136. löggjafarþing — 87. fundur,  24. feb. 2009.

fullgilding Árósasamningsins.

[13:51]
Horfa

umhverfisráðherra (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég get tekið undir orð þingmannsins. Nú leggjum við allt kapp á það að klára að vinna þessi frumvörp í ráðuneytunum. Ég mun standa vaktina í þeim efnum og vona og treysta því að þess verði ekki langt að bíða að þau verði lögð hér fram.

Af því að Sjálfstæðisflokkurinn og þvermóðska hans gagnvart þessu máli sérstaklega er nefnd langar mig til að nefna hér eitt mál sem við munum eftir, þegar ákvæðum í lögum um gjafsókn var breytt fyrir örfáum árum þannig að möguleikar fólks á því að komast að dómskerfinu í gegnum gjafsókn voru þrengdir. Ég man númerið á greininni sem felld var niður, 126. gr., b-liður, og það var kappsmál sjálfstæðismanna á sínum tíma að gera það og það fór í gegn sem lög frá Alþingi. Ég lagði hins vegar fram breytingartillögu við það mál og kem til með að vinna að því áfram að gjafsóknarákvæðin verði rýmkuð og tel að innleiðing Árósasamningsins hafi í för með sér að þau verði að rýmka. Sömuleiðis hef ég heyrt að þingmenn hugleiði jafnvel möguleikann á að flytja tillögur um þessa rýmkun nú þegar á þessu þingi, jafnvel einhvern tíma á næstu dögum þannig að ég lít svo á að á næsta leyti sé líka að rýmka gjafsóknarákvæðin sem ég tel að verði til mikilla bóta.