136. löggjafarþing — 85. fundur,  20. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[14:45]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson getur þess að það sé erfitt að svara fyrir aðra. Ég hef enga trú á öðru en að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hljóti að hafa tekið þessi mál upp á fundum sínum og í ranni Sjálfstæðisflokksins sjálfs því að þetta var gagnrýnt samfellt frá árinu 2004. Það var jafnvel talað um að hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra Geir H. Haarde ætti ekki talsamband við seðlabankastjórann Davíð Oddsson. Auðvitað verður Sjálfstæðisflokkurinn að svara því hvernig á því stendur að peningamálastefnan, sem var orðin gjaldþrota fyrir löngu, var ekki tekin upp. Gagnrýni hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar verður að þessu leyti innantóm á peningamálastefnu sem ríkisstjórnin er að reyna að vinna upp og hefur haft til þess hálfan mánuð og ætlar að bretta upp ermarnar á næstu vikum og hefur einlægan ásetning til þess og vilja og fylgir því vel og fast eftir.

Ef maður ætlar að byggja almennilega framtíð verður maður að læra af reynslu fortíðarinnar. Þess vegna spyr maður: Hvað var að gerast í samskiptum fyrrverandi forsætisráðherra og seðlabankastjórans, bráðum fyrrverandi? Hvað gerðist þar sem við getum lært af? Og fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra Geir H. Haarde var yfirmaður seðlabankastjórans.

Ég get síðan upplýst hv. þingmann um að ég hef í engu breytt skoðunum mínum um meðferð og samningu lagafrumvarpa og fylgi þar í einu og öllu þeirri handbók sem þingið hefur gefið út og er sammála henni. Þetta frumvarp var unnið á stuttum tíma en þingið sýndi styrk sinn, viðskiptanefnd og þingmenn sýndu styrk sinn, og kom fram með breytingar við frumvarp sem gerðu betra en það var. Er það ekki tilgangur okkar?