136. löggjafarþing — 87. fundur,  24. feb. 2009.

staða ríkisbankanna.

[13:32]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Herra forseti. Mig langar að beina orðum mínum til hæstv. viðskiptaráðherra og ræða við hann um stöðu ríkisbankanna og þau verkefni sem blasa við á þeim vettvangi. Eins og við vitum er endurreisn bankanna eitt mikilvægasta málið sem fram undan er í íslensku atvinnulífi og gagnvart heimilunum í landinu.

Mig langar að forvitnast um það hjá hæstv. viðskiptaráðherra hvenær sé von á nýjum efnahagsreikningum fyrir bankana. Þegar þeir liggja fyrir er betra að gera sér grein fyrir hvernig best er að skipuleggja ríkisbankana til lengri tíma.

Mig langar líka að inna ráðherrann eftir áformum um sameiningu ríkisbankanna. Ég tók eftir því, eins og fleiri, að fyrir helgina var nafni Glitnis breytt til baka í Íslandsbanka. Menn hafa farið í markaðsherferð til að kynna þetta nýja nafn, Íslandsbanki. Mig langar af því tilefni að heyra hvort það hafi verið ráðgert að reyna að sameina þessa banka með einhverjum hætti í stað þess að fara í slíka vinnu núna vegna þess að það liggur fyrir að það er ærið verkefni fyrir okkur að reka þrjá ríkisbanka og raunar engin sérstök rök fyrir því að þeir eigi að vera þrír. (Gripið fram í.)

Eins langar mig til að vita hvort menn hafi hugsað frekar um aðkomu erlendra kröfuhafa að íslensku bönkunum. Við vitum að það hefur verið rætt sérstaklega hvað varðar Kaupþing. Eru einhver áform uppi af hálfu ráðherra að þessu leyti? Jafnframt vildi ég spyrja ráðherrann um sameiningarmálin. Hefur verið tekin einhver ákvörðun um það? Hefur verið einhver vinna í gangi varðandi erlenda kröfuhafa og hvenær er hægt að vænta þess að einhver niðurstaða eða áform um það muni liggja fyrir af hálfu hæstv. viðskiptaráðherra?