136. löggjafarþing — 85. fundur,  20. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[14:49]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem hér er til umræðu snýr að einum af lykilþáttum stjórnar efnahagsmála á Íslandi. Það skiptir miklu máli í undirbúningi fyrir slíkt frumvarp að sá undirbúningur sé vandaður, það séu fengnir færustu og hæfustu sérfræðingar að verkinu og um leið sé líka nokkuð góð pólitísk sátt um þá niðurstöðu sem lögð er fyrir þingið.

Ég hjó eftir því í orðum hv. þingmanns í ræðu áðan — eða hvort það var í frammíkalli — að talað var um peningamálastefnu ríkisstjórnarinnar. Við erum ekki að tala um peningamálastefnu ríkisstjórnarinnar í þessari umræðu, það er rangnefni. Peningamálastjórnin hvílir á lögum sem sett voru árið 2001 um Seðlabankann þar sem bankanum voru samkvæmt lögum sett ákveðin markmið, þ.e. verðbólgumarkmið. Það var breyting frá ástandi sem áður var þar sem bankanum voru sett mörg markmið. Menn höfðu af því áhyggjur þá að þau markmið rækjust hvert á annars horn, menn lentu í vandræðum með þau, sagt að margt af því væri ósamrýmanlegt og því væri eðlilegra að menn miðuðu við eitt ákveðið markmið, þ.e. stöðugleika í verðlagi, svokallað verðbólgumarkmið, og horfðu þá til reynslu ýmissa annarra þjóða sem höfðu tekið slíkt markmið upp á undanförnum árum og áratug. Menn töldu sýnt að góð reynsla væri af slíkum vinnubrögðum.

Það er á grundvelli slíkra laga frá Alþingi sem peningamálastefnan er grundvölluð og því rétt að ræða hana þannig en ekki sem sérstaka peningamálastefnu ríkisstjórnarinnar, enda tilgangurinn með sjálfstæði Seðlabankans einmitt sá að færa það vald frá ríkisvaldinu, frá ríkisstjórninni, og inn í Seðlabankann. Hugmyndafræðin er öll einmitt sú að það sé betra að sérfræðingar á sviði peningamálastjórnunar komi þar að sem ekki eru háðir pólitískum duttlungum, sveiflum, pólitískum átökum hversdagsins þegar kemur að því að móta peningamálastefnuna. Af hverju? Vegna þess að menn telja að hér sé um að ræða þvílíkt grundvallaratriði í allri hagstjórn að menn vilja ná því frá dægurþrasinu, ná því frá skammtímahugsun í efnahagsstjórnun og einmitt í áttina að langtímahugsun. Og það getur oft verið erfitt fyrir stjórnmálamennina að standa vörð um slíkt. Það getur gengið þannig á að menn, hvað skal segja, horfa frekar til skemmri tíma en lengri, til skammtímavinsælda frekar en árangurs til langs tíma. Stundum er það þannig með stjórnmálamennina að þeir meta það svo að það verði ekki þeir sem njóti ávinningsins þó að þeir hafi kannski gert réttu verkin ef þeir síðan tapa kosningum, hrökklast frá og aðrir komast að. Öll þessi hugsun, allt þetta hefur snúið að því að menn hafa sagt: Við viljum frekar hafa sjálfstæðan seðlabanka, hann á að hafa skýrt markmið og menn hafa viljað fara verðbólgumarkmiðsleiðina.

Ég hef verið í hópi þeirra sem á undanförnum árum hafa bæði í ræðu og riti haft uppi miklar efasemdir um hið hreina verðbólgumarkmið. Það skal þó tekið fram að árið 2001 var ég í hópi þeirra sem voru ánægðir með þessa niðurstöðu, ég taldi hana til bóta frá því kerfi sem við bjuggum áður við. Ég tel hins vegar að reynslan hafi sýnt að þessi aðferð við stjórn peningamála, þ.e. hreint verðbólgumarkmið, sé of þröng nálgun á það viðfangsefni sem Seðlabankinn hefur með höndum og getur leitt til mikilla vandræða.

