136. löggjafarþing — 87. fundur,  24. feb. 2009.

innlend fóðurframleiðsla.

195. mál
[15:56]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Ég ætla ekki að halda langa ræðu um þingsályktunartillöguna. Að mínu mati er þetta bara af því góða og mun spara gjaldeyri, sem við eigum ekki of mikið af þessa dagana, og skapa atvinnu. Ég veit auðvitað ekki hve mörg störf þetta gæti skapað en eflaust erum við að tala um einhverja tugi eða jafnvel hundruð starfa. Þetta er bara af því góða og ég vona að þingsályktunartillagan nái fram að ganga.

Ég get samt ekki annað en minnst á það þegar talað er um fæðuskort í landinu að það vill svo til að við eigum töluvert af fiski í frystigeymslum landsins og saltfiskbirgðum. Það eru náttúrlega ekki allir eins og ég sem borða mjög lítið af fiski en finnst landbúnaðarafurðir betri en fiskur en ekki má gleyma því að við eigum töluverðar fiskbirgðir í landinu.

Þetta er liður í því að aðstoða bændur og hjálpa þeim og við þurfum að leggja okkur fram á fleiri sviðum og taka tillit til bænda og þess sem þeir gera, m.a. í sambandi við áburðarverksmiðju. Síðast en ekki síst þurfum við að skoða raforkuverð til garðyrkjubænda og erum skyldug til að gera það á næstu dögum og missirum.