136. löggjafarþing — 87. fundur,  24. feb. 2009.

staða og starfsumhverfi íslenskrar verslunar.

[14:16]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Staða íslenskrar verslunar er því miður óneitanlega afar erfið. Við verðum að hafa bakgrunninn í huga. Mikil uppbygging og fjárfesting hefur verið í verslun undanfarin ár, sérstaklega í verslunarhúsnæði, og fór þá saman við mikinn vöxt neyslu og innflutnings. Þessi mynd hefur síðan breyst algjörlega á nokkrum mánuðum og nú blasir við mikill samdráttur einkaneyslu og innflutnings sem kemur því miður sjálfkrafa beint niður á veltu í verslunum. Því er spáð að neysla dragist saman um u.þ.b. 30% á árunum 2007–2009 og það kemur óhjákvæmilega beint fram í því að umsvif í verslun dragist saman um væntanlega eitthvað svipað þótt hugsanlega færist einhver verslun inn í landið sem áður var utan þess.

Við vandamál vegna þessa bætast vandræði vegna gengisþróunar, innkaupsverð innfluttra vara hækkar, erlend lán hækka og tengingar fyrirtækja eru þannig að erfiðleikar smásala koma sjálfkrafa niður á heildsölum og raunar einnig innlendum framleiðslufyrirtækjum. Þetta er óneitanlega talsvert fjall að klífa, en við skulum samt hafa í huga að þótt þessir tímabundnu erfiðleikar séu kannski ekki illleysanlegir, þótt þeir séu erfiðir, er langtímastaða íslenskrar verslunar auðvitað ekkert miklu verri en hún var fyrir þessar hremmingar allar saman. Það verður þörf fyrir blómlega verslun hérlendis eftir sem áður þannig að verslunin mun rísa. Óneitanlega verður ekki hátt á henni risið frekar en ýmsum öðrum atvinnugreinum á allra næstu mánuðum og missirum. Því miður er óhjákvæmilegt að þetta ástand valdi því að afskrifa verði talsvert af bæði eigin fé og skuldum í þessari grein hérlendis eins og raunar ýmsum öðrum. Það stendur kannski fyrst og fremst upp á bankakerfið að hafa milligöngu um það og það verður að gera kröfu til bankakerfisins um að það standi vel að þeirri vinnu allri saman, mismuni ekki fyrirtækjum eða eigendum og reyni að veita svigrúm þeim fyrirtækjum sem geta bjargast með lítilli hjálp án þess að allir þurfi að grípa til einhverra ráða eins og að eigendur hverfi frá rekstrinum.

Einnig þarf að huga að samkeppnissjónarmiðum. Það verður að koma í veg fyrir að þessar hræringar allar saman valdi aukinni samþjöppun í verslunarrekstri. Raunar má segja að hérna sé, ef eitthvað er, jafnvel komið tækifæri til að draga úr samþjöppun í verslunarrekstri. Vonandi gengur það eftir. Því miður er í grundvallaratriðum ekkert svigrúm til sértækra aðgerða hins opinbera til aðstoðar verslun, en það verður að hafa í huga að verslunin nýtur í raun góðs af öllum almennum efnahagsaðgerðum, t.d. öllu því sem gert er til að koma á vel starfhæfu bankakerfi, öllu því sem gert er til að ná stöðugleika í gengis- og verðlagsmálum sem getur síðan orðið til þess að lækka nafnvexti og gert okkur kleift að afnema höft á fjármagnsflutningum. Allt sem gert er til að verja stöðu heimilanna og berjast gegn atvinnuleysi kemur verslun vel og allt sem gert er til að bæta samskipti við erlenda aðila, tryggja greiðslumiðlun og aðgang að fjármagni og almennt endurvekja traust á íslenska hagkerfinu utan lands kemur versluninni vel.

Hv. þm. Ásta Möller spyr sérstaklega um vaxtalækkun og rýmkun hafta. Því er til að svara að tímasett áætlun um þessa þætti liggur ekki enn fyrir en það er mjög brýnt að ná sem hraðast niður verðbólgu og vöxtum og skapa skilyrði til rýmkunar og helst afnáms hafta. Þessi mál eru sérstaklega á borði Seðlabankans og verða unnin í samvinnu eða samráði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn en ríkisstjórnin mun gera hvað hún getur til að flýta framgangi þeirra. Það er þó rétt að hafa í huga sem skiptir verslun miklu máli að nú eru engin höft á viðskiptum með gjaldeyri vegna innflutnings á vörum og þjónustu.

Það má líka hafa í huga að gengi krónunnar var óeðlilega hátt á liðnum árum og þurfti óhjákvæmilega að falla talsvert til að draga úr innflutningi og skapa betri skilyrði fyrir útflutning. Það hefur hins vegar væntanlega fallið meira en góðu hófi gegnir þannig að það er eitthvert svigrúm til styrkingar krónunnar þótt það sé ekki augljóst hvenær krónan nær að styrkjast.

Ég vil einnig vekja athygli á því að þótt margt megi án efa bæta í rekstri nýju bankanna má ekki gleyma því að ýmislegt er þar nú þegar vel gert, jafnvel meira en hægt var með góðu móti að vonast til svo skömmu eftir hrun bankakerfisins. Þeir hafa nú þegar burði til að sinna öllu því sem kalla má eðlileg viðskipti við einstaklinga og lítil og meðalstór fyrirtæki þótt ýmis uppgjörsmál og vandamál stærstu fyrirtækjanna séu enn að einhverju leyti óleyst og muni taka lengri tíma. Það snýr í mörgum tilfellum (Forseti hringir.) frekar að gömlu bönkunum og uppgjöri þeirra en þeim nýju.