136. löggjafarþing — 85. fundur,  20. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[15:22]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Herra forseti. Þetta hefur verið gagnleg umræða hér um frumvarp til laga um breytingu á Seðlabanka Íslands í dag og fróðlegt að fylgjast með henni. Það eru nokkur atriði sem mig langar til að nefna við þessa umræðu, sérstaklega í ljósi ræðunnar sem ég hélt við 1. umr. og þeirra álitamála sem ég lagði til grundvallar varðandi frumvarpið og þann ágalla sem ég taldi vera á því hvað vissa þætti varðar.

Viðskiptanefnd hefur haft málið til meðferðar síðustu tvær vikur og ég verð að segja að þær breytingar sem nefndin hefur gert eru til bóta þótt ég hefði viljað sjá að menn hefðu farið töluvert í aðra átt gagnvart einstökum þáttum. Ég ætla að fara stuttlega yfir það í ræðu minni hér.

Þetta frumvarp snýst í meginatriðum um þrennt:

Í fyrsta lagi að bankastjórum Seðlabanka Íslands er fækkað úr þremur í einn.

Í öðru lagi að upp er tekin svokölluð peningastefnunefnd sem hefur með höndum það verkefni sem bankastjórn Seðlabanka Íslands hefur núna.

Í þriðja lagi er ekki fjallað um 3. gr. laga um Seðlabanka Íslands þar sem tekið er á peningastefnunni.

Það má svo sem segja að það skipti máli að bankastjórar Seðlabankans séu þrír en ekki hverjir þeir eru. Þeir eru í sjálfu sér peningastefnunefnd. Hugsunin með því að hafa þrjá bankastjóra er ekki síst sú að þar skapist umræða um hvernig peningastefnunni í landinu er háttað. Með þessu frumvarpi er ákveðið að gera breytingu þarna á og velja einn bankastjóra og hafa sérstaka peningastefnunefnd.

Eins og ég lýsti við 1. umr. er þessi leið mjög fær. Hún er farin víða erlendis og hefur gjarnan gefist vel. En það ber að vanda sérstaklega til verka þegar um slíkar skipulagsbreytingar er að ræða. Ég tek fram að þetta eru ekki bara skipulagsbreytingar. Verið er að gera grundvallarbreytingar á eðli Seðlabankans með því að færa ákveðin verkefni frá þessum þremur seðlabankastjórum til peningastefnunefndar.

Ég gagnrýndi harðlega við 1. umr. að einungis væri um einn bankastjóra að ræða en ekki neinn aðstoðarbankastjóra. Ég gleðst yfir því að hv. viðskiptanefnd hefur ákveðið að leggja til að aðstoðarbankastjóri verði skipaður. Ég tel það mjög til bóta. Jafnframt tel ég til bóta að hann skuli setjast í peningastefnunefndina.

Engu að síður er ég ekki alveg sátt við hvaða leið menn fara varðandi peningastefnunefnd eins og hún er hugsuð af hálfu viðskiptanefndar. Gagnrýnin sem ég hafði á peningastefnunefndina í 1. umr. var ekki síst sú að seðlabankastjóranum væri falið mikið vald til þess að skipa þá tvo aðila sem í nefndina skyldu setjast og gæti þar með valið menn eftir því hvaða skoðanir þeir hefðu á peningamálum og myndað meiri hluta í nefndinni út frá þeim sjónarmiðum sem hann hefði uppi.

Viðskiptanefnd hefur að einhverju leyti fallist á að þetta geti skapað vandamál og í öllum umsögnum við frumvarpið hefur þetta atriði verið gagnrýnt. Ég hlýt að gagnrýna að þetta vald sé fært til forsætisráðherra. Ég held að við bætum ekkert með því. Ég held að við færum þetta mál of mikið inn í pólitíkina og það vil ég ekki.

