136. löggjafarþing — 85. fundur,  20. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[16:31]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég fagna því að nú er komið til atkvæða frumvarp um Seðlabanka Íslands sem hefur verið í vinnslu í þinginu í hálfan mánuð. Eina raunverulega efnisbreytingin sem meiri hluti viðskiptanefndar leggur til er að skipa skuli í stöðu aðstoðarseðlabankastjóra. Aðrar tillögur eru til áréttingar og ítrekunar á þeim markmiðum frumvarpsins sem upphaflega var kynnt um að gerðar skyldu faglegar kröfur til menntunar og reynslu við skipan í embætti seðlabankastjóra. Jafnframt því er settur lagarammi um peningastefnunefnd og tryggð aðkoma utanaðkomandi sérfræðinga að henni. Ég vænti þess að hér verði lagður grunnur að betri og öflugri seðlabanka sem notið getur trausts og trúnaðar innan lands sem utan.