136. löggjafarþing — 85. fundur,  20. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[15:06]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér við 2. umr. frumvarp til laga um breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands. Farið hefur verið ítarlega yfir málið af hálfu félaga minna í Sjálfstæðisflokknum og nefndarmanna í viðskiptanefnd og ætla ég ekki að fara að endurtaka ræður þeirra. Afstaða okkar sjálfstæðismanna er vel rakin í áliti minni hlutans í nefndinni og er ég sammála því sem framsögumaður nefndarálitsins sagði fyrr í dag að þær breytingartillögur sem meiri hlutinn gerir á frumvarpinu í nefndaráliti sínu eru flestar til bóta en hefðu mátt ganga lengra eins og við bendum á í minnihlutaálitinu. Nefndarálit minni hlutans endurspeglar að mínu mati mjög vel þau sjónarmið sem fram komu hjá gestum nefndarinnar. Ég átti þess kost að sitja einn fund nefndarinnar þar sem tekið var á móti fjölmörgum gestum og mér fannst mjög mikill samhljómur í orðum þeirra. Þegar rennt er yfir umsagnirnar sem eru fylgiskjal með minnihlutaálitinu þá er það svona rauður þráður í gegnum þær.

Mjög fínar umsagnir hafa komið fram um þetta mál og má þar nefna mjög ítarlegt álit frá Seðlabanka Íslands, frá ASÍ og BSRB, Jóni Sigurðssyni, fyrrverandi seðlabankastjóra og lektor við Háskólann í Reykjavík, sem kom með mjög gagnlegar athugasemdir að mínu mati, Félagi íslenskra stórkaupmanna, Samtökum fjárfesta, Vilhjálmi Bjarnasyni, formanni minni fjárfesta — ég veit ekki alveg hvort ég fer rétt með titil hans — Viðskiptaráði, Samtökum atvinnulífsins og svo mætti lengi telja.

Ég vil aðeins fara yfir umsagnirnar vegna þess að mér finnst fjölmargir umsagnaraðilar gera mjög alvarlegar athugasemdir við tilurð frumvarpsins og aðdraganda og vinnubrögðin sem hafa verið viðhöfð og við höfum bent á í þessari umræðu og líka við 1. umr. um málið að það skorti talsvert á að frumvarpið sé það faglega frumvarp sem stjórnarflokkarnir vilja láta að liggja.

Mig langar, með leyfi forseta, að fá að grípa niður í nokkrar umsagnir og ég byrja á umsögn frá Félagi íslenskra stórkaupmanna þar sem segir:

„Umrætt frumvarp er mjög sérstakt í sniðum og er tilkoma þess og meðferð hápólitísk. Ber frumvarpið það með sér að ekki hafi verið vandað til verks.“

Á öðrum stað í álitinu segir, með leyfi forseta:

„Almennt telur FÍS að umrætt frumvarp sé verulega gallað hvað varðar þá peningastefnunefnd sem lagt er til að starfrækt verði innan Seðlabankans. Leggur félagið til að frumvarpinu verði breytt í veigamiklum atriðum.“

Ég held áfram að grípa niður í álit stórkaupmanna. Þar segir á öðrum stað:

„Að mati FÍS mun fyrirhuguð skipan peningamála þjóðarinnar ekki ná markmiðum um fagmennsku, sjálfstæði og gagnsæi. Hér er augljóslega verið að lögleiða kerfisbundinn galla í stjórnsýslu peningamála. Galla sem er sorglega líkur þeim sem átti þátt í því að leiða þjóðina í þær ógöngur sem hún er í.“

Í lokin segir í áliti Félags íslenskra stórkaupmanna:

„Vönduð og vel ígrunduð peningamálastefna er hornsteinn þeirrar endurreisnar sem fyrir stafni er. Að baki þeim stjórntækjum sem Seðlabankinn hefur þarf að vera sjálfstæður aðili sem atvinnulífið ber traust til og stjórnast aðeins af faglegum sjónarmiðum. Með fyrirhuguðu frumvarpi er ljóst að þessum markmiðum verður ekki náð.“

Mér finnst þetta mjög alvarlegar athugasemdir hjá þessu félagi.

