136. löggjafarþing — 85. fundur,  20. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[13:51]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Áður en ég svara hv. þingmanni efnislega mundi ég kannski vilja fá viðbrögð frá honum í seinna andsvari hans um það hvort ekki sé nauðsynlegt að við förum í heildarendurskoðun á öllu efnahags- og fjármálalífinu og hvort það sé ekki mikilvægt að við á vettvangi þingsins förum að starta slíkri vinnu því að við klárum ekkert slíka vinnu á einum mánuði eða nokkrum vikum. Það er langtímaverkefni að skoða málin í heild sinni, hvað fór úrskeiðis, hvað má bæta og ég spyr hvort Sjálfstæðisflokkurinn væri til í þá vegferð með okkur framsóknarmönnum og stjórnarliðum og Frjálslynda flokknum hér á þingi að fara í slíka endurskoðun því þá endurskoðun þarf að hefja sem fyrst.

Varðandi erlenda fjárfestingu hér á landi og þá væntanlega í atvinnuuppbyggingu á sviði stóriðju og hátæknifyrirtækja og fleira mætti nefna í þeim efnum þá tel ég afar brýnt að við séum trúverðug í þeim efnum og við löðum erlenda fjárfestingu til landsins. Það þarf að koma hjólum atvinnulífsins af stað að nýju. Ég tel þess vegna brýnt að við leggjum ekki stein í götu þeirra verkefna sem margir hafa verið að undirbúa á síðustu mánuðum og jafnvel árum.

Ég hef hins vegar enga trú á því, og það hefur komið fram í málflutningi hæstv. forsætisráðherra og iðnaðarráðherra, að þessi ríkisstjórn sem einungis á eftir að sitja í rúma 60 daga ætli sér að taka einhverjar drastískar ákvarðanir í þeim efnum. Það er búið að gera marga samninga við erlenda aðila um uppbyggingu á erlendri fjárfestingu hér á landi og þegar við stöndum frammi fyrir því að 20 þúsund Íslendingar verða brátt orðnir atvinnulausir þá þurfum við að fara í atvinnuskapandi aðgerðir og að sjálfsögðu hljótum við að vera sammála um það sama hvort fjármagnið kemur erlendis frá, frá lífeyrissjóðum, frá hinu opinbera að allar aðgerðir sem stuðla að háu (Forseti hringir.) atvinnustigi hér á landi verða vel þegnar á næstu mánuðum.