136. löggjafarþing — 88. fundur,  25. feb. 2009.

greiðsluþátttaka almennings í heilbrigðiskerfinu o.fl.

[13:40]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Mér er ljúft og skylt að reyna að svara spurningu hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar vegna ívitnaðra ummæla hæstv. viðskiptaráðherra í Financial Times í dag. Því er til að svara að ákvörðun ríkisstjórnar Geirs H. Haardes frá því í ársbyrjun 2009, um það að leita allra leiða til að sækja málið fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu, stendur. Frá því hefur ekki verið fallið. Hins vegar er rétt að það mál hefur hvorki verið leitt til lykta né kannað til þrautar, eins og samþykkt var að gera í ríkisstjórn Geirs H. Haardes. Að því er ég best veit er sú vinna í gangi og ekki útilokað að henni ljúki með þeim hætti að farið verði í mál fyrir Mannréttindadómstólnum. Ekkert er útilokað í þeim efnum en hins vegar er það svo að ekkert hefur breyst í málinu. Staðan er í raun sú sama og hún var í fyrri ríkisstjórn og sú ríkisstjórn sem nú tók við er að vinna það áfram sem hófst í haust. Ný samninganefnd hefur verið skipuð og það liggur fyrir hvernig fara eigi í þau mál. Það þarf að semja um Icesave-skuldbindingarnar og um þær verður samið. Í sjálfu sér er ekkert nýtt í þessu nema (SKK: Hvað um …?) það að hæstv. viðskiptaráðherra lét þessi ummæli falla í Financial Times í dag. En ég vil minna hv. þingmenn á að menn hafa hingað til haft ýmis ummæli uppi opinberlega, ráðherrar og aðrir, í útlöndum og í viðtölum án þess að þau hafi sérstaklega verið rædd á Alþingi Íslendinga fyrir fram.