136. löggjafarþing — 88. fundur,  25. feb. 2009.

greiðsluþátttaka almennings í heilbrigðiskerfinu o.fl.

[13:58]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil fylgja hér eftir fyrirspurn hv. þm. Péturs H. Blöndals til Árna Páls Árnasonar þar sem hann nefndi það réttilega að við byggjum við tryggingakerfi sem væri óréttlátt og að greiðsluþátttaka almannatryggingakerfisins væri flókin. Þannig er það. Því var þessi nefnd, sem hv. þingmaður hefur veitt forstöðu, sett á laggirnar og ég tel að sú nefnd hafi unnið vel. Henni var falið að hefja vinnu við að skoða hvernig hægt væri að einfalda greiðsluþátttöku sjúklinga í lyfjum og gera kerfið réttlátara.

Vinna nefndarinnar varð viðameiri eftir því sem leið á. Fleiri þættir voru teknir inn og ég tel að undir lokin hafi í rauninni verið orðið of mikið undir til þess að við gætum við núverandi aðstæður farið í það mikla skipulagsvinnu og tel miklu heppilegra, eins og hæstv. heilbrigðisráðherra hefur gert, að einfalda þessa vinnu, nýta þessa vinnu og skoða þann þátt sem átti að gera í upphafi, þ.e. lyfjamálin og endurgreiðslur til sjúklinga vegna lyfjakaupa. Sjá hvernig það reynist og yfirfæra þá það kerfi yfir á fleiri þætti og taka þetta svona í skrefum. Ég tel að það sé líklegra til að gefa okkur mynd af því breytta kerfi sem farið var að vinna að. Ég tel að sú mikla undirbúningsvinna sem nefndin hefur unnið muni nýtast inn í margþætta vinnu sem við þurfum og verðum að fara í í framtíðinni til þess að einfalda kerfið, ég tala nú ekki um að gera bótakerfið réttlátara (Forseti hringir.) en það er í dag.