136. löggjafarþing — 87. fundur,  24. feb. 2009.

innlend fóðurframleiðsla.

195. mál
[16:13]
Horfa

Flm. (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka þeim þingmönnum sem tóku þátt í þessari umræðu fyrir innlegg þeirra og góðan stuðning við þingsályktunartillöguna. Ég vil bregðast aðeins við nokkrum atriðum sem fram komu í máli þeirra.

Hvað varðar þessa þingsályktunartillögu, hvort hún stangist á við skoðanir samstarfsflokks okkar í þeirri minnihlutaríkisstjórn sem nú starfar í stuttan tíma, sé ég ekki að það þurfi að vera. En hitt er annað mál að það er stefna minnar hreyfingar, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að við eigum að horfa til eflingar íslensks landbúnaðar út frá mjög mörgum sjónarmiðum, út frá því að tryggja matvælaöryggi, tryggja byggð um land allt, efla landgæði, landræktun og í raun og veru að vera sjálfum okkur nóg á sem flestum sviðum.

Það eru breyttir tímar og við megum ekki gleyma því að það sem alþjóðavæðingin bar fram sem trúarbrögð, að það væri heimsbyggðinni allri til hagsbóta að leita að ódýrustum mörkuðunum og flytja matvörur fram og til baka um allan heiminn, hefur ekki gefið góða raun. Það er enn verið að gera það í dag eftir því sem markaðir leyfa en olíuverð hefur hækkað, flutningskostnaðurinn hefur hækkað. Flutningar á láði og legi hafa orðið erfiðari þannig að þetta er ekki jafnsjálfgefið í dag fyrir utan þá mengun sem af því stafar að byggja fæðuöryggi heimsbyggðarinnar á þessum flutningum um hnöttinn. Það er nokkuð sem við sáum að mundi ekki vara til lengdar. Flokkur minn byggir hugmyndafræði sína á sjálfbærri þróun. Hann hefur reynt að berjast gegn þessari hugmyndafræði og því að það sé alltaf hagkvæmast að horfa á lægsta verðið þegar þegar við berum saman innlenda vöru og innflutta vöru. Þá er virðisaukanum sleppt sem verður til við framleiðslu á vörunni hér á landi. Ég vísa til þeirrar könnunar sem hv. þm. Kjartan Ólafsson fjallaði um, þ.e. um matvælaverð á Íslandi og í Evrópusambandslöndum. Þar kom verð á íslenskri framleiðslu ekkert allt of vel út en það voru líka margar ástæður fyrir því að svo var ekki. Þar var t.d. ekki skoðaður virðisaukinn af því að framleiða matvæli hér á landi.

En að taka slátur. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum vakið kátínu í tíu ár hjá mörgum og sögð vera alltaf uppi á fjöllum að tína fjallagrös og rækta heimahagana. Við höfum talað og munum áfram tala fyrir því að nýta vel þær afurðir sem við getum framleitt hér heima til útflutnings undir vörumerkjum vistvænnar framleiðslu eða lífrænnar framleiðslu með gæðastimpil. Það eigum við að geta gert. Við höfum hámenntað fólk á öllum sviðum og við eigum að notfæra okkur að hafa land til ræktunar sem við getum ræktað enn betur og haft öflugri landbúnaðarframleiðslu sem við ættum að geta flutt út frekar en að flytja inn landbúnaðarvörur.

Það kom jafnframt fram í máli hv. þm. Kjartans Ólafssonar að mikil framþróun er í ræktun á byggi og öðrum korntegundum. Því megum við að hluta til þakka hlýnandi loftslagi en ekki síður áhuga bænda sjálfra á því að feta í fótspor frumkvöðlanna og reyna, þegar vel hefur tekist til, að halda áfram ræktun. Í raun og veru hafa bændur varla val nú þegar tekið er tillit til verðs á kjarnfóðri. Þá er það mikil búbót fyrir bændur að fara sjálfir að rækta korn o.fl.

Nei, hæstv. forseti. Við höfum ekki rætt við Samfylkinguna um þessa þingsályktunartillögu. Þetta er ekki ríkisstjórnarfrumvarp en ég tel að þetta sé þingsályktunartillaga sem við eigum öll að skoða, sama hvar í flokki við erum og sama hvar á landinu við erum. Þetta er sú framtíð sem blasir við okkur, við þurfum að huga betur að eigin garði en við höfum gert fram til þessa. Sannarlega höfum við barist fyrir því í mínum flokki að verð á raforku til garðyrkju væri lækkað og haft á sambærilegu verði og því sem stóriðjan greiðir fyrir raforku þannig að við getum gert garðyrkjuna að okkar stóriðnaði. Margar tegundir nytjajurta eigum við að geta framleitt til eigin nota og hreint og beint sleppt því að flytja inn og sparað þannig gjaldeyri. Við fáum örugglega betri, öruggari og hreinni framleiðslu. Við sköpum atvinnu og spörum gjaldeyri þannig að við aukum matvælaöryggið. Við þurfum að auka framleiðsluöryggið og við eigum að efla sýkingarvarnirnar.

Hvað varðar framleiðsluna á heykögglunum eða öðru kjarnfóðri er sannarlega rétt að það þarf að gæta að framleiðsluferlinu, að þar sé notuð tækni sem er vistvæn og ekki mengandi. Auðvitað verður líka að horfa til þess að reksturinn standi undir sér, að ekki sé óheyrilegur kostnaður við hann, enda segir í niðurstöðum þingsályktunartillögunnar, með leyfi hæstv. forseta:

„Verði niðurstaðan sú [af þessum könnunum] að aukin framleiðsla fóðurs hér á landi sé hagkvæm er mögulegt að ríkið styðji á einhvern hátt við verkefnið í samstarfi við sveitarfélög, fyrirtæki, bændur og einstaklinga ef það er nauðsynlegt til að tryggja framgang þess.“

Það þarf fyrst og fremst að koma þessari vinnu af stað og kanna málið. Ég hef fulla trú á því að ástæða sé til að einhenda sér út í framhald þeirra hugmynda sem liggja hér að baki.