136. löggjafarþing — 85. fundur,  20. feb. 2009.

Seðlabanki Íslands.

280. mál
[16:36]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Hér greiðum við atkvæði um breytingartillögu meiri hluta viðskiptanefndar sem er vissulega til bóta frá því sem var í upphaflegu frumvarpi. Gert er ráð fyrir að seðlabankastjóri og aðstoðarseðlabankastjóri skuli hafa lokið háskólaprófi í hagfræði eða tengdum greinum þannig að um útvíkkun er að ræða frá því sem var í frumvarpinu.

Hins vegar höfum við sjálfstæðismenn lagt fram aðra tillögu sem gengur lengra og hefur nú verið felld. Þess vegna munum við ekki styðja þessa breytingu en sitjum hjá við atkvæðagreiðsluna.

Ég vil geta þess að í ljósi þeirrar deilu sem er um menntunarkröfurnar að í tveimur nýlegum tilvikum hefur Alþingi samþykkt lög um forstöðumenn ríkisstofnana, Varnarmálastofnunar og Sjúkratryggingastofnunar, þar sem kröfurnar eru með nákvæmlega sama hætti og við gerðum ráð fyrir í tillögu okkar, að um sé að ræða háskólamenntun og víðtæka reynslu (Forseti hringir.) en ekki tiltekna háskólamenntun.