136. löggjafarþing — 85. fundur,  20. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[15:57]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við þekkjum það sem hér erum inni og höfum starfað á þessum vettvangi hvað málþóf er. Það er örugglega ekki málþóf þegar sárafáir, úr þingflokki sjálfstæðismanna í þessu tilfelli, taka til máls og alveg örugglega ekki málþóf þegar þeir klára ekki ræðutíma sinn. Við höfum margoft upplifað slíkt hér á undanförnum árum.

Nú getur vel verið að hv. þingmanni finnist það ekki skipta neinu máli hver samdi frumvarpið og það er þá bara allt í lagi. Það getur vel verið að hv. þingmanni finnist það ekki skipta neinu máli að um lög um Seðlabankann sé ekki samvinna á milli flokka eins og hefur verið fram til þessa. Það er alveg sjónarmið en hv. þingmaður skal þá ekki halda því fram að þar sé um gagnsæi að ræða. Það er alveg útilokað, en hins vegar er það þetta sem menn meina þegar þeir nota hugtakið gagnsæi.

Ég hef einhvern veginn alltaf staðið í þeirri meiningu að það sé partur af þeim faglegu vinnubrögðum sem við notum hér, stundum þurfum við að flýta okkur mjög mikið en við höfum þó alltaf reynt, a.m.k. í störfum þeirra nefnda sem ég hef verið í, að senda mál til umsagnar sem víðast til að fá sem besta mynd af málinu. Það liggur fyrir að slíkt var ekki gert í þessu tilfelli og ég held að það geti ekki flokkast undir fagleg vinnubrögð.

Virðulegi forseti. Ef þetta er málþóf þá er það algerlega ný skilgreining á því hugtaki, því að svo sannarlega hefðu sjálfstæðismenn, ef þeir hefðu viljað, getað talað hér og allir fyllt sinn kvóta — við erum með stóran þingflokk — en það var ekki gert. Þannig að menn skulu bara fara rétt með þau mál.