136. löggjafarþing — 87. fundur,  24. feb. 2009.

Byggðastofnun.

[14:01]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Hv. þingmaður orðaði það svo að ég hefði komið sér á sporið. Ég verð að viðurkenna að það er mér alltaf sannkallað gleðiefni ef ég get komið Framsóknarflokknum í réttan farveg. Það hefur mér stundum tekist, stundum ekki. En það er sjálfsagt að svara spurningu hv. þingmanns.

Á sínum tíma beitti hún sér fyrir ákveðnum breytingum sem ekki náðu að öllu leyti í gegn. Ég var í hópi fárra þingmanna, a.m.k. í mínum flokki á þeim tíma, sem töldu þær breytingar jákvæðar. Hluti af þeim breytingum sem ég hef einmitt verið að skoða tengist því að færa aukið verk yfir til Nýsköpunarmiðstöðvar. Ég hef sömuleiðis velt fyrir mér að beita ákveðnum parti af starfsliði stofnunarinnar og flytja það yfir til Hólaskóla, stofna þar rannsóknarsetur í ferðamálum, skjóta þar með enn einni sterkri stoð undir Hólaskóla og sömuleiðis að taka ákveðinn hluta af sviði stofnunarinnar og mynda ásamt Hagstofunni sérstakt útibú Hagstofunnar sem mundi sinna ákveðnum tölfræðilegum og hagfræðilegum rannsóknum á landsbyggðinni sem ég tel þörf á. (Gripið fram í: … kjördæmi?) Engin áform eru um það, hv. þingmaður.

Ég var kominn það langt með þessar hugmyndir að þær voru komnar í frumvarpsdrög og ég hugðist leggja frumvarpið fram á þessu þingi. Síðan hafa orðið þær breytingar á stjórn ríkisins að það er komin ný ríkisstjórn og það er skammt til kosninga þannig að ég svara bara hv. þingmanni ærlega að það frumvarp verður ekki lagt fram af þessari ríkisstjórn.