136. löggjafarþing — 87. fundur,  24. feb. 2009.

ábyrgðarmenn.

125. mál
[15:11]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég hygg að það séu að verða 14 ár síðan hv. þm. Lúðvík Bergvinsson tók sæti á Alþingi og í 13 ár eða frá 1996 hafa ábyrgðarmenn og málefni þeirra verið hér til umfjöllunar og ég held að nóg hafi verið um það fjallað og rætt og tími til kominn að afgreiða málið og það helst á þessu þingi þó að skammur tími sé til stefnu. Í fyrsta lagi vegna þess að hv. flutningsmaður er að kveðja sali Alþingis en þó fyrst og fremst vegna þess að eftir bankahrunið þurfum við að taka til endurskoðunar alla þá þætti sem aðgreina okkur frá öðrum þjóðum og hið séríslenska ábyrgðarmannakerfi hefur auðvitað verið slíkur hlutur. Í öðru lagi vegna þess að allar forsendur í fjármálum fólksins í landinu eru að verulegu leyti hrundar. Og í þriðja lagi vegna þess að ábyrgðarmannakerfið hefur haft svo víðtæk áhrif í samfélagi okkar á þúsundir ef ekki tugþúsundir manna, á heimili fólks, á fyrirtæki fólks, á atvinnu þeirra að í raun og veru er ótrúlegt að löggjafinn hafi meira og minna látið vera að setja um það skýrar lagareglur. Það er því full ástæða til að þakka hv. þingmanni og ég vil líka nota tækifærið og þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, og það er sannarlega jákvætt að sjá tvo þingmenn úr okkar röðum af sitt hvorum endanum á litrófi stjórnmálanna taka höndum saman um grundvallarframfaramál eins og hér er á ferðinni.

Ég hygg að margir þekki vel til ágalla ábyrgðarmannakerfisins. Sjálfur geri ég það býsna vel bæði af eigin reynslu sem kornungur maður og þó ekki síður sem formaður félagsmálaráðs Reykjavíkur um fjögurra ára skeið á árabilinu 1998–2002. Þegar ég var forseti borgarstjórnar þá leituðu í viku hverri í viðtalstímum í Ráðhúsi Reykjavíkur þeir sem áttu við erfiðleika að stríða bæði í fjármálum, atvinnumálum og öðru slíku. Það er satt að segja með hreinum ólíkindum að kynnast því úr þeirri áttinni í gegnum starfsemi félagsþjónustunnar hversu grátt ábyrgðarmannakerfið hefur leikið marga, bæði einstaklinga og fjölskyldur. Hvernig það hefur rúið fólk heilsu sinni því að sannarlega er fátækt félagslegur vandi og veldur oft heilbrigðisvandamálum en þó ekki síst fátækt sem tengist því að sá sem er að glíma við fjárhagslega erfiðleika er líka með undir sitt félagslega öryggisnet, hefur þurft að taka veð hjá bróður sínum eða móður sinni og er þess vegna ekki einungis að glíma við að lifa sjálfur af fjárhagslega heldur líka að reyna að halda félagslegu sambandi við sína nánustu og lifir í stöðugri örvæntingu um að geta ekki staðið undir þeim fjárskuldbindingum sem hann hefur tekist á hendur og muni þá glata félagslegum samskiptum við sína nánustu, bestu vini sína, systkini sín, mága eða mágkonur, foreldra. Hreint ömurleg dæmi um það, vil ég segja á stundum, eru dæmi um að lánardrottnar með tapaðar kröfur hafa sótt á einstaklinga um að fá fullorðið fólk í venslum við sig, fjölskyldu eða vini til að gangast í ábyrgðir fyrir þegar töpuðum kröfum og þær deilur og sú sundrung sem komið hefur upp í fjölskyldum þegar aðrir ættingjar átta sig á því að í raun og veru hefur arfurinn verið frá þeim tekinn með því að setja hann í ábyrgðir fyrir löngu tapaðar skuldbindingar.