Ég vil einnig fá að grípa niður í upphaf álits frá Vilhjálmi Bjarnasyni, sem mikið hefur verið leitað til núna eftir þær ófarir sem við lentum í og er talinn vera ákveðinn áttaviti í þessum málum með stefnuna í rétta átt. Hann segir, með leyfi forseta:

„Undirritaður telur að embætti bankastjóra í Seðlabanka sé eitthvert ólýðræðislegasta embætti í allri stjórnsýslu. Þess vegna er það vandasamt hvernig því valdi er fyrir komið í stjórnsýslunni. Þegar af þeirri ástæðu tel ég að það sé beinlínis hættulegt að vald bankastjórnar sé í höndum eins manns og lítið jafnræði milli bankastjórans, framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins, sér í lagi þar sem í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að hægt sé að víkja bankastjóra úr starfi vegna verulegs ágreinings.“

Vilhjálmur telur að þarna geti verið um að ræða beinlínis hættulegt frumvarp. Þó ber að geta þess að í breytingartillögum meiri hlutans er lagt til að það verði staðgengill þannig að það dregur aðeins úr hættunni sem Vilhjálmur nefnir hér.

Að lokum vil ég grípa niður í umsögn Samtaka atvinnulífsins þar sem segir, með leyfi forseta:

„Stjórnarfrumvarp þetta er gagngert sett fram til þess að skipta um yfirstjórn í Seðlabankanum. Frumvarpið er lagt fram á Alþingi án þess að farið hafi fram sá vandaði undirbúningur og það samráð sem mælt er fyrir um í leiðbeiningum um undirbúning og gerð stjórnarfrumvarpa sem forsætisráðuneytið hefur gefið út. Þá er aðilum gefinn skammur umsagnarfrestur, eins og allt of algengt er, og mikill þrýstingur á hraðferð frumvarpsins í gegnum þingið.“

Þetta eru nokkrar athugasemdanna sem borist hafa en allar eru þær út af sama atriðinu sem við höfum gert athugasemdir við, að þegar lögum um Seðlabanka er breytt er mjög mikilvægt að það sé gert þannig að það taki af allan vafa um að unnið sé faglega, í samráði og samkomulagi við aðila bæði í stjórnkerfinu og á Alþingi og að leitað sé til bestu sérfræðinga sem völ er á um aðkomu að málinu. Við höfum gagnrýnt þetta atriði, sjálfstæðismenn, í þessari umræðu og við 1. umr. og ég ítreka það. Okkur er hins vegar morgunljóst að ríkisstjórnin ætlar sér að klára þetta mál og fyrir því virðist vera meiri hluti í þinginu og við því er ekkert að gera, við ítrekum bara varnaðarorð okkar. Við höfum þess vegna lagt fram breytingartillögur til að reyna að draga úr skaðanum, ef svo mætti segja, og þær liggja fyrir í þingskjali. Þær hafa verið raktar hér ágætlega og ég ætla ekki að endurtaka það, en þær lúta sérstaklega að því hvort vera eigi einn eða fleiri bankastjórar eins og ég nefndi áðan, að hæfniskröfum og menntun og hefur verið farið ítarlega í það og gerir minni hlutinn ákveðnar breytingar sem eru í sjálfu sér ágætar. En athyglisvert er hve langt er gengið í nefndaráliti meiri hlutans í að passa upp á að menntun lögfræðinga passi ekki í þetta starf en viðskiptalögfræðingur er af einhverjum ástæðum sérstaklega nefndur. Ég veit ekki alveg hver munurinn er þarna á en ég vek athygli á því að viðskiptalögfræðingar virðast vera hæfari en lögfræðingar. Lýsi ég furðu minni á að það sé einhver stór greinarmunur á því, sérstaklega þar sem í áliti Seðlabankans kemur fram að í upprunalega álitinu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, sem við höfum ekki séð, er tekið sérstaklega fram að lögfræðimenntun sé talin fullkomlega nægileg sem hæfniskrafa fyrir seðlabankastjóra hér sem annars staðar.

Mig langaði aðeins að taka eitt atriði varðandi peningastefnunefndina sem vakti athygli mína á þeim fundi sem ég sat í viðskiptanefnd. Það kom fram hjá Jóni Sigurðssyni, fyrrverandi bankastjóra, lektor við Háskólann í Reykjavík — til að aðgreina þá tvo Jóna Sigurðssyni sem hafa gegnt þessu embætti — að hann gerði athugasemd við þá óvissu sem væri um stöðu fulltrúanna í peningastefnunefndinni innan stjórnskipulags bankans, í rauninni praktísk atriði um launakostnað og status þeirra og tilvist innan bankans eða eins og hann segir í umsögn sinni, sem er best að ég lesi svo ég sé ekki að umorða það sem hann segir, með leyfi forseta:

