136. löggjafarþing — 87. fundur,  24. feb. 2009.

innlend fóðurframleiðsla.

195. mál
[15:41]
Horfa

Flm. (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég flyt tillögu til þingsályktunar um innlenda fóðurframleiðslu. Flutningsmenn auk mín eru hv. þm. Atli Gíslason, Jón Bjarnason og Ögmundur Jónasson. Þingsályktunartillagan er stutt en svohljóðandi:

Alþingi ályktar að fela sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að láta kanna hagkvæmni þess að auka og styrkja innlenda fóðurframleiðslu til notkunar í landbúnaði og möguleika á því.

Hæstv. forseti. Okkur er öllum ljóst að staða íslenskra bænda er mjög erfið um þessar mundir. Þótt staðan sé misjöfn eftir búgreinum má í heildina segja að staða bænda sé jafnerfið og heimilanna í landinu. Í sumum greinum hafa verið miklar fjárfestingar og allar greinar hafa meira og minna fundið fyrir hækkunum á afurðaverði og flutningskostnaði og erfiðleikum vegna bankahrunsins, sem bitnar á þeim eins og öðrum.

Það sem vakti okkur flutningsmenn til umhugsunar í þessu mikla bankahruni var ekki síður sú staða sem kom upp í októberbyrjun að við búum í reynd ekki við matvælaöryggi ef allar leiðir til og frá landinu lokast. Hvort heldur sem er vegna stöðvunar á fjármagnsflæði og þar af leiðandi stöðvun á flutningi á vörum til landsins, sem við sem betur fer höfum ekki upplifað nú, eða ef til kæmu styrjaldir eða heimsfaraldrar í sjúkdómum og pestum. Matvælaframleiðsla er ekki nægileg hér á landi til að tryggja okkur um einhvern tíma, því að til að búa við matvælaöryggi þurfa bændur að fá til sín vöru til að geta framleitt og það á þá ekki síst við um kjarnfóður, sem þeir eru mjög háðir. Í byrjun október var ljóst að ekki væru til nema rúmlega mánaðarbirgðir af kjarnfóðri í landinu og leit ekki vel út um tíma. Það var kveikjan að þessari hugmynd sem ég hef alið með mér lengi að það hafi í raun verið afturför hjá okkur Íslendingum að verða svo markaðssinnuð að treysta því og trúa að hagkvæmt væri fyrir okkur að flytja inn allar vörur, þar á meðal kjarnfóðurvörur og vörur til matvælaframleiðslu. Vörur sem við getum hæglega framleitt hér og framleiddum á árum áður, en voru lagðar af vegna þess að þær þóttu ekki nægilega samkeppnishæfar í verði eða af einhverjum öðrum ástæðum.

Með leyfi hæstv. forseta ætla ég að lesa greinargerðina. Hún er ekki mjög löng en svohljóðandi:

Í ljósi þess að verð á innfluttu kjarnfóðri hefur hækkað mikið að undanförnu vegna vaxandi framleiðslu- og flutningskostnaðar er nú brýnt að styrkja innlenda fóðurframleiðslu. Vandamál í gjaldeyrisviðskiptum og gengi íslensku krónunnar munu á næstunni hafa veruleg áhrif á verð á kjarnfóðri til bænda. Mikilvægt er að leita allra leiða til að halda niðri kostnaði og auka þjóðhagslegan ábata af innlendri landbúnaðarframleiðslu til hagsbóta bæði fyrir neytendur og framleiðendur.

