136. löggjafarþing — 87. fundur,  24. feb. 2009.

fullgilding Árósasamningsins.

[13:46]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

(Utanrrh.: Má ég spyrja hæstv. ráðherra?) Forseti. Það væri ágætt að ráðherrarnir spyrðu hver annan, því það hefði mikið skemmtigildi hér í þinginu ef sá liður væri tekinn upp.

Úr því að færi gefst langar mig til að spyrja hæstv. umhverfisráðherra um ákaflega gleðilega yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um gildistöku Árósasamningsins, hvernig hann hefur verið undirbúinn og hvort, sem ég geri mér ekki grein fyrir, (Utanrrh.: Málið er ...) hægt er að — já, þá kemur bara hæstv. utanríkisráðherra hér á eftir, forseti, og bætir við. Ég tel nú að þótt báðir ráðherrar hafi mikið vit á þessu máli beri umhverfisráðherra ábyrgð á málaflokknum sem slíkum þó að utanríkisráðherra geri vissulega samningana í nafni forseta Íslands, ég minni á það að utanríkisráðherra (Gripið fram í.) gerir þá í nafni forseta Íslands og íslensku þjóðarinnar.

Það sem ég ætlaði að ræða hér — ef ég kemst að, hæstv. forseti, fyrir málgleði hæstv. utanríkisráðherra — var það að Árósasamningarnir eru ekki einfalt mál. Er rétta leiðin að samþykkja þá hér á þinginu eða þarf áður að renna í gegn þeim lagabreytingum sem nauðsynlegar eru og komu fram í mikilli skýrslu sem unnin var á vegum ýmissa ráðuneyta, undir forustu embættismanns úr umhverfisráðuneytinu, á síðasta kjörtímabili? Í hvaða röð er þetta gert og hvernig má vænta þess að gangurinn verði við þessa — og ég endurtek — ánægjulegu ákvörðun hinnar nýju ríkisstjórnar?