136. löggjafarþing — 87. fundur,  24. feb. 2009.

ábyrgðarmenn.

125. mál
[14:46]
Horfa

Flm. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um ábyrgðarmenn eða svokallaðar þriðja manns ábyrgðir sem lúta að því að hingað til hafa ekki verið til reglur hér á landi um ábyrgðarmenn og skuldbindingar þeirra þrátt fyrir að við á Íslandi höfum haft afar sérstakt fyrirkomulag eða kerfi ábyrgðarmanna sem á sér enga hliðstæðu á Vesturlöndum.

Það mál sem hér er flutt hefur verið flutt sjö til átta sinnum með mismunandi mörgum flutningsmönnum og tel ég að hafi einhvern tíma verið þörf á að setja almennar reglur um ábyrgðarmenn sé það einmitt núna. Það má kannski orða það þannig að Íslendingar hafi verið mjög umburðarlyndir gagnvart kröfuhöfum almennt. Lagaumgjörðin hefur jafnan haft hagsmuni kröfuhafa að leiðarljósi og jafnvel þannig að kröfuhafar hafa getað elt skuldara nánast ofan í gröfina. Það er ekki í samræmi við það sem verið hefur í öðrum löndum og m.a. er ein hugmynd í frumvarpinu sótt til Bandaríkjanna þar sem gildir sú regla í sumum ríkjum að ef einstaklingur verður gjaldþrota er heimili hans undanþegið uppgjöri á þrotabúinu.

Það er mjög athyglisvert að land sem kennir sig við einstaklingsfrelsi og samkeppni skuli byggja á reglu sem þessari, þ.e. ef einstaklingar verða gjaldþrota er viðhorfið einfaldlega þetta: Hagsmunir samfélagsins felast frekar í því að einstaklingar og fjölskyldur geti búið áfram á heimilum sínum en að kröfuhafar fái gerðar upp kröfur sínar. Þetta viðhorf er mjög athyglisvert í því ljósi að á Íslandi höfum við verið með mjög strangar og harðar reglur, ef svo má segja, sem tryggja vernd kröfuhafa. Við höfum verið með aðfararreglur og gjaldþrotareglur. Við höfum verið með reglur um fyrningu og annað slíkt sem gera það að verkum að réttur og vernd kröfuhafa eru geysilega mikil.

Við höfum, virðulegi forseti, komið okkur upp afar sérstöku kerfi sem er hið svokallaða ábyrgðarmannakerfi og hið íslenska kerfi á sér, að ég best veit og leyfi mér að fullyrða, enga hliðstæðu á Vesturlöndum. Það hefur ekki talist eðlilegt annars staðar en á Íslandi þar sem það var lengi vel meginregla frekar en undantekning að þeir sem eiga viðskipti innbyrðis, þ.e. lántakandi og lánveitandi, bera ekki ábyrgð á efndum heldur er kölluð til ábyrgð þriðja manns til þess að tryggja efndir gagnvart kröfuhöfum. Þetta kerfi hefur þróast hér án þess að um það hafi gilt nokkrar lagareglur. Sá er hér stendur er sannfærður um að það er þörf á því að setja lagareglur um þetta. Undir það taka fleiri þingmenn og leyfi ég mér að nefna hv. þm. Pétur Blöndal sérstaklega sem ég held að hafi flutt með mér málið hvert einasta sinn sem það hefur verið flutt þrátt fyrir að um málið sé örlítill ágreiningur okkar í milli sem ég geri ráð fyrir að hann geri grein fyrir í umræðunni. En báðir erum við alveg sannfærðir um mikilvægi þess að setja lagareglur um þetta fyrirkomulag.

Margs konar hremmingar og hörmungar hafa riðið yfir heimili og fjölskyldur þessa lands vegna þessa kerfis. Einstaklingar sem gengist hafa í ábyrgð hafa oft og tíðum ekki átt neinn möguleika á því að átta sig á því hversu mikla áhættu þeir taka því að oft á tíðum hafa ekki legið fyrir upplýsingar um hver er raunveruleg fjárhagsstaða skuldarans. Viðkomandi ábyrgðarmenn hafa ekki átt möguleika á því að afla sér þessara upplýsinga. Það hefur oft komið fyrir. Ég man eftir því að einn hæstv. fyrrverandi ráðherra og fyrrverandi bankastjóri, sem eitt sinn var meðflutningsmaður minn á þessu máli, fullyrti að bankarnir hefðu oft og tíðum fengið fyrirtæki eða einstakling til að gangast í ábyrgð í tilvikum þar sem vitað var að þeir voru ekki borgunarmenn fyrir sínum skuldum. Þetta fyrirkomulag hefur því án efa valdið miklum skaða í íslensku samfélagi.