Bændur nota í vaxandi mæli kjarnfóður við eldi á búfé sínu í stað fóðurs sem unnið er úr innlendu gróffóðri. Kjarnfóður er samsett úr hinum ýmsu korntegundum, eins og byggi, hveiti og maís, prótínfóðri á borð við sojabaunir, repjumjöl og fiskimjöl, ásamt ýmsum öðrum efnum, svo sem melassa, sem unninn er úr sykurreyr. Mest allt hráefni í þessar blöndur er flutt inn til landsins. Heildarfóðurnotkun hér á landi er um 300 milljón fóðureiningar í gróffóðri og um 70 milljón fóðureiningar í kjarnfóðri á ári og er fóður handa öllum tegundum búfjár þá þar með talið. Það er umhugsunarvert að af allri notkun kjarnfóðurs í landbúnaði, um 60 þúsund tonnum á ári, skuli einungis um 10–12% af efnisinnihaldi vera framleitt hér á landi.

Í þeim þrengingum sem nú eru á mörkuðum er nauðsynlegt að á Íslandi sé starfræktur sjálfbær landbúnaður. Mikilvægur þáttur í því er að tryggja fóðuröryggi fyrir búfé. Tæknilegir örðugleikar í bankakreppunni gætu leitt til þess að kjarnfóður berist ekki í tíma þeim búum sem eru mest háð aðkeyptu fóðri en það eru svínabændur og hænsnabændur. Af þeim sökum er mikilvægt að leggja aukna áherslu á innlenda framleiðslu fóðurs til þess að tryggja öryggi íslensks landbúnaðar. Ræktun korns, einkum byggs, er vaxandi búgrein hér á landi og miklar vonir eru bundnar við áframhaldandi þróun á því sviði. Tilraunir hafa verið gerðar á svokölluðum heykögglum sem nota má í stað kjarnfóðurs og hafa þær gefið góða raun. Nokkrar heykögglaverksmiðjur voru starfandi á tímabili á Íslandi en einnig framleiddu graskögglaverksmiðjur þúsundir tonna af fóðri á áttunda og níunda áratugnum og fram á þann tíunda. Með aukinni innlendri framleiðslu mun draga úr flutningi á hrávöru og efnum á milli heimsálfa með tilheyrandi mengun og kostnaði.

Aukinheldur eru dæmi þess að fullnægjandi upplýsingar liggi ekki fyrir um efnainnihald innfluttra efna sem notuð eru í kjarnfóðurblöndur. Það ætti að skapa sóknarfæri fyrir innlenda framleiðslu með áherslu á lífræna ræktun og upprunalýsingu fóðurinnihalds. Ástand á mörkuðum ætti enn frekar að hvetja til innlendrar, hreinnar framleiðslu sem tryggir bæði framleiðsluöryggi innlends landbúnaðar og fóður sem er ómengað af erfðabreyttum efnum. Við höfum næga hreina orku fyrir minni framleiðslueiningar sem nýtast til enn frekari verðmætasköpunar og virðisauka hér innan lands. Því er lagt til að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra láti kanna kosti þess að styrkja innlenda framleiðslu fóðurs. Með innlendri framleiðslu er unnt að tryggja betur sjálfsforræði Íslands í landbúnaði og skapa lífvænlegri kjör fyrir bændur nú þegar innflutt kjarnfóður hefur hækkað verulega í verði. Innlend framleiðsla er einnig eftirsóknarverð þar sem hún bætir samkeppnishæfni og lækkar framleiðslukostnað innlendra matvæla og stuðlar þannig m.a. að lægra matvælaverði til neytenda.

Verði niðurstaðan sú að aukin framleiðsla fóðurs hér á landi sé hagkvæm er mögulegt að ríkið styðji á einhvern hátt við verkefnið í samstarfi við sveitarfélög, fyrirtæki, bændur og einstaklinga ef það er nauðsynlegt til að tryggja framgang þess.

