136. löggjafarþing — 88. fundur,  25. feb. 2009.

greiðsluþátttaka almennings í heilbrigðiskerfinu o.fl.

[14:05]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Það er mér mikið ánægjuefni að vera kallaður, eða allt að því, sósíalisti. Málið snýst um það í þessari nefnd um greiðsluþátttöku að þeir sem eru sjaldan veikir, kannski einu sinni á þriggja ára fresti, borgi mikið en hinum sem eru stöðugt veikir, gigtarsjúklingar, sykursjúklingar og aðrir sem eru kannski veikir í áratugi, sé hlíft við miklum kostnaði. Þeir borga mjög mikið í dag, sumt fólk borgar 250.000 á ári í heilbrigðiskerfinu. Það borgar hingað og þangað, það er með ólíkindum hvað fólk er að borga í kerfinu. Það eru ferliverk, rannsóknir, myndatökur, læknisheimsóknir og sjúkrabílar o.s.frv. Ég gleymdi lyfjum, stundum mikil, stundum ekki nein.

Nefndin ætlaði að líta á allt heilbrigðiskerfið frá sjónarhorni einstaklinga og það munaði eiginlega bara nokkrum dögum, þá féll ríkisstjórnin. Eins og með margt annað í þjóðfélaginu þýða þessi miklu skipti að þjóðin bíður sennilega í sex mánuði, það verður sex mánaða bið þar sem ekkert er gert. Við sjáum það með ríkisstjórnina, það kemur eiginlega ekkert frá henni. Þessi nefnd er núna í biðstöðu. Ég lít þannig á að hún sé enn þá starfandi og ég reikna með því að hún skili nefndaráliti. En það er spurning um vilja ríkisstjórnarinnar til að taka upp þær hugmyndir sem nefndin var búin að vinna og hún komst að þeirri niðurstöðu að það væri ekki skynsamlegt að taka lyfin fyrst. Þá mundu sumir þurfa að borga sem borga ekki neitt í dag og þeir borga jafnframt annars staðar. Það mundi búa til meira ójafnrétti þannig að það yrði að taka allt kerfið upp í einu. Það var búið að gera áætlanir um það, bæði tæknilega og framkvæmdalega og allt slíkt, þannig að ég skora á hæstv. ríkisstjórn að taka sér tak og keyra þetta mál áfram.