Það er auðvitað ábyrgðarhluti að taka á sig ábyrgð fyrir fjárskuldbindingu og slíkri ábyrgð verður hver og einn að geta risið undir. Því miður, eins og flutningsmenn hafa vísað til, eru dæmi um það í samfélaginu að menn hafa notað þetta kerfi þegar þeir eru búnir að tapa kröfunum, þegar fyrirtæki eru orðin gjaldþrota, þegar þeir vita að skuldarinn getur ekki greitt, þá hafa þeir hengt þessar töpuðu kröfur, vitandi vits utan um hálsinn á alsaklausu fólki sem hvergi hafði nærri viðskiptunum komið með því að kalla eftir ábyrgðum eftir að kröfurnar eru tapaðar. Þess vegna er það mjög mikilvægt sem flutningsmenn leggja áherslu á að skýra ábyrgð lánveitendanna í þessu og ég held að það sé líka tilefni til þess fyrir okkur á Alþingi að huga að því að nú eru bankarnir auðvitað aftur orðnir ríkiseign og þeir eru auðvitað stærstu kröfuhafarnir í landinu. Það er algert lágmarksatriði að það séu mjög skýrar reglur um meðferð allra og ábyrgð að þessu leyti.

Ég held líka að það sé óhemjumikilvæg framför sem hér er kynnt að heimili fólks sé undanþegið aðförum af þessu tagi vegna þess að auðvitað á í viðskiptum manna á meðal fyrst og fremst að byggja á trausti lánveitandans á lántakanum. Það á að vera matið á þeim sem lánað er sem ræður og ekki á þeim sem gangast í bakábyrgðir vegna þess að þá er miklu eðlilegra að ef systirin eða bróðirinn eða foreldrarnir eru betur hæfir greiðendur að láninu að lánveitendur þurfi við þær aðstæður að fara fram á að viðkomandi verði þá sjálfir lántakendurnir og greiðendurnir en að þeir séu í einhvers konar bakábyrgðum af því tagi sem allt of algengt hefur verið á Íslandi og er sannarlega ástæða til þess að velta því gaumgæfilega fyrir sér hvort einmitt sú hefð sem hv. flutningsmenn eru að fjalla um, þessi séríslenska hefð, gríðarlega algengu ábyrgðarskuldbindingar, hvort hún geti með öðru hafa orðið til að draga óhæfilega úr ábyrgðartilfinningu lánastofnana í ákvörðun um lánveitingar á undanförnum árum. Ég held að það sé engum blöðum um það að fletta að það er ein höfuðorsökin fyrir því hversu illa er fyrir okkur komið nú að í lánveitingum og lánastarfsemi fjármálafyrirtækja og fjármálastofnana á undanförnum árum hefur ekki verið gætt nægilega mikillar varfærni, ekki farið fram nægilega gott mat á greiðsluhæfni þeirra sem lán hafa fengið og hugsanlega hefur þessi menning okkar um að nóg sé að kalla eftir ábyrgðunum orðið til að draga úr vandvirkni í því mikilvæga samfélagi sem fjármálastarfsemi er og lánastarfsemi sem er nauðsynleg og einmitt nauðsynlegt að þar ríki traust.

Ég vil að lokum ítreka þá hvatningu mína, virðulegi forseti, að þetta mál sem hér er fram komið hefur verið til umfjöllunar og umræðu um langt árabil, það hafa verið gerðar skýrslur um efnið af hálfu viðskiptaráðuneytisins, verið kallað eftir umsögnum ítrekað, og að eftir þennan 13 ára feril séu við orðnir nægilega þroskaðir til þess að við megum á Alþingi hætta að tala um málið og fara að aðhafast þannig að fólk sem nú glímir við fjárskuldbindingar sínar sjái að hér í sölum Alþingis sé ekki bara talað heldur líka aðhafst. Ég fagna orðum hv. formanns viðskiptanefndar þess efnis að hún vilji fyrir sitt leyti greiða fyrir framgangi málsins og hvet enn til þess að við ljúkum afgreiðslu þessa máls meðan 1. flutningsmaður þess er enn á meðal vor í sölum Alþingis.