136. löggjafarþing — 86. fundur,  23. feb. 2009.

mál á dagskrá.

[17:35]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það er auðvitað skemmtan að því að sjá þingmenn Sjálfstæðisflokksins koma upp og ræða fundarstjórn forseta. Það er á hinn bóginn eðlilegt að þeir geri það því að þetta er óvenjulegur dagur á þinginu. Ástæðan er auðvitað, eins og hv. þm. Bjarni Benediktsson veit af því að hann hefur fylgst með fréttum, sú að það þarf að ná hér tökum á hagstjórn í landinu og það verður ekki gert með öðrum hætti en þeim að skipulagsbreytingar (Gripið fram í.) takist í Seðlabanka Íslands.

Hitt er svo annað hvaða mál eru hér komin fram. Ég hygg að það sé nóg að gera í nefndum hjá hv. þm. Jóni Magnússyni og öðrum þeim sem hér kvarta því að ríkisstjórnin hafi komið fram ýmsum þörfum málum og önnur séu á leiðinni samkvæmt tilkynningum sem um það hafa verið fluttar. Við skulum taka saman höndum um að afgreiða þau mál, en mikilvægast núna í dag er að þær breytingar sem meiri hluti þings og meiri hluti þjóðar er sammála um að þurfi að gera á Seðlabanka Íslands gangi í gegn.