136. löggjafarþing — 86. fundur,  23. feb. 2009.

mál á dagskrá.

[17:30]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Ég ætla ekki að koma hingað upp í púlt og undrast yfir öllum þessum breytingum sem hafa orðið á dagskrá þingsins. Allir í samfélaginu átta sig á þessum vandræðagangi sem er á stjórnarheimilinu varðandi framgang og viðgang frumvarpa úr nefndum, en gott og vel með það. Það er hins vegar eðlilegt að við sem þingmenn fáum að vita hvaða dagskrá bíður okkar á morgun. Má búast við því að það verði svipað umhorfs í þinginu á morgun eins og var í dag? Langt er liðið á dag og við erum ekki enn þá byrjuð að ræða ýmis mál. Það er þetta sem við höfum varað við lengi. Það þarf að nýta tíma þingsins í að ræða brýnustu málin. Og brýnustu málin eru efnahagsmálin, brýnustu málin eru atvinnumálin og þau komast ekki á dagskrá þingsins.

Þess vegna hljótum við að spyrja og krefja forseta upplýsinga: Hvers má vænta á morgun? Við hverju má búast á morgun? Við ætlumst til þess að hægt sé að ganga að ákveðnum málum gefnum, þ.e. brýnustu hagsmunamálum þjóðarinnar sem eru efnahags- og atvinnumál.