136. löggjafarþing — 88. fundur,  25. feb. 2009.

greiðsluþátttaka almennings í heilbrigðiskerfinu o.fl.

[13:53]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég var ekki á títtnefndum ríkisstjórnarfundi 30. september sem hv. þingmaður vísar í og fór ekki yfir þessi mál með seðlabankastjóra. Ef ég skil seðlabankastjóra rétt þá fór hann yfir þetta með oddvitum ríkisstjórnarflokkanna og þeirra ráðherrum sem tengdust þessum málum beint — það voru ekki bara ráðherrar Sjálfstæðisflokksins eins og allir vita. Það hefði kannski verið eðlilegra að hv. þingmaður hefði beint spurningum sínum til þeirra, hann gerir það kannski á þingflokksfundi Samfylkingarinnar.

Hvað sem því líður vil ég nota tækifærið og hvetja hv. þm. Árna Pál Árnason til dáða þegar kemur að greiðsluþátttökukerfinu í heilbrigðiskerfinu. Það eru mjög slæmar fréttir ef menn ætla að leggja af þær áætlanir og þá vinnu sem var til staðar með því að jafna kostnað, þ.e. færa kostnað frá þeim sem þurfa að nota kerfið mjög mikið yfir til þeirra eða okkar sem notum það endrum og eins.

Það er engin afsökun að vera að vísa í spítalana. Eins og allir vita sem hafa komið inn á spítala greiða menn fyrir þjónustu þar. Ég var sjálfur að greiða ákveðna þjónustu eftir að ég lagðist inn á spítala um daginn, 25 þús. kr. reikning sem ég gat svo sem alveg þolað. Það var ekkert vandamál. En það er brýnt að þetta mál komist í gegn og mjög slæmt ef ný ríkisstjórn ætlar að tefja það. Ég hvet hv. þm. Árna Pál Árnason til þess að ýta eftir þessu máli því að ég veit að hann hefur góðar skoðanir í því.

Ég vil líka nota tækifærið og hvetja forsvarsmenn stjórnarflokkanna til að upplýsa hæstv. viðskiptaráðherra um stefnu ríkisstjórnarinnar ef hún er í samræmi við það sem hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir nefndi hér áðan. Það er ekki gott ef hæstv. viðskiptaráðherra er mikið í útlöndum að tala fyrir einhverju öðru. (Forseti hringir.)