136. löggjafarþing — 85. fundur,  20. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[12:30]
Horfa

Gunnar Svavarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú veit ég ekki hvort hv. þm. Árni M. Mathiesen hafi náð allri tuttugu mínútna ræðu minni en eins og jafnan hjá okkur verkfræðingunum var hún byggð upp í ákveðnum kössum, þegar einum kassa var lokað var annar opnaður.

Ég fjallaði um peningastefnunefndina og með hliðsjón af störfum bankastjórnarinnar með þeim ráðgjöfum sem þar eru. Síðan fjallaði ég um starfsreglurnar sem í raun og veru yrðu mjög sambærilegar þeim starfsreglum sem hin nýja peningastefnunefnd ætti að setja sér. Þar af leiðandi, í ljósi þeirra starfsreglna, fór ég inn í ákvörðunarferli sem var gert á sínum tíma og þar voru ákvarðanir teknar og ég var að reyna að spegla þær ákvarðanir í reglunum til baka. Þetta er kannski flókið en þó ekki. Fyrst og fremst er það þetta: Hin nýja peningastefnunefnd ætti í sjálfu sér að skoða það sem hefur gerst áður í rásinni og tímaröðinni til þess að fara í það að endurrýna umræddar starfsreglur.

Ég vil meina að sú ákvörðun þegar stýrivextirnir voru lækkaðir í 12% eins og ég tilgreindi var ekki rökstudd á sambærilegan hátt og þegar ákvörðun var tekin 11. september um að halda stýrivöxtunum í 15,5%. Mér finnst það yfirlit sem var birt með þeirri ákvörðun, án þess að ég sé að setja mig í dómarasæti í þessum efnum og ætla ekki að gera það, ég er einfaldlega að segja að við þurfum að fylla út í rammann þegar við höfum tekið ákvörðunina (Forseti hringir.) og mér finnst það eiga að vera leiðarljós breytingartillagnanna við 4. gr.