136. löggjafarþing — 87. fundur,  24. feb. 2009.

skuldir heimilanna.

[13:53]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka kærlega fyrir þetta tækifæri til að fá að koma tvisvar upp á þessum þingfundi með óundirbúna fyrirspurn. Kannski þakka ég bara öllum hv. þingmönnum fyrir að ana ekki allt of mikið með fyrirspurnir á ráðherrana, enda eins og við vitum er valdið komið inn í þingið og við þurfum kannski ekki að spyrja ráðherrana allt of mikið.

Hins vegar vil ég ítreka fyrri spurningu þar sem ég spurðist fyrir um hvenær væri tímabært að bregðast við þeim skuldum sem eru að sliga heimili landsins og hvort ríkisstjórnin væri að velta fyrir sér að fara út í skuldbreytingu lána í enn frekara mæli eða jafnvel hreinar afskriftir.

Í gær kynnti forusta Framsóknarflokksins einmitt tillögur okkar um hvernig ætti að standa að niðurfellingu húsnæðislánanna og ég vona að hæstv. viðskiptaráðherra hafi haft tækifæri til að kynna sér þær, því að þessi málaflokkur fellur töluvert undir ráðuneyti hans, þegar horft er til þess að þau húsnæðislán sem voru flutt frá gömlu bönkunum yfir í nýju bankana verði síðan færð yfir til Íbúðalánasjóðs. Við sjáum alveg fyrir okkur að þar yrði heilmikið samstarf á milli viðskiptaráðuneytisins og síðan félags- og tryggingamálaráðuneytisins.

Ég vona að hæstv. ráðherra hafi verið að hlusta á það sem við töluðum um hér áðan en hugmyndin er sem sagt sú að færa húsnæðislánin fyrst frá gömlu bönkunum yfir til nýju bankanna og síðan þaðan yfir til Íbúðalánasjóðs og í framhaldinu mundi Íbúðalánasjóður veita flata 20% niðurfellingu skulda vegna allra húsnæðislána hjá sjóðnum. Þetta höfum við hugsað okkur að gera til að tryggja jafnræði á milli þeirra sem áttu húsnæðislán hjá bönkunum og Íbúðalánasjóði og byggist fyrst og fremst á þeirri staðreynd að nýju bankarnir hafa fengið lánasöfn gömlu bankanna með verulegum afslætti og erlendu kröfuhafarnir hafa nánast alveg afskrifað eignir sínar hér á Íslandi og sumir jafnvel haldið því fram að þeir geti hreinlega ekki lengur verið með neitt bókað í efnahagsreikningum sínum sem tengist Íslandi. (Forseti hringir.) Því væri áhugavert að heyra hvað hæstv. viðskiptaráðherra finnst.