136. löggjafarþing — 86. fundur,  23. feb. 2009.

mál á dagskrá.

[17:45]
Horfa

Árni M. Mathiesen (S):

Herra forseti. Það er afar slæmt ef hæstv. forseti hefur fengið ranga mynd af því sem gerðist í hv. viðskiptanefnd í morgun. Það var ekkert um það að ræða að fresta málefni Seðlabankans. Það var einfaldlega um það að ræða að nefndin vildi vinna málið frekar og var að bíða eftir upplýsingum sem von er á um tillögur frá Evrópska seðlabankanum um það hvernig menn þar hugsa sér að haga starfsemi seðlabanka varðandi fjármálastöðugleika á næstunni. Við erum að vinna með frumvarp um Seðlabankann hér í þinginu og ef við látum renna okkur úr greipum slíkt tækifæri til að skoða þær tillögur sem þarna eru og sjá hvort þær geta passað inn í þá vinnu sem við erum að vinna erum við að vanrækja skyldu okkar. Það var einmitt ekki verið að fresta málinu. Nefndin vildi vinna málið frekar.