136. löggjafarþing — 87. fundur,  24. feb. 2009.

staða og starfsumhverfi íslenskrar verslunar.

[14:34]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ástu Möller fyrir að vekja athygli á málefnum verslunarinnar á vettvangi þingsins sem og hæstv. ráðherra Gylfa Magnússyni fyrir innlegg hans í þessa mikilvægu umræðu.

Við framsóknarmenn kynntum í gær efnahagstillögur okkar til að bregðast við miklum erfiðleikum í atvinnulífinu og vanda heimilanna. Við lögðum fram fjölmargar tillögur og það segir sig sjálft að þegar stýrivextir eru 18% í mikilli verðbólgu brennur eigið fé fyrirtækja og heimila upp á björtu báli.

Þess vegna teljum við mikilvægt og höfum lagt það til að stýrivextir Seðlabanka Íslands verði lækkaðir hið fyrsta í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Sendinefnd frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum mun koma hingað til lands í þessari viku og vonandi mun formaður Framsóknarflokksins hitta þá nefnd og fara yfir rökstuðning okkar framsóknarmanna um hvers vegna á að fara hið fyrsta í það að lækka stýrivextina. Það bitnar mjög hart á atvinnulífinu og versluninni að búa við þessa himinháu vexti og þess vegna þarf að ná árangri sem allra fyrst í því að lækka stýrivextina.

Í öðru lagi er ljóst, eins og hv. frummælandi benti á, að mörg fyrirtæki hér á landi eru tæknilega gjaldþrota og búa við mikla erfiðleika. Það þarf að takast á við vanda fyrirtækja. Þó þurfum við fyrst og fremst að bjarga þeim fyrirtækjum sem eru lífvænleg og eiga raunverulega framtíð. En þau þurfa hjálp og stjórnvöld þurfa að koma með aðgerðir til að bæta stöðu verslunar og atvinnulífs.

Þess vegna höfum við framsóknarmenn á vettvangi þingsins beðið um tvöfalda utandagskrárumræðu um endurreisn atvinnulífsins. Það þarf lengri tíma til að ræða þessi grundvallarmál og (Forseti hringir.) þær lausnir sem við höfum m.a. (Forseti hringir.) lagt til og vonandi aðrir stjórnmálaflokkar á Alþingi.