136. löggjafarþing — 87. fundur,  24. feb. 2009.

Byggðastofnun.

[14:00]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég varð vör við það áðan að hæstv. ráðherra langar óskaplega mikið til að fá að svara hérna fyrirspurnum. Hann kom mér eiginlega á sporið sjálfur með því að kalla fram í og tala um Byggðastofnun. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. iðnaðarráðherra sem fer með málefni Byggðastofnunar hvernig staðan sé hjá þeirri stofnun og hvort það sé rétt sem heyrst hefur að uppi séu áform um að gera þar ákveðnar breytingar og jafnvel að taka þróunarsviðið út úr stofnuninni. Ég tel að það mundi þýða að þessi stofnun væri eftir það ekki nema svipur hjá sjón.

En við skulum ekki ákveða fyrir fram að það sé ekki ástæða til að gera einhverjar breytingar. Ég setti sjálf fram tillögu um það á sínum tíma að Byggðastofnun væri hluti af Nýsköpunarmiðstöðinni af því að auðvitað fjallar Byggðastofnun að verulegu leyti um nýsköpunarmál og hugsanlegar nýjungar sem geti átt framtíð fyrir sér í atvinnusköpun á landsbyggðinni. Ég vil bara gefa hæstv. ráðherra tækifæri til að fræða þingheim svolítið um það hvaða áform eru uppi í sambandi við þessa mikilvægu stofnun og hversu langt hugmyndir eru komnar á veg í sambandi við það að gera þarna breytingar. Er kannski engin þörf á því eða hvar standa mál?