136. löggjafarþing — 87. fundur,  24. feb. 2009.

skuldbreyting húsnæðislána.

[13:41]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir þessa fyrirspurn. Hún vitnar í svar sem ég gaf hv. þm. Helgu Sigrúnu Harðardóttur skriflega á dögunum og fréttir hafa borist af þar sem segir og tekið er út úr svarinu að ekki sé tímabært að bregðast við skuldbreytingu gengistryggðra lána í afskriftum. Í fyrirsögn á þessari frétt er svolítið snúið út úr svari mínu þannig að hv. þingmaður sér það nú þegar hann les í gegnum svarið að í fyrirsögn kemur ekki alveg afstaða þeirrar sem hér stendur til þessa málaflokks. Þegar við metum hvaða leiðir skuli farnir til að bregðast við þessum skuldum þarf að gæta að jafnréttissjónarmiðum og hafa þau að leiðarljósi.

Það eru tvenns konar flokkar af lánum sem þarna eru til umræðu og þetta eru margþætt vandamál sem við stöndum frammi fyrir. Það eru annars vegar gengisbundnu lánin og síðan verðtryggðu lánin. Það þarf að gæta fulls jafnræðis milli lántakenda þannig að einum hópi sé ekki hyglt umfram annan. En þessi mál eru á verksviði annars ráðuneytis heldur en míns, þ.e. viðskiptaráðuneytisins, en ég veit að þar er unnið hörðum höndum að því að leysa þau. Það er mjög mikilvægt að vanda til verka og stíga varlega til jarðar þegar þessi mál eru afgreidd en ég verð að vísa frekari útfærslum til hæstv. viðskiptaráðherra sem þessi málaflokkur heyrir undir.