Þau vandræði sem ég tel að hafi komið upp á Íslandi vegna stjórnar peningamálanna hafa fólgist í því að Seðlabankinn hefur fyrst og síðast eitt stýritæki sem eru stýrivextirnir og til að berjast gegn verðbólgu hefur bankinn hækkað stýrivexti sína jafnt og þétt á undanförnum árum, en um leið vegna þess að við búum í breyttum heimi þar sem fjármagn flæðir auðveldlega milli landa kallað fram þá stöðu að fjármagn hefur pumpast inn í hagkerfi okkar til að nýta vaxtamuninn og þar með haft áhrif á gengi íslensku krónunnar til styrkingar á sínum tíma, of mikillar styrkingar og þannig sett hagkerfið að vissu leyti úr jafnvægi. Þetta kallaði t.d. fram aukna neyslu vegna þess að innfluttur varningur varð of ódýr og útflutningurinn þjáðist, útflutningur á fiski eða annarri framleiðslu mátti gjalda fyrir það að gengið var of sterkt en innflutningurinn hagnaðist. Af þessu hef ég lengi haft miklar áhyggjur en Seðlabankanum var líka ákveðin vorkunn vegna þess að í fyrsta lagi var honum settur þessi rammi með lögum, þetta er eina stjórntækið, og það verður að segjast eins og er að hið opinbera gerði Seðlabankanum ekki verkið auðveldara með fjármálastjórn sinni. Aukning ríkisútgjalda og útgjalda sveitarfélaga hefur verið með þeim ósköpum að það hefur gengið þvert gegn allri hugsun um það að vernda stöðugt verðlag í landinu. Og ég hef stundum haft það á tilfinningunni að við stjórnmálamennirnir höfum einhvern veginn litið svo á að verðbólgan hlyti að vera bara vandi Seðlabankans úr því að það væri svo orðað í lögunum að hann ætti að hafa verðbólgumarkmið en hið opinbera hefði raunverulega allt það svigrúm sem því dytti í hug til að eyða öllum þeim peningum sem það kæmi höndunum yfir.

Með öðrum orðum er alveg lykilatriði fyrir íslenskt efnahagslíf að við endurskoðum peningamálastefnuna, að við endurskoðum það hvernig við ætlum að búa við íslensku krónuna á næstu missirum og árum því að undan því verður ekki vikið. Hver verður mynt okkar á næstu missirum og árum? Það er sama hvað mönnum finnst um upptöku evru eða eitthvað þess háttar, þetta er sú mynt sem við munum búa við og þess vegna verður að vera einhver skynsamleg hugsun um peningamálastefnuna. Þetta frumvarp hreyfir því miður hvergi við neinu og það hefur komið mjög skýrt fram hjá talsmönnum ríkisstjórnarinnar að því er ekki ætlað að gera það. Þá spyr maður sig: Hver nákvæmlega er þá tilgangurinn með því sem við erum að gera hér? Jú, tilgangurinn er að breyta stjórnunarkerfi bankans. Gott og vel, það hlýtur að vera einhver ástæða fyrir því að við ætlum að breyta honum, eitthvað sem við ætlum að ná fram, eitthvað sem við ætlum að breyta.

Nú kunna menn að vera þeirrar skoðunar að mannabreytingar einar saman í bankanum kalli á breytta stefnu. Ég ætla ekki að fullyrða um það. En ef það er tilgangurinn, ef menn hafa þá skoðun að það sé nauðsynleg breyting að breyta yfirstjórn bankans með þessum hætti, breyta skipulagi yfirstjórnarinnar til að kalla fram breytingar á peningamálastefnunni, er náttúrlega alveg furðulegt að menn skuli ekki breyta 3. gr. laganna um hlutverk bankans, hvert markmið hans eigi að vera. Ef 3. gr. stendur óbreytt í lögum um Seðlabankann verður engin breyting. Þar er áfram kveðið á um að bankinn hafi þetta stífa verðbólgumarkmið, engin breyting er þar á, þannig að breytingin á yfirstjórn bankans mun ekki hafa nein áhrif á það hvernig bankinn rekur sína stefnu.

