér er til að mynda fjallað um að á ákvörðunarfundi bankastjórnar gerir formaður tillögu um vexti þannig að sett er niður ákveðið ferli. Haldinn er annar fundur um peningastefnuna og framvindu efnahags- og peningamála og síðan á útgáfudögum peningamála eru ákvarðanir bankastjórnar um vexti rökstuddar og koll af kolli.

Í yfirlýsingu frá Seðlabankanum segir um ákvarðanir í peningamálum með hliðsjón af þessum starfsreglum að þegar bankastjórn Seðlabanka taki ákvarðanir í peningamálum, t.d. um breytingu á vöxtum Seðlabanka eða í viðskiptum við bindiskyldar innlánsstofnanir, fái hún að fylgja tilteknum vinnureglum sem samþykktar hafa verið og sem lagt er til í lögum um Seðlabanka Íslands sem samþykktar voru í maí árið 2001. Síðan er vísað til umræddra starfsreglna og svo koll af kolli. Ég vil draga það fram þannig að það liggi alveg ljóst fyrir að þessar starfsreglur eru til og ég hvet til þess að þær verði endurrýndar og endurskoðaðar á sama hátt og hér er verið að gera.

Þá vil ég fara inn í ákveðið tímabil sem byggir á því sem ég hef sagt áður. Þann 11. september sl. sendi bankastjórn Seðlabankans frá sér stefnuyfirlýsingu með hliðsjón af stýrivaxtaákvörðun. Þar segir að bankastjórn Seðlabankans hafi ákveðið að stýrivextir bankans skuli vera óbreyttir, þ.e. 15,5%. Síðan er sú ákvörðun rökstudd og skýrð á grundvelli þjóðhagsreikninga sem birtir voru þá um morguninn. Þar segir að vísbendingar hafi verið misvísandi þann 11. september sl., verðbólga hafi aukist verulega í kjölfar gengislækkunar á fyrstu mánuðum ársins. Hún hafi verið nokkru meiri en fólst í síðustu spá Seðlabankans og líkur standi til þess að verðbólgan yrði nærri hámarki í september og mundi taka að hjaðna á árinu 2009.

Fjallað er um gengi krónunnar, það sé lægra en spár áætluðu og raungengið væri sögulega lágt í byrjun september. Síðan segir í lokin í tilkynningu bankans 11. september sem byggir á þessari ákvörðun um peningamál og hliðsjón af þessum starfsreglum, með leyfi forseta:

„Nauðsynlegt er að stýrivextir verði háir uns verðbólga er örugglega tekin að minnka og verðbólguvæntingar að hjaðna í átt að markmiði.“

Hér segir áfram, með leyfi forseta:

„Afsláttur á þeirri stefnu yrði öllum til bölvunar, bæði í bráð og lengd.“

Hér er sérkennilega til orða tekið en ég ætla ekki að leggja neitt út af því. Ég geri ráð fyrir því að hv. þm. Karl V. Matthíasson mundi alla vega ekki taka svona til orða. En hér er haldið áfram, með leyfi forseta:

„Peningastefnan verður að veita það aðhald sem nauðsynlegt er til þess að draga úr verðbólgu og verðbólguvæntingum. Víxláhrif launa, verðlags og gengis eru þekktur drifkraftur verðbólgu hér á landi. Samstaða aðila vinnumarkaðarins og hins opinbera um að styðja Seðlabankann í að vinna bug á verðbólgu mun flýta fyrir lækkun stýrivaxta og traustum efnahagsbata og þar með treysta kaupmátt til lengri tíma litið.“

Undir margt get ég tekið sem sagt er óháð orðalagi að því leyti að við höfum alla tíð talið að verðbólgan væri sá bölvaldur, með vísan til þess sem þar segir, sem yrði að ráðast á. Eitt af þeim tækjum sem Seðlabankinn hefur notfært sér er í raun stýrivaxtaaðhaldið.

Ég ítreka að í umræðum um verðtryggingu og stýrivexti verða menn að gera greinarmun á stýrivaxtaákvörðunum sem tengjast skammtímamarkmiðum eða skammtímafjármagni um leið og við verðum að þekkja mun á raunvöxtum og nafnvöxtum í þessari umræðu. Ég hef sagt að vissulega getur komið upp sá tími að verðtryggingin víki og það má vel vera að þjóðin geti náð því markmiði sameiginlega. Verðbólgan er hins vegar vandamálið og það er að nokkru leyti neyslumarkaður og fjárfestingarmarkaður og annað sem geta stýrt því með hliðsjón af þeim gjaldmiðli sem við höfum.