Ég er ekki að leggja til að þetta verði bannað. Á hinn bóginn legg ég til að um þetta gildi afar strangar reglur og að tryggt verði að réttur ábyrgðarmanns þegar hann gengst í ábyrgð fyrir fjárkröfur á hendur þriðja manni sé skýr, Hann geti borið hann fyrir sig og ekki sé hægt að hafa rangt við gagnvart ábyrgðarmanni. Það er markmiðið með þessu frumvarpi. Þar er auk þess sérregla sem ég vísaði að nokkru leyti til áðan. Hún kveður á um að í tilvikum þar sem gengið er að ábyrgðarmanni — réttur kröfuhafa er til kominn vegna þess að einstaklingur hefur gengist í ábyrgð fyrir þriðja mann — er heimilið undanþegið, þ.e. ekki verður gert fjárnám í heimili viðkomandi.

Ég leyfi mér að fullyrða að í tilvikum þar sem það liggur fyrir áður en gengið er til samninga sé ekki á nokkurn hátt verið að ganga á rétt kröfuhafa vegna þess að hann veit af því þegar samningurinn er gerður að heimilið, þar sem viðkomandi einstaklingur eða fjölskylda býr, er undanþegið aðför. Það byggir einfaldlega á þeirri grundvallarhugsun að hagsmunir samfélagsins, heildarinnar, eru meiri af því að fjölskyldur og einstaklingar hafi húsaskjól en að einstaka kröfuhafar fái greitt. Það getur vel verið að mönnum þyki þetta harðvítugt gagnvart kröfuhöfum en ég tel að þetta sé skynsamleg regla. Eins og ég nefndi áðan er fyrirmyndar hennar að leita t.d. í Bandaríkjunum og má nefna fylki eins og Flórída. Þetta vildi ég segja, virðulegi forseti, í upphafi þessarar umræðu.

Frumvarp þetta hefur áður verið flutt, eins og ég rakti áðan, og er nú lagt fram í nokkuð breyttri mynd. Í því er lögð áhersla á vernd ábyrgðarmanna og formfestu og fagleg vinnubrögð við gerð lánasamninga þar sem krafist er ábyrgðarmanna. Finna má þess mörg dæmi úr íslensku viðskiptalífi að forsenda þess að samningar hafi tekist með lánveitendum og lántökum er að þriðji aðili, einstaklingur, hefur tekist á hendur ábyrgð endurgjaldslaust. Afleiðingar slíkra gjörninga hafa oft verið mjög íþyngjandi fyrir einstaklinga, fjölskyldur og samfélagið í heild. Á þetta sérstaklega við í tilvikum þar sem ábyrgðarmenn hafa ekki getað tekið upplýsta ákvörðun um þá áhættu sem þeir takast á hendur með því að gangast í persónulega ábyrgð vegna fjárskuldbindinga þriðja manns.

Það er undirliggjandi sjónarmið í samningarétti að aðilar samnings hafi báðir hag af því að samningur sé efndur eftir efni sínu. Þetta sjónarmið byggist á þeirri forsendu að staða aðila sé jafnsterk við samningsgerð. Ef staða annars er sterkari getur hinn aðilinn haft þörf fyrir aukna vernd til að fyrirbyggja að hann undirgangist ósanngjarna samningsskilmála. Mætti í því samhengi nefna þá aðstöðu þegar einstaklingar kaupa vöru eða þjónustu til persónulegra nota og viðskiptin eru liður í atvinnustarfsemi seljanda. Eru slík viðskipti að jafnaði nefnd neytendaviðskipti og eru í lögum ýmis ákvæði sem ætlað er að treysta réttarstöðu neytandans gagnvart seljanda þegar svo ber undir. Má í því samhengi nefna neytendalán, lög um þjónustukaup, húsgöngu- og fjarsölusamninga, lög um neytendakaup, að ógleymdu sérákvæði 36. gr. samningalaga.

Frumvarp þetta byggist öðrum þræði á sjónarmiðum um neytendavernd, auk kröfunnar um vönduð vinnubrögð fjármálafyrirtækja. Nauðsyn reglna frumvarpsins birtist m.a. í aðstöðumun sem jafnan er á stöðu ábyrgðarmanns annars vegar og lánveitenda hins vegar. Í flestum tilvikum er öll sérfræðiþekking í lánsviðskiptum hjá lánveitanda og má í því sambandi benda á að nýverið hefur Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna greint frá því að um 16% þeirra sem þangað leituðu á árinu 2006 vegna fjárhagsvandræða kenni um vankunnáttu í fjármálum. Þar að auki hafa ábyrgðarmenn yfirleitt engan fjárhagslegan hag af því að gangast í ábyrgð. Ástæður þess að þeir gera það er oftar en ekki krafa lánveitenda um auknar tryggingar eða þrýstingur frá fjölskyldumeðlimum, vinum og kunningjum sem erfitt getur verið að standast þar sem afkoma og afdrif lántaka geta verið undir því komin að umbeðin fyrirgreiðsla fáist.