Við erum að verja mjög mikilvægum og verðmætum tíma á Alþingi í að ræða þetta mál. Þetta er stórt mál, þetta skiptir máli, það skiptir máli fyrir efnahagslífið, fyrir fyrirtækin og heimilin í landinu hvernig að þessum málum er staðið. Mér finnst satt best að segja alveg merkilegt að ekki skuli þá fylgja þessari breytingu möguleiki fyrir þá nýju yfirstjórn sem hér er kallað eftir í bankanum að breyta stjórn peningamála í kjölfarið. Hvernig stendur á því? Það væri mjög áhugavert að fá það fram hjá talsmönnum stjórnarinnar sem því miður eru mjög fáir í salnum. Þrátt fyrir alls konar yfirlýsingar á undanförnum mánuðum um mikilvægi peningamálastefnunnar í umræðunni um endurreisn íslenska hagkerfisins tek ég eftir því að í salnum situr bara einn stjórnarliði. Aðrir hafa þá öðrum hnöppum að hneppa.

Það væri áhugavert að fá fram hvers vegna ekki er gerð breyting á 3. gr. laganna þannig að sú breyting sem hér verður, ef þetta frumvarp verður að lögum, á yfirstjórn bankans geti haft einhver áhrif á það hvernig menn vinna peningamálastefnuna. Ég mundi telja að breyta þyrfti 3. gr. þannig að hún hljóðaði eitthvað á þá leið að meginmarkmið Seðlabanka Íslands væri að stuðla að stöðugu verðlagi að teknu tilliti til annarra lykilstærða í íslensku efnahagslífi. Ég held að við höfum þrengt þetta of mikið árið 2001. Það er algjörlega óþarft og rangt að hafa kerfið þannig að talin séu upp atriði eins og full atvinna, jafnvægi í byggð landsins og hvað það nú var. Það held ég að sé ekki skynsamlegt. (Gripið fram í.) En það er eðlilegt ef við horfum til annarra landa — ég tel það ekki bara eðlilegt heldur alveg nauðsynlegt að víkka þetta markmið út með þeim hætti sem ég lýsti. Úr því að við erum að fara í gegnum alla þessa vinnu, fara í gegnum það að skoða breytingar á yfirstjórn bankans, ættu menn í það minnsta að telja að það hafi einhvern tilgang að þess sjáist merki að menn hafi svigrúm til að breyta þeirri stefnu sem hefur verið í stjórn peningamála á Íslandi hingað til. Þetta er alveg lykilatriði. Hættan við það að við höldum áfram með bara skýr verðbólgumarkmið er sú að við förum aftur inn í þá stöðu að við séum að reyna að ná tökum á verðlagsþróuninni með vöxtunum einum saman, þ.e. að við keyrum aftur upp vaxtamun til þess að ná í erlent fjármagn sem ég held að verði erfitt á næstu mánuðum og missirum, satt best að segja, en nálgunin þarf að vera önnur en akkúrat sú. Nálgunin á peningamálastjórninni verður að vera önnur.

Ég vona, virðulegi forseti, að milli 2. og 3. umr. þegar þetta frumvarp fer aftur til hv. viðskiptanefndar verði þetta skoðað og ég treysti á þá sem þar sitja að setjast yfir þetta af vandvirkni og skoða þessa möguleika. Ef eitthvað gott á að leiða af þessu einhvers staðar, ef þetta á að hafa eitthvert gildi þarf það að koma fram með þeim hætti. Því miður virðist vera mikil óþolinmæði í þessu máli öllu saman en menn þurfa að setjast yfir það og vanda sig mjög vel, kalla til sín til þess bæra sérfræðinga í þessum málum, gefa sér tíma til að orða slíkt markmið skynsamlega, fara í gegnum alla þá umræðu, leggja mat á þessa hluti þannig að við fáum lög um Seðlabankann sem hjálpa okkur í þeirri viðreisn sem fram undan er. Þessi breyting hér skiptir voða litlu í því máli.

Það er þó þannig að það er ekki allt alslæmt í þessu frumvarpi, langt því frá. Ég tel t.d. æskilegt að það sé meira gagnsæi í vaxtaákvörðunum Seðlabankans líkt og er víða þar sem umræður um vaxtaákvarðanirnar — afstaða einstakra aðila sem að því máli koma — séu gerðar opinberar þannig að menn geti lesið nákvæmlega hvaða forsendur hafa legið að baki afstöðu einstakra manna. Ég tel ágætt að fara þá leiðina og við eigum að skoða það. Eins og ég sagði þarf einhver svona breyting að fylgja frumvarpinu.

