136. löggjafarþing — 85. fundur,  20. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[14:40]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hlý orð hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar í minn garð og sérstaklega líka þann samstarfsvilja sem hann lýsir hér yfir að hann vilji hafa. Ég tel að í þessu máli hafi þingið verulega sýnt styrk sinn og ég vil sérstaklega hrósa viðskiptanefnd fyrir góð störf; sjö fundir, 23 gestir, hratt og örugglega unnið og af mikilli fagmennsku og það er almenn ánægja með frumvarpið. Það eru minni háttar athugasemdir en ég sé ekki betur en að Sjálfstæðisflokkurinn styðji meginhugsun þess þó að þeir séu með minni háttar breytingartillögur.

Ég vildi gjarnan spyrja hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson: Samningur ríkisstjórnarinnar við Seðlabankann sem gerður var 2001 hafði einber verðbólgumarkmið 2,25% en ekkert annað í peningamálastefnunni sem stóðst aldrei. Við upplifðum bæði gengishrun eða gengissig mjög hratt og við upplifðum hratt vaxandi verðbólgu, aldrei var brugðist við að endurskoða þennan samning frá árinu 2001, í átta ár þrátt fyrir að það hefði margsýnt sig að hann stæðist ekki. Af hverju var ekki leitað eftir endurskoðun, af hverju leitaði hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde, ekki eftir viðræðum við Seðlabankann um breytingu á peningamálastefnu sem aldrei virkaði?

Nú hefur tekið við völdum ný ríkisstjórn sem lætur verða sitt fyrsta verk að breyta peningamálastefnu, sem hefur verið vanrækt í átta ár frá því að samningurinn var gerður, samningur sem var löngu brostinn. Hv. þingmaður, af hverju var engu breytt í peningamálastefnu þegar ljóst var að hún var gjaldþrota í síðasta lagi árið 2004?