136. löggjafarþing — 87. fundur,  24. feb. 2009.

skuldir heimilanna.

[13:57]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Það væri þá áhugavert að heyra hvaða hugmyndir ríkisstjórnin hefur um það að koma til móts við heimilin sem eru að sligast undan skuldunum. Það er sláandi að lesa þær tölur sem birtust á forsíðu Morgunblaðsins í morgun um hversu mikið lánin og afborgunarbyrðin hafa hækkað hjá fólki. Ekki er langt síðan umræða var í Silfri Egils þar sem talað var um að engin sanngirni væri í því að bara annar aðilinn gæti breytt öllum forsendum í samningi og hinn verði síðan að standa skil á sínu þó að allar forsendur hafi brugðist. Ég mundi gjarnan vilja heyra frá hæstv. viðskiptaráðherra hvernig hann sjái fyrir sér að hægt verði að koma til móts við þennan hóp og ekki sé bara rætt um að einhverjar hugmyndir þurfi að vera um þetta og stór hluti muni geta staðið í skilum. Því ef fara á í það að meta hvern og einn er náttúrlega (Forseti hringir.) alltaf hætta á því að kannski komi enn á ný (Forseti hringir.) upp þau mál sem varða spillingu og vinargreiða í okkar litla samfélagi.