136. löggjafarþing — 86. fundur,  23. feb. 2009.

mál á dagskrá.

[17:44]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir með þeim þingmönnum sem hafa sagt að það er óvenjulegt að þingfundi sé frestað eins og gert var í dag. Um leið verð ég að lýsa undrun minni á því að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem hér hafa stigið upp og lýst yfir áhuga sínum á því að ræða efnahagsmál eru hinir sömu þingmenn og lögðu til á fundi viðskiptanefndar í morgun að málefni Seðlabanka Íslands yrði frestað, með öðrum orðum kæmi ekki til umræðu. Þegar maður fer yfir dagskrána er hér um að ræða lykilmál. Eitt lykilmálið sem lýtur að efnahagsmálum er mál er lýtur að Seðlabanka Íslands. Þessir hinir sömu þingmenn og hafa nú komið í pontu og lýst þeirri skoðun sinni að hér sé engin umræða um efnahagsmál lögðu til á fundi viðskiptanefndar í morgun að málinu yrði frestað, það kæmi ekki á dagskrá, það yrði ekki rætt.

Virðulegi forseti. Það er (Forseti hringir.) afar mikilvægt að það sé einhver samfella í málflutningi hv. þingmanna.