136. löggjafarþing — 87. fundur,  24. feb. 2009.

staða og starfsumhverfi íslenskrar verslunar.

[14:32]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka svör hæstv. viðskiptaráðherra sem mér þóttu góð í alla staði. Eins og fram kom í máli hans erum við fyrst og fremst að tala um almennar aðgerðir sem geta bætt hag verslunarinnar eins og allra annarra atvinnufyrirtækja í landinu og lúta að því að ná niður verðbólgu og vöxtum og skapa hér umhverfi sem gerir atvinnurekstri kleift að starfa við bestu skilyrði. Því erum við að vinna að í kjölfar hrunsins þar sem ljóst er að atvinnureksturinn starfar í allt öðru umhverfi en áður. Þannig að ég vil ítreka það að ég var ánægður með svör hæstv. ráðherra.

Hins vegar er greiðslujöfnunin, sem síðasti hv. ræðumaður talaði um, sérstakt mál sem varðar að tryggja jafnræði verslunar á landsbyggðinni. Það er hins vegar sértæk aðgerð sem ég gat ekki skilið að hv. þm. Ásta Möller fjallaði um hér í inngangserindi sínu heldur fyrst og fremst almennar aðgerðir.

Ég vil líka segja, virðulegi forseti, að eins og fram hefur komið í umræðunni er ljóst að verslun mun dragast saman eðli málsins samkvæmt. En afar mikilvægt er að lánveitendur reyni að tryggja það að sem flest fyrirtæki lifi, því eins og hæstv. ráðherra vakti athygli á mun verslun til lengri tíma án efa búa vel og koma vel út úr þessu. Eins að við reynum að tryggja að þeir sem verða undir eigi möguleika á að komast sem fyrst á fætur aftur og nýta þá reynslu og þekkingu sem er til staðar. Það er kannski stærsta hlutverk stjórnvalda nú að tryggja að þau fyrirtæki sem verða undir — (Forseti hringir.) að þeir einstaklingar sem þar eiga í hlut geti nýtt þekkingu sína og styrk til þess að endurbyggja fyrirtæki.