„Einn meginvandinn sem fylgir peningastefnunefnd er sá að störfin virðast vaxa og áður en varir sitja menn uppi með fjóra viðbótarstarfsmenn með fullan vinnutíma eða því sem næst og þeir munu reynast hafa tök á að tryggja sér þokkaleg laun, en enginn hefur boðvald til að nýta þá fyrir stofnunina umfram það sem þeim sjálfum þóknast. Því er skynsamlegt að kveða á um umfang starfs hvers og eins þegar við skipun í nefndina og æskilegt að hafa um þetta ákvæði í lögunum.“

Ég tek undir þetta hjá Jóni Sigurðssyni vegna þess að auðveldlega er hægt að ímynda sér að þessir utanaðkomandi peningastefnunefndarmenn verði með tímanum starfsmenn bankans vegna þess að þeir geta ekki unnið hvaða störf sem er til að gætt sé sjálfstæðis þeirra og óhæðis. (Gripið fram í: Óhæðis?) Óhæðis — bíðum við, þetta orð var í endurskoðendafrumvarpinu og við gerðum athugasemd við það en nú er ég farin að nota þetta orð sjálf.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum ræða aðeins frekar um umsagnir frá útlöndum vegna þess að eins og menn vita var það töluvert rætt við 1. umr. og hefur verið talsvert til umfjöllunar í þjóðfélaginu og í nefndinni. Það var dálítið ankannalegt við 1. umr. þegar ég spurði hæstv. forsætisráðherra út í það hvort til stæði að senda frumvarpið til umsagnar til útlanda, til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem ég tók sérstaklega fram, Seðlabanka Evrópu og fleiri, þá talaði hún sérstaklega um að það væri óþarfi. En á sama tíma og við áttum orðastað hér virðast embættismenn í forsætisráðuneytinu einmitt hafa verið að láta þýða frumvarpið og senda það til umsagnar eða jafnvel verið búnir að því. Það var nú ágætt. Ég fagna því bara að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hafi verið gefinn kostur á að gera athugasemdir við frumvarpið. Ég held að athugasemdir þeirra — a.m.k. þær athugasemdir sem ég hef fengið að sjá, ég hef ekki enn fengið að sjá fyrri athugasemdirnar sem komu — séu allar til bóta og þetta hafi verið mjög gott.

En í nefndinni kom fram, einmitt á fyrrnefndum fundi sem ég sat, og ég er hér með afrit af tölvupósti sem barst frá Seðlabanka Evrópu, frá einhverjum sem titlar sig „Director General“, ég veit að þetta er ekki bankastjóri seðlabankans en þetta er einhver háttsettur stjórnandi í bankanum. Þar er hann að koma skilaboðum til íslenskra stjórnvalda í gegnum utanríkisþjónustuna að Seðlabanki Evrópu hafi verið tilbúinn til þess að gefa umsögn um þetta frumvarp og tekur sérstaklega fram í skeyti sínu að þetta hafi verið gert fyrir önnur lönd.

Ég óskaði eftir því á fundinum að þessu góða boði yrði tekið og síðan voru greidd um það atkvæði innan nefndarinnar og það þótti óþarft. Rökin fyrir því, eftir því sem mér skilst, voru þau að þá þyrfti að fá umsagnir frá seðlabönkum vítt og breitt um heiminn sem mér finnst vera fráleit ástæða. Að mínu viti hefði það einungis bætt framkvæmd og verklag þessa frumvarps að fá álit Seðlabanka Evrópu, þó ekki væri nema bara til staðfestingar á því fyrir íslensk stjórnvöld, ef þau telja allt þarna vera gert á sem bestan hátt, að þarna væri komin viðurkenning á því frá Seðlabanka Evrópu að rétt væri staðið að verki. Ég tel að það hefði aukið trúverðugleika alls þessa starfs. Þessu var hafnað og mér þykir það mjög slæmt og ég vil ítreka það sjónarmið mitt í þessari umræðu. En þar sem málinu verður, eftir því sem mér best skilst, vísað aftur til nefndar á milli 2. og 3. umr. þá vil ég gera það að tillögu minni að sá tími verði nýttur til þess einmitt að fá þetta ágæta álit sem er í boði frá Seðlabanka Evrópu vegna þess að ég tel það mjög mikilvægt og einungis til þess fallið að auka traust okkar og trúverðugleika sem er og á að vera markmiðið með frumvarpinu, ef ég skil stjórnvöld rétt í þessu máli. Ég hvet því til þess, herra forseti, að óskað verði eftir umsögn frá Seðlabanka Evrópu og þeirra góða boði tekið hvað þetta atriði varðar.