Aðrar röksemdir fyrir framlagningu frumvarpsins eru þær að ofnotkun ábyrgða er ekki í takti við hugmyndir sem búa að baki hlutafélagaforminu um takmarkaða ábyrgð hluthafa né heldur sjónarmið um að aðili samnings beri eðlilega áhættu af viðsemjanda sínum. Einnig má halda því fram að ábyrgðarfyrirkomulagið samræmist ekki nægilega vel einni af meginreglum veðréttarins um sérgreiningu verðmæta sem leggur bann við allsherjarveðsetningu. Loks má benda á að ekki nýtur við nákvæmra upplýsinga um hvort umfang vanskila sé það mikið að það geti réttlætt það sérstaka fyrirkomulag um ábyrgðir sem Íslendingar búa við í dag og sem ekki á sér hliðstæðu í þeim löndum sem Ísland ber sig saman við.

Íslensk lög hafa ekki að geyma almennar reglur um ábyrgðarmenn fjárskuldbindinga eða hvernig staðið skuli að slíkri samningsgerð. Bankar og aðrar fjármálastofnanir hafa því að mestu mótað eigin reglur um samskipti sín og ábyrgðarmanna. Í skýrslu nefndar frá því í nóvember 1996, sem viðskiptaráðherra skipaði til að fara yfir framkvæmd ábyrgðarveitinga, kemur fram að gera megi ráð fyrir að um 90.000 einstaklingar yfir 18 ára aldri séu í ábyrgð fyrir fjárskuldbindingum þriðja aðila. Það voru á þeim tíma u.þ.b. 47% allra Íslendinga á þessum aldri. Í áliti nefndar um réttindi og skyldur í viðskiptum neytenda við fjármálafyrirtæki frá maí 2004 kemur fram að ábyrgðarmönnum í landinu hafi fækkað síðan og séu um 75.000. Ekki nýtur við nýrri upplýsinga um fjölda ábyrgðarmanna.

Í lok síðustu aldar tíðkuðust ábyrgðir hér á landi í mun meira mæli en þekktist meðal nágrannaþjóða okkar. Til að stemma stigu við ástandinu var fyrir atbeina stjórnvalda gert sérstakt samkomulag milli tiltekinna lánveitenda og Neytendasamtakanna um notkun ábyrgða. Samkomulagið var undirritað á árinu 1998 og var yfirlýst markmið þess að draga úr vægi ábyrgða einstaklinga og að lánveitingar yrðu miðaðar við greiðslugetu greiðanda og hans eigin tryggingar. Samkomulagið var endurskoðað árið 2001. Í áliti fyrrgreindrar nefndar frá 2004 kemur fram að samkomulagið hafi öðlast viðurkenningu sem almennar leikreglur á lánamarkaði.

Samkomulagið um notkun ábyrgða hefur eflaust átt sinn þátt í að ábyrgðum hefur fækkað frá árinu 1996 en aðrir þættir, eins og breytt viðhorf almennings, starfsemi Neytendasamtakanna og tilkoma úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki, hafa einnig skipt máli. Þá hefur umræða á Alþingi haft talsvert um það að segja að lánastofnanir hafa viljað skoða þessi mál frekar. Eftir sem áður benda tölur um fjölda ábyrgðarmanna frá árinu 2004 til þess að mikið verk sé enn óunnið. Flutningsmenn telja að verulegum árangri verði ekki náð nema með setningu lagareglna um notkun ábyrgða.

Rauði þráðurinn í frumvarpinu er sá að ábyrgðarmaður skuli vera upplýstur um þá áhættu sem í ábyrgð felst áður en hann gengst undir hana. Slík vinnubrögð eru til þess fallin að styrkja virði þeirra lánasamninga sem lánveitendur gera. Í frumvarpinu er það gert með því að skylda lánveitanda til að viðhafa vissa formfestu við undirbúning, stofnun og framkvæmd samninga um ábyrgðir. Nægir í því sambandi að nefna ákvæði frumvarpsins sem snerta greiðslumat lántaka, skriflegan ábyrgðarsamning, tilkynningarskyldu og breytingar á skilmálum ábyrgðar. Þá hefur við samningu frumvarpsins verið tekið tillit til ýmissa dómsúrlausna á sviði íslensks réttar sem gengið hafa um ábyrgðir.