Síðan heldur þetta áfram, virðulegi forseti, og ég er að reyna að skýra ákvarðanir eins og þær hefðu getað orðið hjá peningastefnunefnd eða ekki. Þann 7. október var tekin ákvörðun um að festa gengi krónunnar og segir hér, með leyfi forseta:

„Í samvinnu við ríkisstjórn vinnur bankinn að mótun aðgerða til að skapa stöðugleika og raunhæft gengi sem tryggir um leið hraða hjöðnun verðbólgu og liður í því að efla gjaldeyrisforðann. Seðlabankinn hefur að fengnu samþykki forsætisráðherra ákveðið að eiga viðskiptin á millibankamarkaði 7. október sem tekur mið af gengisvísitölunni 175.“

Þann 8. október er tilkynnt að verslað muni hafa verið með 6 millj. evra daginn áður og í því fælist ekki að gengið hafi verið fastsett, aðeins það að Seðlabankinn telji að hið lága gengi krónunnar sem myndast hafi að undanförnu sé óraunhæft. Mælist bankinn því til þess að viðskiptavakar á millilbankamarkaði styðji við þá viðleitni bankans að styrkja gengið. Síðar sama dag er yfirlýsing um að stuðningur á markaði sé ekki nægilegur við gengið og bankinn muni því ekki gera frekari tilraun í þessa veru. Við þekkjum síðan niðurstöðuna. Krónan hélt áfram að veikjast og lækkaði um 30–40% þar á milli.

Nú vil ég vísa til umræddra starfsreglna um ákvörðunartöku og menn geta velt því fyrir sér við þennan lestur hvort styrkja þurfi þennan þátt og þann sem lýtur að peningastefnunefndinni. Jafnframt þann þátt sem lýtur að því að kalla til ytri aðila til að fá önnur sjónarmið en bankans inn í þá umræðu.

Þann 15. október samþykkti bankinn að lækka stýrivexti um 3,5% og það er örstutt tilkynning um að bankastjórnin hafi átt óformlegar viðræður við aðila vinnumarkaðarins. Bráðabirgðaspár litist af framangreindu áliti sem er það að margvísleg störf hafi horfið á augabragði og síðan hafi orðið mikil umskipti í íslenskum þjóðarbúskap.

Mér fannst þegar þessi ákvörðun birtist að þarna hefði peningastefnunefndin þurft að skýra ákvarðanir sínar mun betur en hún gerði á þessum tíma með hliðsjón af bankastjórnarsamþykktum nr. 11/11, og í raun af 24. gr. laganna eins og hún er í núverandi lögum. Hún tekur breytingum eftir þessa umræðu hér. 28. október sl. sendi bankastjórnin aftur frá sér yfirlýsingu um að með hliðsjón af lækkun stýrivaxta þann 15. október í 12% hafi sú ákvörðun verið rökstudd með breyttum aðstæðum í íslenskum efnahagsbúskap. Ég les hér, með leyfi forseta, upp úr tilkynningu bankans: „Samdráttur væri þegar orðinn nokkur og meiri fram undan og eftirspurn og væntingar hefðu hríðfallið.“

Hér er verið að vísa til hins eðlilega framgangs varðandi framboð, eftirspurn, magn, verð og ýmislegt annað. Síðan segir að með hliðsjón af umræddu samkomulagi sem var tekið fyrir á þingi vegna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafi verið ákveðið að hækka stýrivexti í 18% og vísað er til hruns bankakerfisins og harkalegra ytri aðstæðna sem í kjölfarið fylgdu, gjaldeyrismarkaður lamaðist og svo koll af kolli.

Það sem ég reyni að draga fram í umræðunni, virðulegi forseti, er einfaldlega að umræddar lagagreinar sem eru í núverandi lögum taka örlítið breytingum með þeim breytingartillögum sem gerðar hafa verið með hliðsjón af því að stjórnskipulag bankans breytist — við fáum nýja peningastefnunefnd. Hvort þær starfsreglur sem settar voru á sínum tíma, sem ég sagði að augljóslega þyrfti að endurrýna og endurskoða — hvort við getum farið fram með þá rökfestu algerlega óháð orðalagi og öðru slíku þegar við skoðum þessar ákvarðanir í ljósi sögunnar. Nú ætla ég ekki að setjast í það dómarasæti, virðulegi forseti, að gagnrýna ákvörðunina. Ég er fyrst og fremst að hugsa um vinnulagið og vinnuferlið líkt eins og við gerum jafnan þegar við erum að regla kerfið, við verkfræðingarnir. Við viljum sjá fyrir okkur hvernig hlutirnir gerast, (Forseti hringir.) bæði í framtíð og fortíð.