Hæstv. forseti. Við hv. flutningsmenn þessarar tillögu erum ekki að leggja til að farið verði í rekstrarform Áburðarverksmiðju ríkisins, sem var á sínum tíma algerlega í eigu ríkisins. Við hvetjum til þess að hagkvæmni á íslenskri fóðurframleiðslu verði könnuð og þá þarf að setja þetta í ákveðinn farveg, það þarf hvatningu og að öllum líkindum einhverja styrki til að koma tilraunum í gang. Það verður að horfa á þetta bæði út frá hagkvæmni hvað varðar framleiðslukostnað og með tilliti til þess að við spörum gjaldeyri, það skiptir máli núna. Ekki síður er mikilvægt fyrir okkur varðandi markaðssetningu á lokaafurð framleiðslunnar að hægt sé að kynna hana sem hreina afurð, að við séum ekki með erfðabreytt kjarnfóður, eins og mikið af því kjarnfóðri sem flutt er inn í dag er, sérstaklega það sem er framleitt úr maís og korni. Við þurfum að horfa heildstætt á þetta og nota sem tækifæri og í markaðssetningu.

Ég veit til þess að tilraunir hafa verið gerðar í tvígang með notkun fóðurs með heykögglum fyrir sláturlömb og rannsóknirnar styðja það að framleiðsla á heykögglum, jafnvel á nokkuð rýrum túnum, hafi bætt mjög fóðrun dýranna og aukið gæði kjötsins en það er ekki nóg. Líka verður að horfa á framleiðsluferlið. Þó svo að afurðin heykögglar sé góð vara og kjötvaran verði betri verður líka að horfa á tækin sem framleiða og orkunotkun þeirra, rafmagn eða olíu. Það verður að horfa á þetta í heild.

Eins veit ég að það eru að fara í gang tilraunir með færanlega kjarnfóðurvél sem hugmyndin er að fari á milli býla og framleiði kjarnfóður hjá bændum heima á túnum og vissulega verður forvitnilegt að fylgjast með og fá betri upplýsingar um þessar tilraunir og aðrar álíka. Eins tel ég mikilvægt að við leitum allra leiða til að styrkja og nýta betur framleiðslu eins og á fiskimjöli, eins og á hugsanlega — hvað á að segja, ef hægt væri að nýta úrgang betur, eins og fiskimjöl er gert úr fiski, heldur en gert er í dag Við höfum undanþágur og megum því nota fiskimjöl sem kjarnfóður því hér er sú afurð hrein og engin hætta á erfðasmiti eða annarri mengun í fiskimjölinu. Við búum mjög vel af því að við getum notað fiskimjölið og aðrar náttúruafurðir á Íslandi og við þurfum að leggjast yfir og skoða hvað hægt er að nýta betur sem kjarnfóður ef vilji er til þess að nýta það betur sem við höfum og spara gjaldeyri, efla og styrkja atvinnu. Þetta er vissulega atvinnuskapandi og ef allt gengi vel þá framleiddum við kjarnfóður og fóður sem væri ódýrara en það sem við höfum keypt nú á allra síðustu missirum.

Eins verður að horfa til framtíðar, því miðað við það ástand sem blasir við í heiminum verður ekki aðgengi að þeim vörum sem við höfum haft og talið okkur geta notað og flutt inn án þess að hafa af því nokkrar áhyggjur. Það fer að verða þröngt um landgæði og hvert land fer að hugsa meira um að tryggja eigin framleiðslu. Það gengur meira að segja svo langt núna að ríkustu þjóðir heims eru farnar að leita að landi til ræktunar til eigin nota í þróunarlöndunum. Þetta er ný nýlendustefna, löndin sjálf eru ekki yfirtekin heldur eru landsvæði keypt til ræktunar. Við verðum að búa okkur undir þessa nýju heimsmynd og horfa til þess að landbúnaður hér á landi verði sjálfbærari en er í dag. Við getum líka nýtt þetta tímabil sem við erum að fara inn í og farið meira í lífræna ræktun, en fyrst og fremst er þetta spurning um matvælaöryggi og matvælaframleiðslu.

Hæstv. forseti. Ég legg til að þingsályktunartillögunni verði vísað til hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og vona okkar allra vegna að við höfum tíma til að afgreiða hana fyrir vorið.