Ég treysti því að þetta mál fari aftur í nefnd á milli umræðna og vil miklu frekar að við skoðum þá leið að auglýst verði sérstaklega eftir þeim tveimur aðilum sem eiga að fara í peningastefnunefnd. Þeir geti komið úr háskólasamfélaginu, þeir geti komið hvaðanæva að. Þeir geta þess vegna komið frá útlöndum. Þeir geta í því tilliti haft mikið vægi í nefnd eins og peningastefnunefnd, skipt verulegu máli og verið mikill stuðningur fyrir bankastjórann sem í bankanum situr. Ég beini þessum tilmælum til hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur, formanns viðskiptanefndar, sem situr hér undir umræðunni og það er gott að hún er í salnum. Mér þykir heldur þunnskipaður hópur stjórnarliða hér en ég er ánægð með það að sjá formann nefndarinnar. Ég veit að hún er að hlusta á mig og ég vona að hún skoði þetta á milli umræðna.

Það þriðja sem mig langar til að snerta örlítið á í þessu er 3. gr. laganna um Seðlabanka Íslands þar sem fjallað er um markmið laganna. Menn virðast vera sammála um það að peningastefnan í landinu hafi beðið slíkan hnekki að nauðsynlegt sé að gera breytingar á Seðlabankanum til að skerpa þar á og laga. Þá finnst mér dálítið ankannalegt að löggjafinn treysti sér ekki til að fjalla um 3. gr. laganna um Seðlabanka Íslands. Það segir mér að meiri blæbrigði séu á sjónarmiðunum en ég hefði kosið. Það er meira litið til stjórnskipulegra þátta og einstakra manna en þess verkefnis sem á Seðlabankanum hvílir, hins mikla verkefnis, að stýra peningastefnunni í landinu, sem við skulum ekki heldur gleyma að er líka á ábyrgð ríkisstjórnar Íslands. Undan því skulu menn aldrei víkjast.

Ég hefði kosið í þessu að viðskiptanefnd hefði líka skoðað 3. gr. og velt fyrir sér hvert verkefni Seðlabankans eigi að vera í bráð og lengd. Jafnvel þótt peningastefnunefnd sé komin í bankann er ekki þar með sagt að einhverjar breytingar verði á peningamálastefnunni í landinu. Við vitum ekkert hvaða menn setjast í þessa nefnd. Það getur vel verið að þeir verði með sömu áherslur og hafa verið hérna frá 2001. Og við skulum ekki gleyma því að að fyrri stefnumótun hefur komið fjöldi hagfræðinga, bæði þeirra sem starfa innan lands og eins menn sem starfa hjá virtum stofnunum erlendis. Það á ekki að koma okkur neitt á óvart þótt margir hagfræðingar muni hafa miklar skoðanir á því hvernig peningastefnunni er háttað. Ég hefði talið það vera til bóta ef Alþingi hefði snert á þessari 3. gr. með einhverjum hætti.

En hér er um að ræða frumvarp og stofnun í landinu sem er gríðarlega mikilvægt að sátt ríki um. Þess vegna verð ég að ítreka það sem ég sagði áðan að mér þykir mjög miður að ekki skuli meira samráð og samtal hafa verið á milli flokkanna um þetta mál. Að sérfræðingar hafi ekki komið meira að málinu við samningu þess. Að hv. viðskiptanefnd sitji með málið í fanginu og þurfi að gera veigamiklar breytingar á því á skömmum tíma. Mér finnst það ekki vera til bóta við þær aðstæður sem nú ríkja í landinu. Ég hefði viljað sjá meiri ró og festu yfir því sem á að gerast í Seðlabanka Íslands sem er og mun verða lykilstofnun í endurreisn þessa lands.

Hér búum við við íslenska krónu. Það er verkefni þessa banka að halda gjaldmiðlinum uppi, styrkja hann og leita leiða til þess að skapa efnahagsjafnvægi í landinu. Það á að vera sjónarmiðið. Það á að vera verkefnið en ekki að rífast um einstaka menn. Þarna hefur veikleiki stjórnmálamanna komið berlega í ljós.

Þess vegna óska ég þess að við þær breytingar sem nú verða í landinu í kosningum með nýrri ríkisstjórn að menn hafi það að leiðarljósi að skapa ró um stofnanir samfélagsins og meðhöndla og umgangast þær af tilhlýðilegri virðingu.