Annað sem ég vil gera að umræðuefni, og hefur verið nefnt fyrr í dag, er spurningin um þau skilyrði sem menn setja til að menn geti setið sem seðlabankastjórar. Ég hef smááhyggjur af því sem bent er á í áliti minni hluta viðskiptanefndar sem snýr að skilgreiningunni á menntun seðlabankastjóra. Í frumvarpinu er orðalagið „hagfræði eða tengdum greinum“. Nú geta menn endalaust velt fyrir sér hvað eru tengdar greinar við hagfræði. Ég er þeirrar skoðunar að í opinberri umræðu hafi oft borið á því að menn misskilji fyrirbærið hagfræði, þ.e. skilgreini hugmyndina um hagfræði og hvað hagfræðingar gera allt of þröngt. Menn sjá helst fyrir sér hagfræðinga sitja fyrst og fremst á daginn við það að setja upp einhver líkön til að spá fyrir um þróun í efnahagslífinu, eitthvað þess háttar. Það er auðvitað miklu flóknara, miklu margbreytilegra og í eðli sínu allt öðruvísi starfsemi sem hagfræðin snýst um. Hagfræðin er í eðli sínu fyrst og fremst félagsfræði, sálfræði, mannfræði og allir þeir þættir. Þeir snúast um það hvernig við, manneskjurnar, getum búið saman í veröldinni að gefnu því að það sé skortur á ýmsum þeim gæðum sem við teljum æskileg í lífi okkar.

Spurningin um það þjóðskipulag sem við teljum að henti okkur best, ekki bara til að nýta auðlindir jarðarinnar og hugvit hvert annars sem best, heldur líka hvernig við getum yfir höfuð búið til samfélag þar sem við eigum mesta möguleika á því að lifa hamingjusömu lífi. Um þetta snýst hagfræðin. Það að láta sér detta í hug að þekking og skilningur á t.d. mannfræði ásamt síðan langri reynslu af efnahagsmálum og fjármálum geti ekki undirbúið menn mjög vel fyrir það að sitja í stóli seðlabankastjóra er fráleitt. Mikil og djúp þekking á menningarsögu eða slíkum þáttum getur verið mjög verðmæt og skipt miklu máli þegar kemur að því að hafa skilning á því samfélagi sem menn búa í til að sinna slíku starfi. Ég má ekki gleyma því að í svona seðlabanka eru síðan tugir og aftur tugir fólks með doktorspróf í hagfræði sem kann alla tölfræði veraldarinnar og hvað það nú er sem þarf til. Aðalatriðið er að þarna sé einstaklingur sem hafi til að bera vit og gáfur, þekkingu og reynslu til að sinna slíku starfi. Ég held að háskólapróf sé mjög góður bakgrunnur, og jafnvel nauðsynlegur, en um leið og menn segja „hagfræði eða tengdum greinum“ er þetta orðið svo vítt að það er eins gott að segja bara háskólapróf. Lögfræði er grein tengd hagfræðinni, sálfræði er grein tengd hagfræðinni að vissu leyti o.s.frv. Ég held að svona ákvæði muni alltaf valda ákveðnum vanda þegar kemur að því að við ráðum seðlabankastjóra.

Þetta voru helstu atriðin sem ég vildi gera grein fyrir. Ég á allt eins von á því að við 3. umr. þurfum við að ræða allnokkuð þær breytingartillögur sem ég vona að komi í meðförum nefndarinnar milli 2. og 3. umr. Enn á ný ítreka ég að það að gefa ekki möguleika á annarri nálgun á peningamálastefnunni en er í núgildandi lögum gerir það verkum að þetta frumvarp sem hér liggur fyrir hefur ósköp lítið gildi í sjálfu sér til að hjálpa þjóðinni til að vinna sig áfram úr þeim vandamálum sem við erum að fást við. Þess vegna skiptir þetta máli. Það skiptir máli að við nálgumst þetta líka á réttum forsendum, að við nálgumst þessa umræðu um Seðlabankann án þess að gleyma okkur í þeirri spurningu hvort þær breytingar sem hér er um að ræða séu keyrðar áfram til að ná fram breytingum strax á Seðlabankanum eða seinna eða hvað það nú er. Við verðum að nálgast þessa umræðu faglega með hagsmuni þjóðarinnar í bráð og lengd að leiðarljósi. Það er skylda okkar sem þingmanna og við hljótum öll að vilja gera þessa hluti þannig vel úr garði að það nýtist þjóðinni þegar upp verður staðið.