136. löggjafarþing — 85. fundur,  20. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[13:53]
Horfa

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ánægður með það svar sem hv. þingmaður gaf mér áðan að Framsóknarflokkurinn ætlaði hér eftir sem hingað til að standa að atvinnuuppbyggingu og standa að því að náttúruauðlindir landsins verði nýttar. En mig langar að spyrja aftur: Hefur hv. þingmaður engar áhyggjur af því að núverandi stjórnarflokkar, minnihlutaflokkar, verði með í því skipi sem Framsókn leggur þarna upp með? Það var punkturinn í spurningu minni. Treystir hv. þingmaður því að þeir flokkar standi með Framsóknarflokknum í þessari meðferð og þessari nauðsynlegu uppbyggingu?

Mig langar jafnframt, frú forseti, að koma aðeins inn á annað. Ég fór í andsvar við ræðu hv. þingmanns en hann í rauninni notaði andsvarið til að spyrja þann sem hér stendur og spurði hvort Sjálfstæðisflokkurinn vildi ekki fara í þá vegferð til að endurskoða okkar heildarkerfi. Ég vil bara minna hv. þingmann á að vegna forustu fyrrverandi forseta Alþingis, Sturlu Böðvarssonar, var ráðist í það verk að gera heildarúttekt á því sem gerst hefði í okkar efnahagskerfi og okkar bankahruni og sérstök rannsóknarnefnd vinnur að því fyrir hönd þingsins. Þar sem ég á sæti í forsætisnefnd þá hef ég fylgst með og kynnt mér hvernig það verk gengur og hvað er ætlast til varðandi þá skýrslu sem kemur út 1. nóvember. Það er mjög mikilvægt að við fylgjumst með því og tökum mark á þeirri skýrslu sem fram kemur. Það er grunnurinn að því að við lærum af því sem misfórst í því hruni sem við höfum upplifað. Ég held að við eigum ekki að fara fram úr okkur hvað það varðar.