Gildissviði frumvarpsins er ætlað að taka jafnt til þess þegar einstaklingar gangast persónulega í ábyrgðir og þegar þeir veita veð í tilgreindum eignum sínum til tryggingar á efndum lántaka. Helstu nýmæli frumvarpsins eru að fasteign ábyrgðarmanns, þar sem hann heldur heimili, skuli undanþegið aðför og að gjaldþrotaskipta verði ekki krafist á búi ábyrgðarmanns að greindum skilyrðum. Þess háttar vernd á sér fyrirmynd í rétti annarra þjóða og hefur verið rökstudd með vísan til þeirrar samfélagslegu upplausnar sem fylgir því þegar fjölskylda ábyrgðarmanns á sér ekki lengur samastað. Þessi nýmæli eru einskorðuð við persónulegar ábyrgðir en eiga ekki við þegar ábyrgðarmaður veitir veð í nánar tilgreindri eign.

Virðulegi forseti. Ég hef nú farið almennt yfir þau sjónarmið sem búa að baki því frumvarpi sem lagt er fram. Hér er verið að leggja fram frumvarp um heildarlög um ábyrgðir. Þetta eða sambærilegt frumvarp hefur verið lagt fram í ein sjö eða átta skipti og því hefur frumvarpið fengið afar mikla umfjöllun og margar umsagnir og við þær hefur verið stuðst við samningu þess í þetta skiptið.

Ég held að það sé afar brýnt að frumvarp af þessum toga verði afgreitt á þessu þingi. Ég vil líka leyfa mér að segja að ef einhvern tíma hefur verið þörf á frumvarpi af þessum toga tel ég að svo sé nú. Ég tel að skoða eigi í hv. viðskiptanefnd hvort setja eigi í frumvarp af þessum toga sérreglu sem tengist því ástandi sem nú er uppi í íslensku atvinnulífi og íslensku fjármálakerfi um að í tilvikum þar sem ábyrgðir eru að falla á ábyrgðarmenn vegna þess að heilt hagkerfi féll yfir hausinn á þjóðinni, ef svo má að orði komst, hvort í slíkum tilvikum megi fullyrða að nánast sé um forsendubrest að ræða. Það sem gerst hefur í íslensku fjármálalífi og íslensku samfélagi er nær því að vera náttúruhamfarir en eitthvað sem hægt er að rekja til eðlilegra ástæðna fyrir því að gengið sé að ábyrgðarmönnum.

Hér hefur verðfall á eignum orðið geysilegt. Verðbólga hefur verið um eða yfir 20%, sem hefur þýtt að vextir hafa verið á bilinu 25–30% á íslenskum krónum. Síðan hefur krónan sjálf fallið um 100% eða svo gagnvart flestum myntum, stundum meira og í öðrum tilvikum minna. Ég held því að það sé mikilvægt að í nefndinni verði skoðað hvort setja eigi upp sérreglur eða tryggja þar einhverja fyrirvara. Vegna þess að eðli málsins samkvæmt gátu ábyrgðarmenn ekki séð fyrir þau ósköp sem dunið hafa yfir íslensku þjóðina þannig að skoða megi hvort takmarka megi þessa ábyrgð á einhvern hátt eða jafnvel fella hana niður vegna forsendubrests. En það verður að skoða og að sjálfsögðu koma þá til skoðunar ákvæði stjórnarskrár um eignarrétt.

Ég held að það sé mjög mikilvægt, virðulegi forseti, að við göngum í það núna að lögfesta reglur um ábyrgðarmenn. Ég leyfi mér að fullyrða að í gegnum tíðina hafa þingmenn með yfirgnæfandi meiri hluta stutt þetta mál, margir hafa flutt einnig það. Ég held að nú sé meiri nauðsyn en nokkru sinni á því að setja um þetta almennar leikreglur sem fyrst og fremst lúta að því að ábyrgðarmenn séu upplýstir áður en þeir taka ákvörðun um að gangast í ábyrgð, að réttur þeirra sé tryggður. Við reynum jafnframt að tryggja að við völdum ekki upplausn í samfélaginu, í fjölskyldum og hjá einstaklingum, þegar slíkar ábyrgðir falla. Ég tel að í tilvikum sem þessum sé mjög auðvelt að færa rök fyrir sérreglu um það hvað ábyrgðarmenn varðar.

Að umræðunni lokinni, virðulegi forseti, legg ég til að málinu verði vísað til viðskiptanefndar.