136. löggjafarþing — 88. fundur,  25. feb. 2009.

greiðsluþátttaka almennings í heilbrigðiskerfinu o.fl.

[14:00]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að undirstrika mikilvægi þess máls sem Eygló Harðardóttir tók hér upp áðan um vaxtalækkunina. Ég vil líka bregðast við því sem sagt var um að sækja Breta til saka vegna hryðjuverkalaganna og orða hv. þm. Árna Johnsens hér áðan. Síðasta ríkisstjórn, sem var ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, skoðaði þetta einmitt, hvort við ættum ekki bara að fara í mál við Bretana vegna hryðjuverkalaganna. Og hver varð niðurstaða Sjálfstæðisflokksins í því, og Samfylkingarinnar? Niðurstaðan varð að gera það ekki og sú niðurstaða var ekki gripin úr lausu lofti. Þetta var sérstaklega skoðað og bresk lögfræðistofa fengin til að fara yfir málið. Niðurstaða þeirrar lögfræðistofu var að afar litlar líkur væru á að slíkt mál ynnist, mjög litlar líkur á að ná fram skaðabótum og bresk stjórnvöld hefðu ríkar heimildir til að beita hryðjuverkalöggjöfinni. Það var sameiginleg niðurstaða ríkisstjórnarinnar að fara ekki í mál gagnvart Bretunum. Sjálfstæðisflokkurinn sat þar við borðið og ríkislögmaður var sammála þessu mati og það var líka þjóðréttarfræðingurinn í utanríkisráðuneytinu.

Það er ekki eins og menn séu eitthvað að finna upp hjólið hér allt í einu núna í þessu máli. En það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur að það er enn opið gagnvart Mannréttindadómstólnum sem er allt annað mál. Sjálfstæðisflokkurinn ákvað að fara ekki í mál við Breta vegna hryðjuverkalaganna, rétt skal vera rétt.

Ég kom hingað upp, virðulegur forseti, til að tala um heilbrigðismálin af því að ég ásamt fleiri þingmönnum fékk kynningu á því kerfi sem var til skoðunar undir forustu hv. þm. Péturs H. Blöndals og ég verð að segja að mér leist frekar vel á þær hugmyndir. Það er mjög skrýtið ef vinstri grænir ætla ekki að vinna áfram með þetta mál, þarna átti að jafna út. Það er svolítið sósíalísk hugsun í því kerfi en núna vilja sjálfstæðismenn, sem oft hafa talað um raunkostnað, (Forseti hringir.) setja þetta kerfi á en vinstri grænir eru óvissir þannig að það er búið að snúa öllu á haus. Ég vona að haldið verði áfram með (Forseti hringir.) þessa vinnu sem ég held að hafi verið í góðum farvegi.