136. löggjafarþing — 88. fundur,  25. feb. 2009.

skattamál.

294. mál
[14:13]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er athyglisvert að hv. þm. Ragnheiður E. Árnadóttir spyr hér fjármálaráðherra og virðist hafa mestar áhyggjur af því hvort til standi að leggja á svokallaðan hátekjuskatt. Hv. þingmaður gerir sér væntanlega ljóst að áralöng óstjórn í efnahagsmálum og fjármálum þjóðarinnar, undir forustu Sjálfstæðisflokksins, hefur leitt yfir þjóðina miklar efnahagslegar hörmungar og niðursveiflu í efnahagsmálum sem á sér vart fordæmi, a.m.k. ekki á Norðurlöndum. (Gripið fram í.) Hluti af þessu hruni efnahagslífsins er auðvitað þess eðlis að hann kemur niður á sameiginlegum sjóðum landsmanna með hundruð milljarða króna skuldaaukningu ríkissjóðs, gríðarlegum útgjöldum og vaxtakostnaði sem getur orðið af stærðargráðunni 100 milljarðar króna á einhverra ára bili. Þessi reikningur er áfallinn, það er búið að leggja á þessa skatta og það er efnahagsóstjórn og efnahagshrun sem umfram alla aðra flokka er ábyrgð Sjálfstæðisflokksins sem leggur á þennan skatt.

Hann er staðreynd vegna þess að þessa hluti mun þurfa að borga. Og hvernig á að gera það? Þessir skattar eru sannarlega arfleifð frá fyrri ríkisstjórn, það er verkefni þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr að reyna að greiða úr þessum málum og bjarga samfélaginu í gegnum veturinn. Að sjálfsögðu tekur hún ekki ákvarðanir í skattamálum á öndverðu fjárlaga- og skattaári, hún situr í 80 daga eða hvað það nákvæmlega verður. Það bíður hins vegar ríkisstjórna á komandi árum að leysa úr þessum gríðarlega vanda og afla ríkinu tekna til að standa undir samneyslunni, velferðarþjónustunni — og borga skuldirnar sem Sjálfstæðisflokkurinn skilur eftir sig. Ef einhver kann betri ráð til þess en m.a. þau að reyna að afla einhverra tekna með sanngjörnum og réttlátum hætti þannig að þeir borgi sem eitthvað hafa til að borga með lýsi ég eftir því.

Það er alveg á hreinu að áherslur þessarar ríkisstjórnar í skattamálum verða ekki þær sem Sjálfstæðisflokkurinn beitti sér fyrir á veltiárunum, að dekra sérstaklega við best setta fólkið, tekjuhæsta fólkið. Er það virkilega þannig að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi hér ekkert annað til að hafa áhyggjur af en tekjuhæsta fólkið í landinu? (Gripið fram í.) Það liggur í þessari fyrirspurn að þar liggi áhyggjur Sjálfstæðisflokksins, ekki af lágtekjufólki, ekki af atvinnulausum, nei, af þeim sem eru svo vel settir að hafa fulla atvinnu og góðar tekjur.

Málið stendur einfaldlega þannig að breytingar á skattamálum eru ekki á dagskrá þessarar ríkisstjórnar af augljósum ástæðum. Það verður verkefni nýrrar ríkisstjórnar. Hins vegar er undirbúningur undir fjárlög næsta árs og ríkisfjármálaramma til meðallangs tíma í verkefni núverandi ríkisstjórnar vegna þess að það þarf að undirbúa. Hefðbundinn fjárlagaundirbúningur er að sjálfsögðu í gangi.

Þá þarf að leita leiða til þess að brúa gríðarlegt bil milli tekna og gjalda ríkissjóðs sem við stöndum frammi fyrir. Skildi ekki ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins eftir fjárlög fyrir þjóðina með 150 milljarða króna halla? Jú, ef ég man rétt. Ætla menn að reka þetta lengi þannig? Hvernig endar það? Það endar þannig að vaxtakostnaður drekkir samfélaginu, drekkir ríkinu, ef það rekur sig með halla af þessari stærðargráðu endalaust. Það væri sama útkoma og kom út úr því að reka viðskipti Íslands við útlönd með dúndrandi viðskiptahalla á löngu árabili. Það þarf nefnilega alltaf að borga slíka reikninga að lokum, það verða einhverjir að gera það.

Það skal vera algerlega á hreinu að ef ég fer höndum um það á næsta kjörtímabili hvernig þessum byrðum verður dreift verður reynt að gera það á félagslegan og sanngjarnan og réttlátan hátt. Ég tek undir þau orð forsætisráðherra að að sjálfsögðu er markmið að hlífa fólki með lágar tekjur og meðaltekjur eins og kostur er. Hvað þýðir það? Væntanlega þá að þeir sem eru best settir leggja meira af mörkum. Það er félagslega réttlátt, sanngjarnt, samábyrgt fyrirkomulag í anda þess besta sem þekkist á norræna vísu. Og að slíku munum við vinna.

Vonandi hefur þetta svarað spurningunni. Á 80 daga starfstíma þessarar ríkisstjórnar verða ekki lagðir á nýir skattar en það er augljóst mál að það verkefni bíður nýrrar ríkisstjórnar (Forseti hringir.) að takast á við þessa hluti og með vorinu verða þeir hlutir orðnir útfærðir og sá sem hér stendur í sporum (Forseti hringir.) fjármálaráðherra, hver sem það verður þá, getur þá gefið fyllri svör.