136. löggjafarþing — 87. fundur,  24. feb. 2009.

ábyrgðarmenn.

125. mál
[15:24]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um ábyrgðarmenn en 1. flutningsmaður er hv. þm. Lúðvík Bergvinsson sem hefur sýnt ótrúlega elju í því að flytja þetta mál aftur og aftur. Ég verð að geta þess að á dagskrá í dag eru eingöngu þingmannamál, sem er í sjálfu sér ágætt, en við bíðum náttúrlega eftir málum frá ríkisstjórninni, bara til að geta þess, gærdagurinn fór líka fyrir lítið. (Gripið fram í.)

Þetta mál passar vel inn í stefnu ríkisstjórnarinnar, það þarf að gera ráðstafanir til að bjarga heimilum og þetta er ein af þeim ráðstöfunum. Í bankakerfinu og miklu víðar hefur nefnilega viðgengist mikill ósiður, í stað þess að leggja á sig þá vinnu að skoða í hvað peningarnir fara — eru menn að gera eitthvað skynsamlegt við peningana o.s.frv.? — nota menn letihöndina og láta eitthvert fólk skrifa upp á. Þá eru þeir búnir að dreifa áhættunni, búnir að fá einhverja fasteignaeigendur og þeir skrifa upp á og þar með er lánið veitt. Mér hefur alltaf fundist það vera agaleysi og mikill ósiður og ákveðið sjúkdómseinkenni á lánamarkaðnum, á bankakerfinu, að geta ekki kannað rekstur fyrirtækja, geta ekki kannað hvort skynsamlegt er fyrir lántakann að kaupa íbúð, geta ekki kannað hvort skynsamlegt sé fyrir unglinginn að kaupa jeppa o.s.frv., hvort hann geti yfirleitt borgað, hvort hann hafi yfirleitt einhverjar tekjur.

Það vill nú svo til að fyrir 30 árum, eða þar um bil, skrifaði ég bækling, en þá var ég framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs verslunarmanna, þar sem ég varaði einmitt við ábyrgðinni — lífeyrissjóðurinn var að bjóða upp hús fólks sem var algjörlega grandalaust, hafði skrifað undir eitthvert plagg einhvern tíma og var sem sagt að missa íbúðina. Unglingurinn sem fékk lánað fyrir bílnum var skilinn við dótturdótturina og hló að öllu saman, þótti þetta voðalega sniðugt.

Það eru ekki bara bankarnir heldur er LÍN líka með ábyrgðir á námslánum sem er í rauninni fjárfesting — og er dálítið undarlegt að ríkið skuli styðja menn til fjárfestinga, sem það vill gjarnan að þeir fari í, og draga svo að ættingja og vini. Í skólastofum í háskólunum skiptast menn oft á undirskriftum undir pappíra og vita ekkert hvað í því felst. Tengdapabbinn skrifar upp á fyrir tengdasoninn og svo skilur það fólk, tengdasonurinn fer til útlanda og tengdapabbinn þarf að borga. Þetta er náttúrlega með ólíkindum. Það er óskaplega mikið af slíkum dæmum, harmsögur, og alls konar hlutir sem gerast. Fólk talast ekki við í fjölskyldum, börn tala ekki við foreldra sína eða öfugt vegna þess að þeir hafa skrifað upp á og neyðst til að borga fyrir viðkomandi.

Það getur verið erfitt að borga af láni sem maður hefur eytt sjálfur en ég get ímyndað mér að það sé miklu erfiðara að borga af láni sem maður hefur ekki eytt og það er einmitt það sem felst í þessu kerfi. Það eru margir hér á Íslandi að borga af lánum sem einhver annar tók, kreistandi peninga undan nöglunum. Agaleysið er meira að segja þannig að fyrst er gengið á ábyrgðarmanninn, ekki er einu sinni haft fyrir því að hafa samband við lántakandann, fyrst er gengið á ábyrgðarmanninn og hann er krafinn um borgun af því að hann á fasteign eða er skilvís. Þetta gerir auðvitað ekkert annað en að ala á ábyrgðarleysi hjá lántakendum. Mörg lánveitingin hefði aldrei nokkurn tíma átt sér stað, herra forseti, nema vegna þess að amma gamla skrifaði upp á með fasteignina sína, afi gamli, frændi eða tengdapabbi. Menn átta sig ekki alltaf á ábyrgð þeirra sem skrifa upp á.

Krafa dagsins í dag er gagnsæi, að hlutirnir séu á tæru, og þetta er eitt af því. Það er ekkert gagnsætt að einhver maður skrifar upp á lán og svo löngu seinna, kannski þrem til fjórum árum seinna, þegar allt er komið í hönk og vanskil o.s.frv., fær hann allt í einu tilkynningu um að hann eigi að fara að borga dráttarvexti og ég veit ekki hvað. Þetta er ekki hægt. Ég styð frumvarpið mjög eindregið. Ég hef haft dálitlar efasemdir um fasteignirnar en að sjálfsögðu gætu menn þá fengið veð í fasteigninni og þá er það orðið greinilegra að bankinn er þá að veita lán út á ábyrgð með veði í fasteigninni en ekki svona opna heimild gagnvart öllum eignum hvar sem þær liggja.

Ég sé ekki betur en að fallið hafi úr frumvarpinu atriði sem var þar áður, og mér fannst vera mjög til bóta, þ.e. að bankarnir verði skyldugir til að senda árlega yfirlit um þær ábyrgðir sem einstaklingar standa fyrir hjá þeim, upphæðir og fyrir hvað, og ef þessi yfirlit eru ekki send þá gildi ábyrgðin ekki, þannig að menn viti nákvæmlega hvaða ábyrgðir þeir hafi gengist undir. Ég legg því til að hv. nefnd sem fær málið til umfjöllunar skoði það að bæta þessu inn í frumvarpið. Ég vil líka gjarnan að menn skoði frumvarpið í hörgul og geri það, ef hægt er, enn betra. Ég legg til að nefndin samþykki frumvarpið, taki sér tak, nú er lag. Við höfum orðið fyrir þessu mikla bankahruni og mikla áfalli og við þurfum að laga þennan þátt alveg sérstaklega. Það er mjög margt sem við þurfum að laga en þetta er eitt af því sem við þurfum að laga sérstaklega. Ég legg til að hv. nefnd vinni nokkuð hratt, það er ekki það mikið af ríkisstjórnarfrumvörpum fyrirliggjandi, það er það góður tími. Nú geta menn unnið vel í frumvarpi sem þessu og ættu að samþykkja það sem allra fyrst. Ekki er hægt að bera við tímaskorti vegna þess að ekkert annað liggur fyrir.